Leita í fréttum mbl.is

Hálfsannleikur

Fyrsta frétt Stöðvar 2 nú í kvöld var um mál sem ég þekki gjörla vegna lögmannsstarfa minna fyrir annan málsaðilann um sjö ára skeið vegna deilu um forsjá milli þessara foreldra. Frá upphafi hefur annað foreldrið margsinnis tálmað umgengni hins foreldrisins við börn sín. Síðast hóf þetta foreldri þann leik í september 2007. Frá þeim tíma hefur umbjóðandi minn, hið forsjárlausa foreldri, svo gott sem enga umgengni fengið við þrjú börn sín nema með þeim aðferðum sem lög leyfa að viðhafðar séu þegar forsjárforeldri tálmar umgengni.

Innsetning í umgengni er neyðarúrræði enda sett fram sem slíkt í barnalögum. Það að forsjárforeldrið í þessu máli hefur í þrígang fengið á sig úrskurð héraðsdóms um innsetningu hlýtur að segja talsvert um það hversu einbeittur vilji þess er til að viðhalda umgengnistálmunum. Þetta sama foreldri hefur þegar greitt 2 m.kr. í ríkissjóð í dagsektir frekar en að láta af tálmunum. 

Ef við víkjum að umfjölluninni um innsetninguna 2. júlí sl., sem ég var viðstödd, þá tel ég lögregluskýrsluna draga upp bjagaða mynd af því sem þar fór fram. Það er ekki vaninn að lögregla geri skýrslu um innsetningargerð. Lögregluskýrslan var gerð að beiðni lögmanns forsjárforeldrisins, þess foreldris sem búið var að dæma til að þola innsetningu og verður að skoðast í því ljósi. Fulltrúar Barnaverndar sem viðstaddir voru gerðina lögum samkvæmt gerðu athugasemdir við lögregluskýrsluna og framsetningu málsins í henni. Stöð 2 gat þeirra athugasemda að engu. Veit ég þó að fréttamaðurinn var með athugasemdirnar undir höndum. Í fréttinni var efnislega fjallað um málefni þessara foreldra þó mér væri sagt að eingöngu ætti að fjalla um innsetningargerðina sem slíka. Því var haldið fram að fyrir lægi játning föður á ofbeldi gagnvart móður og barni. Þetta er rangt. Því var haldið fram að eftir umgengni barnsins í sumar, sem komið var á með innsetningunni, hefði barnið þurft á læknisaðstoð að halda og vísað í læknisvottorð í því sambandi. Þetta er líka rangt.

Því var sleppt í fréttinni að geta þess að sumarleyfi barnsins með föður, sem fyrst komst á með innsetningargerðinni, var framlengt með dómsátt um tvær vikur enda kæmist utanaðkomandi sálfræðingur með viðræðum við barnið að því að það yndi hag sínum vel hjá föður og föðurfjölskyldu og vildi vera þar lengur.

Fjölmiðlar eru stundum kallaðir fjórða valdið. Þetta vald er vandmeðfarið. Fréttamennskan sem birtist í umræddri frétt Stöðvar 2 sýnist ekki fullnægja kröfum um vönduð vinnubrögð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú kvartar undan stöð 2, en ert þú ekki sjálf komin út á hálan í með þessari færslu? Þarna ert þú búin að hefja stríð sem þú getur ekki unnið.

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 24.11.2009 kl. 22:03

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Fljótt á litið sýnist mér að þarna hafi mistök verið gerð á fyrri stigum málsins ef framburður þinn er hlutægur. Móðirin hefur forræði allra barnanna og faðirinn ekki umgengnisrétt nema við það yngsta? Hvað veldur svona viðhorfum til föðurins ef hann er sómamaður?

Árni Gunnarsson, 24.11.2009 kl. 22:39

3 identicon

Dögg.

Ég þekki ekki þetta fólk sem á í þessari foræðisdeilu.

En ég þekki fólk sem þekkir til og sem ég treysti, ásamt einum lögreglumanni.

Þetta nægir mér til að álykta svo að þú hefðir ekki átt að skrifa þessa bloggfærslu.

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 24.11.2009 kl. 22:53

4 Smámynd: Heimir Hilmarsson

Sæl Dögg,

Ég spyr hvort ekki sér rétt að fara með þetta mál í Kastljós, og lesa þar upp umsögn sálfræðingsins sem talaði við yngstu stúlkuna í sumar.

Þessi fréttaflutningur Karenar var fyrir neðan allar hellur og þetta er í þriðja skiptið á stuttum tíma sem hún kemur með svona fáránlegar og að hluta ósannar fréttir til að ófrægja feður. Hún er ekki bara að koma óorði á þennan tiltekna mann heldur virðist herferð hennar beinast gegn öllum feðrum sem ekki búa með börnum sínum.

Ég veit helling um þetta mál sem er eitt ljótasta tálmunarmál á Íslandi. Í mínum huga eru fórnarlömbin fyrst og fremst börnin og svo faðirinn. Ég vildi ekki þurfa að standa í sporum hans, það er erfiðara en orð fá lýst að horfa upp á forsjárforeldrið eyðileggja börnin án þess að geta nokkuð að gert.

Til þín Svavar, Svava eða hvað þú heitir sem þekkir mann og annan þá kemst maður nær sannleikanum með því að þekkja til fólksins sjálfs beint en af sögusögnum, jafnvel þó það sé frá fólki sem maður treystir.

Heimir Hilmarsson, 25.11.2009 kl. 02:35

5 Smámynd: Offari

Alltaf gott að heyra líka söguna frá hinum aðilanum. Ég var fljótur að dæma föðurinn er ég heyrði þessa frétt en sjálfur á ég barn utan hjónabands og veit því vel hvernig svona deilur geta snúist algjörlega út í andhverfu jafnvel þótt báðir aðilar vilji barni sínu vel.

Offari, 25.11.2009 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 391610

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband