Leita í fréttum mbl.is

Jómfrúarræðan o.fl.

Þingmennsku minni er lokið í bili. En jómfrúarræðan var flutt og ég mælti einnig fyrir frumvarpi til laga um breytingu á barnalögum með síðari breytingum. Ég er því vel sátt við þennan fyrsta hálfa mánuð sem ég sat á þingi, ekki síst í ljósi þess að þingfundardagarnir voru ekki nema fjórir.

Jómfrúarræðuna flutti ég á fimmtudagskvöld, nánar tiltekið kl. 19:09 (ég komst að því að vinnudagurinn getur verið langur á Alþingi, ekki bara fyrir jól og þinglok). Hana flutti ég um þingsályktunartillögu Valgerðar Sverrisdóttur um eflingu rafrænna sjúkraskráa. Ræðan var stutt, u.þ.b. fimm mínútur. Í þingsályktunartillögu sinni leggur Valgerður til að á kjörtímabilinu verði lokið við innleiðingu rafrænnar sjúkraskrár fyrir alla heilbrigðisþjónustu. Í ræðu minni (sem hægt er að hlusta á hér, smella á play.m3) benti ég á að allan lagalegan grunn vantar til þess að hægt sé að innleiða rafrænar sjúkraskrár hér á landi. Rafræn sjúkraskrá, í þeim skilningi sem Valgerður leggur til, er miðlæg sjúkraskrá, sem hefur að geyma allar upplýsingar um einstakling, frá vöggu til grafar. Það þýðir að í sjúkraskránni er hægt að fá heildstæða mynd af einstaklingnum og öllu um hans heilbrigðissögu. Það þarf ekki að taka fram að upplýsingar í sjúkraskrá eru viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Það er því að mjög mörgu að hyggja áður en ráðist verður í að efla rafrænar sjúkraskrár, ekki síst persónuverndarmálum. Hverjir eiga að fá aðgang, hvaða aðgang á sjúklingurinn sjálfur að hafa, á hann að hafa beinan aðgang, á hann að ráða einhverju um það hvað fer í sjúkraskrána? Svona mætti lengi halda áfram. Svo merkilegt er að þótt sjúkraskrár hafi verið haldnar rafrænt (skráðar í tölvu) um árabil þá er engin heimild í lögum fyrir því. Heimild til tölvufærslu sjúkraskráa er í reglugerð sem sett var 1991 með stuðningi í læknalögum frá 1988.

Ég benti einnig á að í tillögunni fælist mikið traust til heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins því Framsóknarflokknum hefði ekki tekist á þeim 12 árum sem þeir sátu í heilbrigðisráðuneytinu að gera neitt sem neinu skiptir í þessum málum. Síðan ætluðust þeir til að heilbrigðisráðherra gerði allt sem gera þarf á innan við fjórum árum. Ég benti Valgerði einnig á að heilbrigðisráðherra stæði fullkomlega undir þessu trausti því hann hefði í byrjun október skipað nefnd til að hefja undirbúning að lagasetningu (hér). Það vill svo til að ég er formaður þeirrar nefndar þannig að ég þekki málið. Og nefndin hefur hafið störf, enda eigum við að skila nefndaráliti í formi lagafrumvarps eigi síðar en 15. febrúar nk.

Valgerður kunni ekki alveg að meta athugasemdir mínar. Sérkennilegt hvað framsóknarmenn eru viðkvæmir þessa dagana. Jafnframt fullyrti hún að nefndarskipunin hefði verið viðbrögð ráðherra við tillögu hennar. Ég sleppti því að pirra Valgerði frekar með því að segja henni að nefndarskipunin hefði verið í undirbúningi í mun lengri tíma og hafði ekkert með hennar þingsályktunartillögu að gera. Umræðan í heild um eflingu rafrænna sjúkraskrá er undir hlekknum hér að framan fyrir þá sem vilja hlusta á viðbrögð Valgerðar við minni ræðu og öðrum sem fluttar voru í umræðunni.

Eins og fram kom á síðasta bloggi undirbjó ég fyrir þessa fyrstu þingsetu mína frumvarp til laga um breytingu á barnalögum (frumvarpið í heild er hér). Það tíðkast á Alþingi að gera allt sem hægt er til að varaþingmenn nái að mæla fyrir frumvörpum sínum meðan þeir sitja á Alþingi. Það tókst í þetta sinn þannig að á föstudagsmorgun vorum við þrír varaþingmennirnir sem mæltum fyrir frumvörpum okkar, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir og ég. Í framsöguræðu minni fyrir frumvarpinu benti ég m.a. á að sem jöfnust foreldraábyrgð væri algjör forsenda þess að jafnrétti kynjanna næðis, en það vildi svo til að á fimmtudag var einmitt verið að ræða nýtt frumvarp félagsmálaráðherra og jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Framsöguræðu mína og umræðuna alla um frumvarpið er hægt að hlusta á hér, fyrir áhugasama (athugið að framsöguræðan er neðst).

Ég get ekki annað en verið mjög ánægð með þau viðbrögð sem ég fékk við frumvarpinu. Allir sem tóku til máls voru jákvæðir. Þá hafa fjölmiðlar fjallað með jákvæðum hætti um málið, ekki síst dagblaðið 24 stundir, sem gerði því góð skil í gær. Á eftir verð ég síðan í útvarpsþætti á rás 2 hjá RÚV þar sem frumvarpið verður m.a. til umfjöllunar. Ég el því þá von í brjósti að þetta frumvarp mitt fái brautargengi á Alþingi í vetur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband