Leita í fréttum mbl.is

Forseti Íslands á næsta leik

Ríkisstjórnin fullyrti að ef lausn fengist ekki í í Icesave málinu yrðum við einangruð í samfélagi þjóðanna. Margt bendir til að lausn Icesave málsins hafi verið það verð sem við urðum að borga til að mál okkar fengju framgang hjá AGS. Meira að segja Norðurlandaþjóðirnar virðast hafa gert lausn málsins að skilyrði fyrir þeim lánveitingum sem þeir höfðu heitið okkur. Ýmislegt bendir því til að  pólitískt séð hafi engin önnur leið verið fær en að semja um lausn málsins. 

Það var gert. Margir telja að í þeim samningum hafi ekki tekist að lenda hagstæðustu niðurstöðunni fyrir Ísland. Það er óþægileg staða í málinu, sem þjóðin situr uppi með. Meirihluti Alþingis hefur samþykkt frumvarp sem byggir á þessari samningsniðurstöðu. Með því hefur ríkisstjórnin staðið við þær kröfur sem hún segir að hið alþjóðlega samfélag hafi gert.

Er málinu þar með lokið? Nei. Því fer fjarri. Forseti Íslands á næsta leik. Hlýtur sá leikur ekki að verða sá að neita að staðfesta frumvarpið með vísan til 26. gr. stjórnarskrárinnar? Það gerði hann 2004 í fjölmiðlamálinu. Höfðu þá færri Íslendingar en nú skorað á hann að beita synjunarvaldinu.

Það liggur fyrir að nú, líkt og 2004, er almenningur í landinu mjög ósáttur við frumvarp sem Alþingi hefur samþykkt. Ætli forseti Íslands að vera sjálfum sér samkvæmur hlýtur hann að beita 26. gr. stjórnarskrárinnar gagnvart Icesave frumvarpinu. Með því tryggir hann að þjóðin hefur síðasta orðið um afdrif Icesave málsins í núverandi búningi. 


mbl.is Alþingi samþykkti Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig má það vera?

Hvernig má það vera að enn sé haldið leyndum gögnum sem tengjast Icesave-málinu? Hvernig má það vera að ríkisstjórn, sem hélt af stað í sinn leiðangur með opna stjórnsýslu og gegnsæi að leiðarljósi, skuli bjóða okkur upp á að leynd sé viðhaldið? Hverra hagsmuna er verið að gæta með því að viðhalda þessari leynd? Leyndin virðist ekki mikilvægari en svo að breska lögmannsstofan, sem verið hefur ráðgjafi stjórnvalda um margra mánaða skeið, segist hafa hvatt stjórnvöld til að aflétta leyndinni, en við því hafi ekki orðið.

Þessar upplýsingar kalla á sérstakar skýringar af hálfu stjórnvalda. Það er ólíðandi að enn skuli eitthvað falið sem tengist Icesave-málum. Allt stefnir í að íslenskur almenningur sitji uppi með skuldabagga áratugi fram í tímann vegna Icesave. Er ekki lágmark að íslenskur almenningur fái söguna alla í þessu máli?


mbl.is De Reya svarar Steingrími
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðileg jól

JólamyndSendi öllum, nær og fjær, hugheilar óskir um gleðilega jólahátíð.

Loksins

Fjöldi ósjúkratryggðra hefur verið alvarlegt vandamál í Bandaríkjunum. Allar umbætur í þá átt að fækka í þeim hópi eru mikilvægar. Margir forsetar hafa einsett sér að gera breytingu á þessu ástandi, en ekki haft árangur sem erfiði. Clinton ætlaði sér m.a. stóra hluti í þessu sambandi. Það er því mikivægur pólitískur sigur fyrir Obama að hafa náð þessu máli í gegn.
mbl.is Heilbrigðisfrumvarp Obama samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattpínd þjóð

Ríkisstjórnin lofaði skjaldborg um heimilin og fjölskyldurnar. Sú skjaldborg var aldrei reist. Fjölskyldurnar í landinu hafa fyrir löngu gefist upp á biðinni eftir henni. 

Jólaandi ríkisstjórnarinnar birtist þjóðinni í óbilandi trú á að auknir skattar leysi allan vanda. Þær verða sífellt ófrýnilegar jólagjafirnar sem ríkisstjórnin ætlar að gefa þjóðinni. Fyrir nýjum skattaálögum standa fjölskyldurnar í landinu berskjaldaðar og varnarlausar.

Það gæti varla orðið verra fyrir þjóðina að fara í jólaköttinn ...


mbl.is Heimsins hæsti skattur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfgefið val

Það leiðir nánast af sjálfu sér að sá kvenstjórnmálamaður sem er fyrstur til að leiða ríkisstjórn hér á landi hlýtur að vera valin kona ársins á því ári. 

Forsætisráðherra er vel að þessari útnefningu kominn. Forsætisráðherra hefur hins vegar fengið að kenna á því, eins og fjölmargir forverar hennar í starfi, að vinsældirnar dvína hratt þegar taka þarf á erfiðum málum og leysa snúin viðfangsefni. Það er kalt, vindasamt og sjálfsagt einmannalegt líka, á toppnum. Flóknari verkefni hafa sennilega aldrei frá lýðveldisstofnun verið á borðum nokkurrar ríkisstjórnar. Það er merkileg tilviljun að áður óþekktar áskoranir fyrir þjóðina verða hlutskipti fyrstu konunnar sem hér verður forsætisráðherra.


mbl.is Jóhanna valin kona ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing Alþingis

Svo virtist fyrir helgi sem samkomulag hefði náðst milli stjórnar og stjórnarandstöðu um lok 2. umræðu Icesave. Ekki var betur séð en að stjórnin hefði fallist á kröfur stjórnarandstöðunnar um ítarlega skoðun nokkurra atriða milli 2. og 3. umræðu.

Nú virðist hins vegar sem Framsóknarflokkurinn sé með þetta samkomulag í einhvers konar gíslingu af því að áður en 2. umræðu er lokið eru þeir ekki að fá "réttu svörin" varðandi vinnulagið í fjárlaganefnd milli 2. og 3. umræðu. Þar með virðist Framsóknarflokkurinn ætla að ganga á bak við það samkomulag sem gert var.

Það er ekki til þess fallið að auka virðingu Alþingis að standa að samkomulagi um málsmeðferð og efna síðan til ágreinings um túlkun þess sama samkomulags.


mbl.is Átök innan Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsakið, matarhlé ...

Í kvöldfréttum á annarri hvorri sjónvarpsrásinni var skýrt frá umræðum á Alþingi í dag þar sem þingmenn kvörtuðu sáran yfir því að vera svangir af því að ekki hafði verið gert hlé á þingfundi vegna  hádegismatar. Mátti skilja það svo að það jaðraði við mannréttindabrot að þingmenn fengju ekki matarhlé. 

Maður eiginlega trúði ekki eigin eyrum. Mötuneyti þingsins er meira og minna opið meðan á þingfundum stendur. Þangað leita þingmenn til að ná sér í næringu hvað sem líður matarhléum frá þingstörfum. Enda er í matsalnum sjónvarp þar sem auðvelt er að fylgjast með umræðunni og hlaupa til ef þörf krefur. Beinar útsendingar frá þingfundum benda ekki til að þingmenn telji það skipta miklu máli hvort þeir sitji í þingsalnum eða ekki, hvað sem líður matarhléum eða öðrum hléum frá þingstörfum. Þegar á þetta er bent segjast þeir vera á skrifstofum sínum og fylgjast með beinni útsendingu í gegnum sjónvarpsskjái sem eru á skrifstofum þeirra.

Halda þingmenn að þjóðin hafi þolinmæði í að hlusta á svona fáránlega kveinstafi? Eru ekki einhver brýn mál sem þarf að ræða og afgreiða? Það er skiljanlegt þegar kvartað er yfir óvissu um hvort kvöldfundir verði og hvenær kvöldfundum lýkur. Slík umræða snýr að skipulagningu sem þingmenn þurfa að gera á sínu persónulega lífi, vegna þingfunda. En að halda því fram að þeir komist ekki til að fá sér matarbita vegna þingfunda er fyrir neðan það sem boðlegt er.

Þingmönnum er tíðrætt um virðingu Alþingis. Virðingu fyrir Alþingi skapa þingmenn sjálfir. Þeir auka hana ekki með málfutningi af þessu tagi. 


mbl.is Enn er rætt um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri

ekki eðlilegast að Framsóknarflokkurinn, sem tilnefndi þennan einstakling til setu í bankastjórn Seðlabanka Íslands, bæri þann viðbótarkostnað sem af tilnefningunni skapast? Er eðlilegt að tilnefningaraðili geti með þessum hætti skapað umtalsverðan viðbótarkostnað og beri á honum enga ábyrgð?
mbl.is Gros kostar Seðlabanka 5 milljónir á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfsannleikur

Fyrsta frétt Stöðvar 2 nú í kvöld var um mál sem ég þekki gjörla vegna lögmannsstarfa minna fyrir annan málsaðilann um sjö ára skeið vegna deilu um forsjá milli þessara foreldra. Frá upphafi hefur annað foreldrið margsinnis tálmað umgengni hins foreldrisins við börn sín. Síðast hóf þetta foreldri þann leik í september 2007. Frá þeim tíma hefur umbjóðandi minn, hið forsjárlausa foreldri, svo gott sem enga umgengni fengið við þrjú börn sín nema með þeim aðferðum sem lög leyfa að viðhafðar séu þegar forsjárforeldri tálmar umgengni.

Innsetning í umgengni er neyðarúrræði enda sett fram sem slíkt í barnalögum. Það að forsjárforeldrið í þessu máli hefur í þrígang fengið á sig úrskurð héraðsdóms um innsetningu hlýtur að segja talsvert um það hversu einbeittur vilji þess er til að viðhalda umgengnistálmunum. Þetta sama foreldri hefur þegar greitt 2 m.kr. í ríkissjóð í dagsektir frekar en að láta af tálmunum. 

Ef við víkjum að umfjölluninni um innsetninguna 2. júlí sl., sem ég var viðstödd, þá tel ég lögregluskýrsluna draga upp bjagaða mynd af því sem þar fór fram. Það er ekki vaninn að lögregla geri skýrslu um innsetningargerð. Lögregluskýrslan var gerð að beiðni lögmanns forsjárforeldrisins, þess foreldris sem búið var að dæma til að þola innsetningu og verður að skoðast í því ljósi. Fulltrúar Barnaverndar sem viðstaddir voru gerðina lögum samkvæmt gerðu athugasemdir við lögregluskýrsluna og framsetningu málsins í henni. Stöð 2 gat þeirra athugasemda að engu. Veit ég þó að fréttamaðurinn var með athugasemdirnar undir höndum. Í fréttinni var efnislega fjallað um málefni þessara foreldra þó mér væri sagt að eingöngu ætti að fjalla um innsetningargerðina sem slíka. Því var haldið fram að fyrir lægi játning föður á ofbeldi gagnvart móður og barni. Þetta er rangt. Því var haldið fram að eftir umgengni barnsins í sumar, sem komið var á með innsetningunni, hefði barnið þurft á læknisaðstoð að halda og vísað í læknisvottorð í því sambandi. Þetta er líka rangt.

Því var sleppt í fréttinni að geta þess að sumarleyfi barnsins með föður, sem fyrst komst á með innsetningargerðinni, var framlengt með dómsátt um tvær vikur enda kæmist utanaðkomandi sálfræðingur með viðræðum við barnið að því að það yndi hag sínum vel hjá föður og föðurfjölskyldu og vildi vera þar lengur.

Fjölmiðlar eru stundum kallaðir fjórða valdið. Þetta vald er vandmeðfarið. Fréttamennskan sem birtist í umræddri frétt Stöðvar 2 sýnist ekki fullnægja kröfum um vönduð vinnubrögð.


Sammála

Ég tek undir hvert orð forstjóra Barnaverndarstofu í þessu viðtali Hið gífurlega álag sem er á starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur hlýtur að vera viðfangsefni sem borgarstjórn tekur á og það sem fyrst. Umræðan um þetta álag er ekki ný af nálinni en hefur nú tengst hugsanlega slökum vinnubrögðum í máli. Ég er sammála mati forstjóra Barnaverndarstofu á vinnubrögðunum í því máli. Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur þau til athugunar og mun væntanlega komast að niðurstöðu.

Við viljum trúa því að vinna í barnaverndarmálum sé góð og að mistök fortíðar séu eitthvað sem aldrei geti gerst aftur. Almennt séð fullyrði ég að barnaverndarstarf er vandað. En sérhver mistök sem gerð eru eru alvarleg því þau grafa undan trúverðugleika barnaverndarstarfsins. Það er slæmt því það tekur tíma að byggja upp trúverðugleika á ný.

Rætt hefur verið um einhliða umræðu í þessu sambandi því barnaverndaryfirvöld telja sig bundin þagnarskyldu þegar kemur að umræðu um einstök mál, sem rata í fjölmiðla. Ég er ósammála þessari skoðun barnaverndaryfirvalda. Ef einstaklingur gengur fram opinberlega og ræðir afskipti barnaverndaryfirvalda af sínum málum þá er sá sami einstaklingur a.m.k að leyfa að barnaverndaryfirvöld svari því og leiðrétta það sem einstaklingurinn hugsanlega fer ranglega með í umræðunni. Auðvitað er þetta vandmeðfarið en það er óþolandi fyrir hvern þann aðila, sem bundinn er þagnarskyldu, ef túlka á þagnarskylduna svo þröngt að viðkomandi geti ekki einu sinni borið af sér sakir eða leiðrétt rangfærslur og vitleysur. Þetta er nokkuð sem ég hygg að ræða þurfi betur og setja einhverjar leiðbeiningareglur um. 


mbl.is Eru með allt að 60 mál barna á sinni könnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til fyrirmyndar

Þetta finnst mér góð ákvörðun hjá ríkisstjórninni og til fyrirmyndar fyrir okkur öll. Í fyrra gerði ég þetta, reiknaði út hvað það hefði kostað mig að senda jólakort og gaf andvirðið til Hjálparstofnunar kirkjunnar. Ég ætla að gera hið sama í ár og hvet alla til að gera slíkt hið sama.


mbl.is Engin jólakort í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 391633

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband