Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Dagur barnsins

Það er vel til fundið hjá ríkisstjórninni að tileinka einn dag á ári börnum þessa lands. Þá eigum við dag mæðra, fæðra og dag barna. Raunar finnst mér lítið hafa farið fyrir þessum degi - og enga frétt sá ég um hann á mbl.is fyrr en þessa, skrifaða kl. 17:07. En kannski hafa aðrar fréttir farið framhjá mér. Á heimasíðu félags- og tryggingamálaráðuneytisins er fréttatilkynning um daginn og hvað til stóð (hér).

Það er skemmtileg tilviljun að þennan fyrsta dag barnsins ber upp á fæðingardag sr. Friðriks Friðrikssonar, einhvers mesta æskulýðsfrömuðar sem við höfum átt. Í dag eru 140 ár liðin frá fæðingu hans. Hann stofnaði árið 1899 KFUM og KFUK.  Hann kom einnig að upphafi Knattspyrnufélagsins Vals í Reykjavík, Hauka í Hafnarfirði og skátasambandsins Væringja. Ítarlega er um frumkvöðlastarf sr. Friðriks á sviði æskulýðsmála fjallað í grein Þorgeirs Arasonar á bls. 41 í Morgunblaðinu í dag. Eftir samverustundir með foreldrum er börnum fátt hollara en þátttaka í skipulögðu æskulýðsstarfi. Það sýna fjölmargar rannsóknir.

Teikningin sem í dag var valin sem merki dagsins er táknræn fyrir óskir barna. Hún sýnir barn með báðum foreldrum sínum - enda sýnir það sig að það sem börn vilja mest af öllu er samvera með foreldrunum. Vonandi hafa sem flestir foreldrar gefið sér góðan tíma í dag með börnum sínum, í góða veðrinu, til að halda upp á fyrsta dag barnsins á Íslandi.


mbl.is Merki og hljómur dags barnsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt og ólíðandi

Ég þekki sambærileg dæmi - foreldrar leggja allt af mörkum til að lágmarka líkur á að langveik börn þeirra þurfi á sjúkrahúsvist að halda - og spara þar með heilbrigðiskerfinu ómældar fjárhæðir. Þegar foreldrarnir óska svo eftir fjárhagsstuðningi - sem þau þurfa og eiga rétt á af því að það er ekki bæði hægt að vinna á almennum vinnumarkaði og vera heima að sinna langveiku barni - þá er svarið nei. Og rökin: Barnið hefur svo lítið verið á sjúkrahúsi, það er sennilega ekkert veikt.

Ekki vil ég hnjóða í það starfsfólk sem sinnir því að meta umsóknir eins og frá foreldrum þessa unga drengs. En þegar maður les svona frásögn þá veltir maður fyrir sér hvort þetta starfsfólk sé algerlega skilningsvana og sjái ekki samhengi hlutanna. Ástæðan fyrir því að barnið hefur lítið verið á sjúkrahúsi er einmitt sú að foreldrarnir eru að sinna því af mikilli alúð og samviskusemi heima, án þess að fá umbun fyrir. Þess vegna ætti þetta starfsfólk að samþykkja umsóknina en ekki hafna henni.

24 stundir eiga þakkir skyldar fyrir að vekja athygli á þessum brestum í stuðningskerfi okkar við foreldra langveikra barna. Og það er umhugsunarefni að af afgreiddum umsóknum frá áramótum hefur helmingi verið hafnað. Skyldi framkvæmdin ekki vera alveg í samræmi við tilgang laganna?


mbl.is Lögin: Refsað fyrir að vera góðir foreldrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott í fjórtánda

Okkar fólk skilaði sínu vel og voru raunar alveg frábær á sviðinu, geisluðu af gleði og orku. Flottur flutningur hjá þeim.

Noregur greinilega naut þess að vera síðast í röðinni og náði 5. sæti. Sennilega hjálpaði það okkur ekki að vera svona í miðjunni í flutningnum.

Ánægjulegt að vera fyrir ofan Svía sem voru búnir að fá góða spá fyrir sitt lag. En ég skil nú ekki alveg út á hvað sá rússneski vann, nema vera skildi að hann var berfættur. Var ekki Sigmar að segja að enginn berfættur hefði sigrað síðan 1967? Gerist greinilega á ca. 40 ára fresti.


mbl.is Rússar unnu Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi breytist eitthvað

Ég bloggaði í morgun um grein Ingibjargar, sbr. næsta bloggfærsla hér fyrir neðan. Það er vonandi að rannsókn Barnaverndarstofu leiði einhverjar breytingar af sér í vinnubrögðum. Það er margt sem vekur stundum undrun mína í vinnubrögðum barnaverndaryfirvalda, sérstaklega í þeim tilvikum þegar annað foreldrið er í lagi en hitt í alvarlegri fíkniefnaneyslu og foreldrið í fíkniefnunum er með forsjána, eða sameiginlega forsjá og lögheimili barnsins:

  • Tregða barnaverndaryfirvalda til að grípa til úrræða. Foreldri virðast eiga mjög marga sjansa áður en nokkuð er gert. En svo hefur maður séð til mála þar sem gripið er til hörðustu úrræða, kyrrsetningar og alls pakkans útaf tilvikum, sem ekki eru eins alvarleg.
  • Tilhneiging barnaverndaryfirvalda til að ráðleggja foreldrinu sem er í lagi að fá sér lögmann og fara í forsjárdeilu á grundvelli barnalaga við foreldrið sem er háð fíkniefnunum, í stað þess að barnaverndaryfirvöld sjálf ráðist í að kyrrsetja barnið hjá foreldrinu sem er í lagi og svipta sjálf hitt foreldrið forsjánni á grundvelli barnaverndarlaga. Það er kostnaðarsamt fyrir foreldri að fara í forsjármál - og mér er ómögulegt að skilja af hverju barnaverndaryfirvöld með þessum hætti varpa ábyrgðinni á því að grípa til aðgerða yfir á hitt foreldrið í staðinn fyrir að vinna vinnuna sína. Til að halda öllu rétt til haga þá þekki ég þó dæmi þess að barnaverndaryfirvöld kyrrsetji barnið hjá foreldrinu sem er í lagi en láti foreldrið svo um framhaldið. Þannig að það er þó gripið til einhverra úrræða en hætt svo.
  • Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að "óboðað eftirlit" af hálfu barnaverndarstarfsmanna þýddi nákvæmlega það sem orðin segja, að starfsmaður barnaverndar kæmi á heimili foreldrisins sem lýtur slíku eftirliti, fyrirvaralaust. Skv. fjölmiðlaumfjöllun dagsins virðist þetta eftirlit þýða að starfsmaðurinn hringir til að segja að hann sé á leiðinni og ef símanum er ekki svarað þá er bara sleppt að mæta. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem þarf að breyta.

Það er sannarlega verk að vinna í þessum málaflokki og vonandi verður þessi skoðun Barnaverndarstofu til þess að nú breytist eitthvað.

Og svo þarf að fækka þessum endalausum fundum. Ég held að barnaverndaryfirvöld geti unnið mun markvissar í þágu barna með því að halda færri fundi. Einhvers staðar sá ég þessar setningar: If something is urgent, do it yourself. If you have time, delegate it. If you have FOREVER, form a committee. Segir allt sem segja þarf um það að vinna á fundum.


mbl.is Barnaverndarstofa rannsakar málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er barnaverndarnefndum sama um börn?

Það er hjartaskerandi að lesa grein Ingibjargar S. Benediktsdóttur tannlæknis í miðopnu Morgunblaðsins í dag. Frásögn hennar um mismunandi mat á því hvað börnum er bjóðandi er í ýmsu kunnugleg okkur sem vinnum á þessu sviði. 

Ég leyfði mér fyrir nokkrum árum að láta hafa eftir mér, í umfjöllun Morgunblaðsins um barnavernd, gagnrýni á starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur. Eftir umfjöllunina var ég "kölluð á teppið" til yfirmanns félagsmála á þeim tíma og beðin um að útskýra mál mitt. Ég gerði yfirmanninum grein fyrir því af hverju ég hefði tjáð mig með þeim hætti sem ég gerði. Á þeim tíma var ég m.a. að aðstoða einstakling í svipaðri stöðu og systir Ingibjargar. Einstaklingurinn hafði miklar og þungar áhyggjur af velferð frændsystkina vegna vandamála foreldra. Starfsmenn Barnaverndar litu málið öðrum augum og sögðu viðkomandi einstakling einfaldlega að málið kæmi honum ekki við. Raunar fékk þessi einstaklingur það viðmót frá starfsmönnum Barnaverndar að hann væri að leggja foreldra þessara barna í einelti af einhverjum annarlegum ástæðum. Velferð barnanna var þó það eina sem vakti fyrir þessum einstaklingi. Fleiri dæmi tiltók ég um vinnubrögð sem ég hafði séð til í málum og sem ég taldi ólíðandi, barnanna vegna. Viðkvæðið var að þessi dæmi væru undantekningar. Almennt væri unnið með öðrum hætti í málum.

Ég held að vandi Barnaverndar Reykjavíkur og annarra sambærilegra stofnanna sem vinna í þágu barnaverndar sé fyrst og fremst sá að þar vinnur of fátt fólk. Svo held ég að eitthvað í vinnulaginu sé í grundvallaratriðum ekki rétt. Ingibjörg skýrir frá erfiðleikum systur sinnar við að ná til starfsmanna Barnaverndar. Þetta kannast ég við. Það er nánast undantekningarlaust að ef maður þarf að ná í starfsmann hjá Barnavernd þá er viðkomandi á fundi. Ég kvarta þó ekki yfir því að starfsmenn svari ekki skilaboðum. Það gera þeir oftast fljótt og vel. En ég held að vinna megi í þessum málum með öðrum hætti en endalausum fundum. Og málshraðinn, a.m.k. hjá þeim barnaverndarnefndum sem ég þekki til, er alltof hægur.

Það er án efa rétt að vinnubrögð af því tagi sem maður hefur séð til og sem frásögn Ingibjargar er dæmi um eru undantekningar. Oftar er án efa unnið markvisst og skipulega í þágu barnanna og þeirra hagsmunir hafðir að leiðarljósi. En dæmin um hitt eru staðreynd og þessi dæmi eru að mínu mati of mörg og þau eru ólíðandi. Því fórnarlömb vinnubragða af þessu tagi eru börnin og þar með hefur barnaverndarstarf snúist upp í andhverfu sína.


Þrautseigja

Það er ótrúleg þrautseigjan sem þau sýna bæði í þessari baráttu. Ég auðvitað vona að mín kona styrki sig í þessum forkosningum. En trúlega er Demókrataflokkurinn ekki að styrkjast neitt við þessa langvinnu baráttu þeirra. Og best væri ef þau gætu komið sér saman um að annað þeirra væri forsetaefni og hitt varaforsetaefni. Það yrði sterkt framboð og sögulegt. Ólíklegt þó að annað hvort þeirra sé á þessari stundu til í að gefa eftir aðalsætið.
mbl.is Jöfn barátta forsetaframbjóðanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástin er diskó, lífið er pönk

Ég var að koma af frumsýningu söngleiksins Ástin er diskó, lífið er pönk eftir Hallgrím Helgason. Upphafsatriðið, ungfrú Holliwood, var frábært og kom áhorfendum í frábæran diskófíling, sem hélst meira og minna alla sýninguna, þótt pönkið þvældist aðeins fyrir. Sem sé býsna góð sýning, þótt hún dytti aðeins niður á köflum. Diskóið er meira fyrir minn smekk en pönkið þannig að mér fannst pönk partur sýningarinnar frekar draga hana niður en hitt. Plottið fannst mér of billegt og algerlega fyrirsjáanlegt. En ég segi ekki orð meira um það vegna þeirra sem eftir eiga að sjá sýninguna.

Leiksýningar vetrarins eru þar með allar að baki. Tvær standa uppúr: Hamskiptin í Þjóðleikhúsinu, sem var áhrifamikil og ógleymanleg og Hetjurnar í Borgarleikhúsinu, ljúfsár en stórskemmtileg. Ástin er diskó nær þriðja sætinu hjá mér.

Í kvöld var ég að velta því fyrir mér hvað það gæti orðið skemmtilegur söngleikur ef góður rithöfundur gerði sögu samsetta úr helstu íslensku dægurlögunum, svona Abba-Mamma Mia style. Ástin er diskó, lífið er pönk er kannski ákveðin tilraun í þessa veru - en ég held að gera mætti ennþá flottari söngleik með þessum hætti. Og svo auðvitað veltir maður fyrir sér hvenær annað hvort leikhúsanna í Reykjavík ætlar að drífa í að setja upp Mamma Mia. Ég er viss um að Abba-aðdáendur bíða spenntir eftir því. Nóg eigum við af flottu tónlistarfólki til að taka þátt í slíkri uppsetningu.


Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband