Leita í fréttum mbl.is

Um hvað snýst þjóðaratkvæðagreiðslan?

Einstakir þingmenn Samfylkingarinnar sega þjóðaratkvæðagreiðsluna snúast um ríkisstjórnina eða forsetann. Annað hvort ríkisstjórnin eða forsetinn verði að víkja að henni lokinni. Nú slæst formaður Sjálfstæðisflokksins í þennan hóp og segir þjóðaratkvæðagreiðsluna snúast í víðu samhengi um líf ríkisstjórnarinnar. Er einhver ástæða til að nálgast málið með þessum hætti? Atkvæðagreiðslan snýst um framtíð Íslands, að gera okkur kleift að standa við hugsanlegar lagalegar skuldbindingar, með þeim hætti að við fáum undir skuldbindingunum risið. 

Ríkisstjórnin, með réttu eða röngu, taldi sér ekki annað fært en að knýja Icesave frumvörpin í gegn, fyrst hið fyrra og svo hið síðara, eftir að fyrirvarar Alþingis í hinu fyrra fengu ekki náð fyrir augum viðsemjendanna. Ýmislegt bendir til að betur hefði mátt halda á þessu Icesave máli. Fá teikn eru þó á lofti um að stjórnarandstaðan, hefði hún verið á valdastólum, hefði haldið betur á því. Í því sambandi má m.a. benda á að þingsályktunin, sem samþykkt var 5. desember 2008, sem heimilaði stjórnvöldum að ganga til samninga við Breta og Hollendinga um Icesave, var stutt og laggóð, svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.

Ekki er mikið um fyrirmæli til samninganefndarinnar eða kröfur um hvernig skyldi semja eða ekki semja. Vissulega er vísað í að semja skuli á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafi komið sér saman um. Og hver voru þau? Í fylgiskjali með þingsályktunartillögunni segir eftirfarandi undir fyrirsögninni: Umsamin viðmið:

1.      Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/ EBE. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
    2.      Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.
    3.      Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.

Sú ríkisstjórn sem sat í desember 2008 og raunar sú stjórnarandstaða sem þá var á Alþingi sá ekki ástæðu til að nesta samninganefndina betur en að framan greinir og alls ekki með öllum þeim fyrirvörum sem sem síðan voru af hálfu Alþingis settir í frumvarpið sumarið 2009.

Þjóðin er orðin langleið á þeim sandkassaleik sem henni hefur verið boðið upp á í sölum Alþingis við umfjöllun Icesave frumvarpanna. Nú þarf stjórn og stjórnarandstaða að snúa bökum saman og finna lausn sem lýkur þessu máli.

Margt jákvætt hefur verið sagt í hinni erlendu pressu á síðustu dögum. Ýmsir hafa talað okkar máli erlendis og svo virðist sem skilningur á okkar sjónarmiðum sé að aukast. Þennan meðbyr þarf að nýta og það tekst best ef allir leggjast á eitt, stjórn og stjórnarandstaða. Það verður ekki gert með því að tala fyrir því að kosningarnar snúist um eitthvað annað en afstöðuna til Icesave laganna.
mbl.is Bjarni: Snýst um líf ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Bjarni segir:

"„Ríkisstjórn sem getur ekki leyst þetta vandamál getur ekki haldið áfram."

Hvaða vandamál er Bjarni að tala um?

Icesave samningurinn? Þögn Breta og Hollendinga? Þjóðaratkvæðagreiðslan?

Sigurður Haukur Gíslason, 12.1.2010 kl. 21:53

2 Smámynd: Sævar Helgason

Góður pistill hjá þér.

Sævar Helgason, 12.1.2010 kl. 22:05

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Er þessi klausa úr fylgiskjalinu ekki það, sem málið snýst einmitt um:

"Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins."

Aðilar eru sem sagt sammála um að tilskipun 19/94/EBE gildi hér á sama hátt og annarsstaðar í Evrópu.  Liepitz, Evrópuþingmaður og sérfræðingur í tilskipunum og reglugerðum ESB um fjármálastofnanir staðfesti í Silfri Egils og ítrekaði í MBL, að ríkisábyrgð ætti ekki og mætti ekki vera á innistæðutryggingasjóðunum.

Um viðurkenningu á því, hlýtur baráttan framundan að snúast.

Axel Jóhann Axelsson, 12.1.2010 kl. 22:14

4 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Í óláns samningi þeim sem Svavar kom heim með er tilskipun 94/19/EC vikið til hliðar og því augljóst að hann fór lagt út fyrir þær heimildir sem ályktunin vetir.

Guðmundur Jónsson, 13.1.2010 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband