Leita í fréttum mbl.is

Ný reynsla

Eftir síðustu Alþingiskosningar fékk ég kjörbréf sem 1. varaþingmaður í Reykjavíkurkjördæmi suður. Ekkert hefur á þetta reynt fyrr en nú fyrir skömmu því 22. október sl. tók ég formlega sæti á Alþingi í fjarveru Ástu Möller. Vaninn er sá að varaþingmaður er kallaður inn til þingmannsstarfa í hálfan mánuð. Það hittist hins vegar svo á að öll síðasta vika og raunar mánudagurinn í þessari viku líka voru svokallaðir kjördæmadagar. Þingmannsstörf mín þennan tíma fólust því í því að fara í heimsóknir í grunnskóla borgarinnar. Það voru gagnlegar og fróðlegar heimsóknir.

Fyrsti dagurinn á Alþingi var í gær. Hann hófst með fundi í fjárlaganefnd. Fjárlaganefnd fær þessa dagana í heimsókn fulltrúa ráðuneyta og félagasamtaka vegna vinnu við fjárlög 2008 (og raunar fjáraukalög 2007 líka). Fjárlaganefnd er ekki öfundsverð af því hlutverki að þurfa að leggja til hverjir fái og hverjir ekki fjármuni af fjárlögum. Öll þau verkefni sem kynnt voru í gær voru sérlega spennandi og mikilvæg.

Í hádeginu var þingflokksfundur. Þar kynnti ég frumvarp til breytinga á barnalögum sem ég hyggst leggja fram. Ef allt gengur að óskum verður frumvarpinu dreift í dag. Og ef heppnin er með mér þá verður það á dagskrá á morgun eða föstudag og ég mun þá mæla fyrir því. Ef ekki, þá bíður framsagan þangað til ég sest inn næst, hvenær sem það verður. Ég mun blogga síðar nánar um þetta frumvarp mitt og þær breytingar sem ég vil reyna að ná fram á barnalögum.

Þingfundur hófst kl. 13:30 og í upphafi hans voru fimm varaþingmenn (fjórar konur og einn karlmaður) kynntir til sögunnar. Síðan undirrituðum við drengskaparheit að stjórnarskránni. Í 2. gr. þingskaparlaga segir:

Sérhver nýr þingmaður skal vinna svofellt drengskaparheit að stjórnarskránni undireins og búið er að viðurkenna að kosning hans sé gild, sbr. 47. gr. stjórnarskrárinnar: Ég undirskrifaður/uð, sem kosin(n) er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins.

Það var áhrifamikil stund að undirrita drengskaparheitið.

Á dagskrá voru þingmannamál, þ.e. frumvörp og þingsályktunartillögur frá þingmönnum (andstætt við stjórnarmál, sem eru þingmál frá ráðherrum). Þingfundur stóð til kl. 18:00. Þetta var því ágætlega langur vinnudagur því fundur fjárlaganefndar hófst kl. 8:30.

Svo lengi lærir sem lifir segir máltækið - það má með sanni segja að þessi fyrsti dagur minn á Alþingi hafi verið lærdómsdagur, svo margt nýtt upplifði ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með þetta! Ekki verra að eiga eitt stykki móðursystur á þingi! ;)

Þórhallur Helgason (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 10:23

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Til hamingju með nýja embættið!

Júlíus Valsson, 31.10.2007 kl. 16:07

3 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Til hamingju. 

Þóra Guðmundsdóttir, 31.10.2007 kl. 22:56

4 identicon

Sæl Dögg,  og til hamingju með kjörbréfið.

Var að ljúka við að lesa frumvarp þitt til breytinga á barnalögum, og segast verður að þarna leggur þú til margar mjög þarfar breytingar.  Vonandi nær sem flest af þessu fram að ganga, því þarna er verið að stíga mörg stór skref í átt að bættum hagsmunum barna.  Sem ekki njóta þeirra "forréttinda" að foreldrar þeirra búi saman.

Bjarni Árnason (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 07:50

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Til hamingu.

Sigurður Þórðarson, 1.11.2007 kl. 09:42

6 identicon

Mikið skelfing var þetta frumvarp um breytingar á barnalögum orðið tímabært.

Áfram Dögg!

Kv: Guðmundur Þórarinsson. 

Guðmundur Þórarinsson (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 15:22

7 identicon

Innilega til hamingju með þetta Dögg. 

Rannveig Margrét Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 15:33

8 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Til hamingju Dögg,ég óska þér góðsgengis á þessum nýja vígvelli.Og varðandi frumvarp þitt til jafnréttar Karla og Kvenna ég hef verið að kynna mér efnið og verð að segja líst mér vel á.Við félagsmenn ábyrgra Feðra munum funda um málefnið í kvöld 1/11 og eru miklar vonir bundnar við árangur gangi þér allt í haginn,og megi guð þig geyma kveðja Úlli.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 1.11.2007 kl. 17:44

9 identicon

Frábært að það sé verið að taka á þessu máli þar sem mikið misrétti hefur ráðið ríkjum.  Mig langar samt að spurja hvort það sé rétt skilið hjá mér að ef þetta frumvarp nær í gegn að ekki verði hægt að dæma sameiginlega forsjá hjá foreldrum þar sem annar aðili hefur hingað til farið einn með forsjá? Og hvað þá með það hvort hægt sé að dæma frekari dvöl hjá forsjárlausu foreldri en aðra hverja helgi, s.s. 7 daga af 14, þó ekki sé nema einhvern hluta af því.

 Þetta eru svona vangaveltur þar sem ég tel að það séu nú ekki verri foreldrar endilega þeir sem aldrei hafa haft forsjá en hinir. Þeir hafa kannski rembst eins og rjúpan við staurinn í fjölda mörg ár en þýðir lítið því nánast engan hafa þeir réttinn.

Þrátt fyrir þessar vangaveltur vil ég taka það fram að mér finnst þú eiga heiður skilinn fyrir að taka á þessu máli, alveg frábært. 

Unnur Reynisdóttir (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 391617

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband