Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Afsakið, matarhlé ...

Í kvöldfréttum á annarri hvorri sjónvarpsrásinni var skýrt frá umræðum á Alþingi í dag þar sem þingmenn kvörtuðu sáran yfir því að vera svangir af því að ekki hafði verið gert hlé á þingfundi vegna  hádegismatar. Mátti skilja það svo að það jaðraði við mannréttindabrot að þingmenn fengju ekki matarhlé. 

Maður eiginlega trúði ekki eigin eyrum. Mötuneyti þingsins er meira og minna opið meðan á þingfundum stendur. Þangað leita þingmenn til að ná sér í næringu hvað sem líður matarhléum frá þingstörfum. Enda er í matsalnum sjónvarp þar sem auðvelt er að fylgjast með umræðunni og hlaupa til ef þörf krefur. Beinar útsendingar frá þingfundum benda ekki til að þingmenn telji það skipta miklu máli hvort þeir sitji í þingsalnum eða ekki, hvað sem líður matarhléum eða öðrum hléum frá þingstörfum. Þegar á þetta er bent segjast þeir vera á skrifstofum sínum og fylgjast með beinni útsendingu í gegnum sjónvarpsskjái sem eru á skrifstofum þeirra.

Halda þingmenn að þjóðin hafi þolinmæði í að hlusta á svona fáránlega kveinstafi? Eru ekki einhver brýn mál sem þarf að ræða og afgreiða? Það er skiljanlegt þegar kvartað er yfir óvissu um hvort kvöldfundir verði og hvenær kvöldfundum lýkur. Slík umræða snýr að skipulagningu sem þingmenn þurfa að gera á sínu persónulega lífi, vegna þingfunda. En að halda því fram að þeir komist ekki til að fá sér matarbita vegna þingfunda er fyrir neðan það sem boðlegt er.

Þingmönnum er tíðrætt um virðingu Alþingis. Virðingu fyrir Alþingi skapa þingmenn sjálfir. Þeir auka hana ekki með málfutningi af þessu tagi. 


mbl.is Enn er rætt um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri

ekki eðlilegast að Framsóknarflokkurinn, sem tilnefndi þennan einstakling til setu í bankastjórn Seðlabanka Íslands, bæri þann viðbótarkostnað sem af tilnefningunni skapast? Er eðlilegt að tilnefningaraðili geti með þessum hætti skapað umtalsverðan viðbótarkostnað og beri á honum enga ábyrgð?
mbl.is Gros kostar Seðlabanka 5 milljónir á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfsannleikur

Fyrsta frétt Stöðvar 2 nú í kvöld var um mál sem ég þekki gjörla vegna lögmannsstarfa minna fyrir annan málsaðilann um sjö ára skeið vegna deilu um forsjá milli þessara foreldra. Frá upphafi hefur annað foreldrið margsinnis tálmað umgengni hins foreldrisins við börn sín. Síðast hóf þetta foreldri þann leik í september 2007. Frá þeim tíma hefur umbjóðandi minn, hið forsjárlausa foreldri, svo gott sem enga umgengni fengið við þrjú börn sín nema með þeim aðferðum sem lög leyfa að viðhafðar séu þegar forsjárforeldri tálmar umgengni.

Innsetning í umgengni er neyðarúrræði enda sett fram sem slíkt í barnalögum. Það að forsjárforeldrið í þessu máli hefur í þrígang fengið á sig úrskurð héraðsdóms um innsetningu hlýtur að segja talsvert um það hversu einbeittur vilji þess er til að viðhalda umgengnistálmunum. Þetta sama foreldri hefur þegar greitt 2 m.kr. í ríkissjóð í dagsektir frekar en að láta af tálmunum. 

Ef við víkjum að umfjölluninni um innsetninguna 2. júlí sl., sem ég var viðstödd, þá tel ég lögregluskýrsluna draga upp bjagaða mynd af því sem þar fór fram. Það er ekki vaninn að lögregla geri skýrslu um innsetningargerð. Lögregluskýrslan var gerð að beiðni lögmanns forsjárforeldrisins, þess foreldris sem búið var að dæma til að þola innsetningu og verður að skoðast í því ljósi. Fulltrúar Barnaverndar sem viðstaddir voru gerðina lögum samkvæmt gerðu athugasemdir við lögregluskýrsluna og framsetningu málsins í henni. Stöð 2 gat þeirra athugasemda að engu. Veit ég þó að fréttamaðurinn var með athugasemdirnar undir höndum. Í fréttinni var efnislega fjallað um málefni þessara foreldra þó mér væri sagt að eingöngu ætti að fjalla um innsetningargerðina sem slíka. Því var haldið fram að fyrir lægi játning föður á ofbeldi gagnvart móður og barni. Þetta er rangt. Því var haldið fram að eftir umgengni barnsins í sumar, sem komið var á með innsetningunni, hefði barnið þurft á læknisaðstoð að halda og vísað í læknisvottorð í því sambandi. Þetta er líka rangt.

Því var sleppt í fréttinni að geta þess að sumarleyfi barnsins með föður, sem fyrst komst á með innsetningargerðinni, var framlengt með dómsátt um tvær vikur enda kæmist utanaðkomandi sálfræðingur með viðræðum við barnið að því að það yndi hag sínum vel hjá föður og föðurfjölskyldu og vildi vera þar lengur.

Fjölmiðlar eru stundum kallaðir fjórða valdið. Þetta vald er vandmeðfarið. Fréttamennskan sem birtist í umræddri frétt Stöðvar 2 sýnist ekki fullnægja kröfum um vönduð vinnubrögð.


Sammála

Ég tek undir hvert orð forstjóra Barnaverndarstofu í þessu viðtali Hið gífurlega álag sem er á starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur hlýtur að vera viðfangsefni sem borgarstjórn tekur á og það sem fyrst. Umræðan um þetta álag er ekki ný af nálinni en hefur nú tengst hugsanlega slökum vinnubrögðum í máli. Ég er sammála mati forstjóra Barnaverndarstofu á vinnubrögðunum í því máli. Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur þau til athugunar og mun væntanlega komast að niðurstöðu.

Við viljum trúa því að vinna í barnaverndarmálum sé góð og að mistök fortíðar séu eitthvað sem aldrei geti gerst aftur. Almennt séð fullyrði ég að barnaverndarstarf er vandað. En sérhver mistök sem gerð eru eru alvarleg því þau grafa undan trúverðugleika barnaverndarstarfsins. Það er slæmt því það tekur tíma að byggja upp trúverðugleika á ný.

Rætt hefur verið um einhliða umræðu í þessu sambandi því barnaverndaryfirvöld telja sig bundin þagnarskyldu þegar kemur að umræðu um einstök mál, sem rata í fjölmiðla. Ég er ósammála þessari skoðun barnaverndaryfirvalda. Ef einstaklingur gengur fram opinberlega og ræðir afskipti barnaverndaryfirvalda af sínum málum þá er sá sami einstaklingur a.m.k að leyfa að barnaverndaryfirvöld svari því og leiðrétta það sem einstaklingurinn hugsanlega fer ranglega með í umræðunni. Auðvitað er þetta vandmeðfarið en það er óþolandi fyrir hvern þann aðila, sem bundinn er þagnarskyldu, ef túlka á þagnarskylduna svo þröngt að viðkomandi geti ekki einu sinni borið af sér sakir eða leiðrétt rangfærslur og vitleysur. Þetta er nokkuð sem ég hygg að ræða þurfi betur og setja einhverjar leiðbeiningareglur um. 


mbl.is Eru með allt að 60 mál barna á sinni könnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til fyrirmyndar

Þetta finnst mér góð ákvörðun hjá ríkisstjórninni og til fyrirmyndar fyrir okkur öll. Í fyrra gerði ég þetta, reiknaði út hvað það hefði kostað mig að senda jólakort og gaf andvirðið til Hjálparstofnunar kirkjunnar. Ég ætla að gera hið sama í ár og hvet alla til að gera slíkt hið sama.


mbl.is Engin jólakort í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Feðradagurinn

Feðradagurinn er í dag, fyrsta sunnudag í nóvember. Það var árið 2006 sem fyrst var viðurkenndur sérstakur feðradagur hér á landi. Mæðradag höfum við haft um áratugaskeið. Kannski sýnir þessi staðreynd einna gleggst bága stöðu feðra hér á landi. Í helstu nágrannalöndum hefur feðradagur verið í heiðri hafður, líkt og mæðradagur, um áratuga skeið.

Félag um foreldrajafnrétti birtir í tilefni dagsins heilsíðuauglýsingu til að minna á lakari stöðu foreldra sem börn búa ekki hjá. Hjá okkur eru það í yfirgnæfandi tilvikum feður. Í þessu efni erum við eftirbátar helstu nágrannalanda, þeirra landa sem okkur er gjarnt að miða okkur við.

Ég hef oft velt fyrir mér hvað þurfi til að fá suma foreldra til að átta sig á því að þó leiðir þeirra skilji þá mega ekki skilja leiðir barnanna og þess foreldrisins sem þau búa ekki hjá. Að óuppgerð mál milli foreldranna verða ekki leyst með því að beita beittasta vopninu, börnunum.

Börn þurfa á báðum foreldrum sínum að halda, feðrum og mæðrum. Það er ljótur leikur að svipta barn að tilefnislausu möguleikanum á eðlilegum samskiptum við hitt foreldrið. Sú mannvonska og grimmd sem í því felst er óskiljanleg og skaðar engan meira en barnið. Barn sem lendir í slíkri skotlínu milli foreldranna hlýtur sár sem aldrei gróa.

Meðan við búum við úrelta löggjöf og bitlaus úrræði gagnvart foreldri sem beitir tilefnislausum og miskunnarlausum umgengnistálmunum mun enginn árangur nást á þessu sviði. Það er brýnt viðfangsefni löggjafans að setja hér reglur sem taka harðar, en nú er gert, á tilefnislausum umgengnistálmunum.

Ég óska öllum feðrum til hamingju með daginn um leið og ég þakka Guði fyrir þá gæfu að eiga yndislega foreldra, föður og móður, sem ég nýt enn samvista við. Það eru lífsgæði sem seint verða fullþökkuð, lífsgæði sem öll börn eiga rétt á því að njóta, meðan beggja foreldra nýtur við. 


mbl.is Benda á rétt barna til feðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð hugmynd

Forseti kirkjuþings varpar hér fram prýðilegri og löngu tímabærri hugmynd. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að fleiri en kosnir trúnaðarmenn í sóknarnefndum njóti kosningaréttar til kirkjuþings og eigi möguleika á því að láta þar til sín taka 

Það er sömuleiðis hárrétt hjá forseta kirkjuþings að í umróti líðandi stundar og raunar alltaf, þarf þjóðkirkjan á öllum sínum liðstyrk að halda. Til þess þarf að virkja með markvissum hætti alla þá sem eru virkir innan þjóðkirkjunnar. Þeir eru fjölmargir, sem betur fer.


mbl.is Aukið lýðræði innan þjóðkirkjunnar rætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband