Leita í fréttum mbl.is

Karlar betri í sparnaði en konur?

Í Mogganum í gær (23. júlí) er stutt frétt undir fyrirsögninni: Karlar betri í sparnaði en konur. Þar segir frá nýrri norskri könnun sem leiddi í ljós að karlar væru duglegri að spara en konur. Þeir leggðu meira fyrir og ávöxtuðu peningana betur (væru áhættusæknari í fjárfestingum og fengju þannig hærri ávöxtun).

Í könnuninni er reynt að finna skýringar á þessu. Ein sú augljósasta er sögð sú að karlar í Noregi, líkt og víða annars staðar, þéni meira en konur og hafi því meiri peninga til að leggja til hliðar í sparnað.

Athyglisverðasta skýringin er þó sú að laun kvenna færu í að borga reikningana á meðan laun karlanna færu í sparnaðinn.

Ef aðilar eru í hjúskap eða staðfestri samvist þá skiptir svo sem ekki máli úr hvorri buddunni reikningarnir eru borgaðir og úr hvorri sparnaðurinn, að því gefnu að nettóstaða parsins sé jákvæð, þ.e. eignir séu umfram skuldir. Helmingaskiptareglan, sem er meginregla við slit á hjúskap eða staðfestri samvist, tryggir að nettóeignin skiptist í tvennt.

En hjá fólki í óvígri sambúð skiptir miklu máli hver borgar hvað. Enn sem komið er höfum við hér á landi ekki lögfest reglur um fjárskipti við slit á óvígðri sambúð. Þar gilda því sú meginregla að hvor tekur sitt, eignir og skuldir. Í óvígðri sambúð getur því skipt miklu máli ef staðan er sú að konan hefur borgað reikningana en karlinn hefur eytt í sparnað, eða öfugt. 

Mér finnst að ágreiningsmálum vegna fjárskipta við slit á óvígðri sambúð hafi fjölgað síðustu tvö ár eða svo. Ég tel skýringuna vera þá miklu verðhækkun sem varð á fasteignamarkaði eftir að bankarnir komu inn með fasteignalánin síðla árs 2004. Fjölmargir sem keyptu sér fasteign fyrir þá hækkun hafa hagnast vel, jafnvel um milljónir króna. Við slit á óvígðri sambúð hjá pari í slíkri stöðu þá hefur iðulega komið upp ágreiningur um það hvernig skipta eigi þessum margra milljóna hagnaði. Einkum hefur slíkur ágreiningur komið upp í þeim tilvikum þar sem framlög aðila til fasteignakaupanna í upphafi voru ójöfn, þrátt fyrir að eignin væri skráð þannig að hvort ætti helming. Ýmsir dómar Hæstaréttar á liðnum misserum hafa skerpt reglur í þessu sambandi, en álitamálin varðandi fjárskipti geta samt verið fjölmörg við slit á óvígðri sambúð. 

Ég tel að það sé löngu tímabært að lögfesta að við slit á óvígðri sambúð skuli meginreglur um fjárskipti við slit á hjúskap og staðfestri samvist gilda. 

Síðan þurfa pör, hvort sem þau stofna til óvígðrar sambúðar eða að ganga í hjúskap eða staðfesta samvist, að sýna meiri fyrirhyggju varðandi fjármál sín. Ef það er munur á eignarstöðunni þá þarf að hugsa það til enda hvernig aðilar vilja hafa fjárskiptin ef sambúðin, hjúskapurinn eða staðfesta samvistin lukkast ekki með þeim hætti sem lagt er upp með í upphafi. Til að hafa allt sitt á þurru er öruggast að gera samninga ef um óvígða sambúð er að ræða. Kaupmála þarf að gera ef um hjúskap eða staðfesta samvist er að ræða og menn vilja ekki una helmingaskiptareglunni. Það kostar einhverja tíuþúsund kalla af gera slíka samninga hjá lögmanni, en það getur sparað hundruð þúsunda í lögmannskostnað síðar. Þetta hefur ekkert með ást að gera eða svartsýni á sambandið, heldur er þetta fyrirhyggja og forsjálni. Fyrirhyggja og forsjálni, í þessum efnum sem öðrum, borgar sig alltaf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

  Fyrirsögnin er villandi.  Konur eru nefnilega betri í sparnaði en karlar eru betri í áhættufjárfestingum.  Sparnaður gengur út að að passa upp á þá peninga sem eru til staðar.  Fjárfestingar ganga út á að ávaxta þá peninga sem þola áhættu.  Grunnmunurinn á þessu tvennu er sá að "gambla" ekki með peninga sem hætta er á að tapast ef illa fer.  Ég man ekki hvert hlutfallið er mig rámar í að í Bandaríkjunum fari hlutfallslega töluvert fleiri fyrirtæki karla í gjaldþrot en kvenna.  Mig minnir - en set fyrirvara við að hafa tölur ekki fyrir framan mig - að 4 af hverjum 5 fyrirtækjum sem karlar setja á stofn fari  á hausinn.  Hlutfallið er lægra hjá fyrirtækjum sem konur setja á stofn.  Þori samt ekki að nefna tölur í því samhengi.   

Jens Guð, 24.7.2007 kl. 23:30

2 Smámynd: Dögg Pálsdóttir

Enda setti ég spurningamerki aftan við fyrirsögnina.  Og það er rétt hjá þér, ég man eftir þessum tölum um betri árangur fyrirtækja í eigu kvenna þar sem þær væru varkárari við meðferð fjármuna en karlarnir. En alhæfingar eru engu að síður varasamanr.

Dögg Pálsdóttir, 24.7.2007 kl. 23:36

3 identicon

Konur leggja hlutfallslega meira og lengur fyrir en karlar áður en þær stofna fyrirtæki, taka lægri lán og byrja smærra í sniðum í rekstrinum en þeir. Þess vegna er mun minni hætta á að þær verði gjaldþrota. Konur byggja smátt og smátt ofan á það sem fyrir er eða halda sig við lítinn rekstur.

Dansóða kyntröllið (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 23:59

4 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Enn er könnunin ekki hrunin þegar svo kemur fram í henni að konurnar borga reikningana á meðan karlarnir leggja fyrir mér sýnist að þar með standist þetta ekki lengur, eða er ég að misskilja þetta eitthvað?

Ég er ekkert hissa á því að konur reki sín fyrirtæki betur jú þær gambla síður, byggja á traustari grunni og ekki síst þær taka kaldari ákvarðannir s.s. skynsamari.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 25.7.2007 kl. 20:19

5 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Heyr heyr Dögg,ég segi bara hreint út bingó ég mun sannarlega gera slíkan samnig næst ef eitthvað næst verður.Málið er auðvitað að vera sanngjarn í skiptingu og meta stöðu jafnt,síðan munu aðilar auðvitað skipta rétt hvað kom frá hverjum og frá hvorri fjölskyldu það kom.

Best væri náttúrulega að samband hafi haldið en munum eitt,maður og kona eitt hold og þeirra samvist skal meta svo þegar slíta skal holdi skal reikna hvað hvort kom með og framreikna slíkt,síðan er það sem áunnist hefur skipt til helminga.En þetta mun vissulega vera mín skoðun.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 25.7.2007 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 392215

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband