Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Skiljanleg ákvörðun

Ég skil vel ákvörðun Bjargar að gefa ekki kost á sér í það sæti sem hún hafnaði í. Árangur hennar nú var lakari en síðast. Í því felast skilaboð til hennar frá kjósendum, sem erfitt er að horfa framhjá.

Sjálf hafnaði ég í 15. sæti í prófkjörinu í Reykjavík, eins og ég hef áður skýrt frá og fékk liðlega 2.300 atkvæði. Kjörnefnd bauð mér að halda því sæti og skipa 8. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. 

Ég gaf í fyrsta sinn kost á mér í prófkjöri haustið 2006. Þá náði ég bindandi kosningu í 11. sætið og skipaði 6. sætið í Reykjavík suður í Alþingiskosningunum 2007. Eftir kosningarnar varð ég fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður og hef tvívegis tekið sæti á Alþingi. Ég lagði fram viðamikið frumvarp til laga um breytingu á barnalögum. Frumvarp mitt vakti talsverða athygli enda felst í því talsverð réttarbót fyrir foreldra og börn. 

Engu að síður er árangur minn í prófkjörinu nú talsvert lakari en í prófkjörinu 2006. Þá kaus liðlega helmingur kjósenda mig í eitt af efstu 10 sætunum. Nú var það innan við þriðjungur kjósenda sem greiddi mér atkvæði í þessi sæti. 

Þetta eru skilaboð frá kjósendum sem ekki verða misskilin. Dómi kjósenda verður að una. Þess vegna afþakkaði ég boð kjörnefndar um að skipa 8. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. 


mbl.is Björk ekki á lista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þannig endar

SPRON hjá Kaupþingi, þó með allt öðrum hætti sé en stjórnendur SPRON höfðu áformað. En erfitt er að átta sig á hvernig Seðlabankinn getur tekið við starfsemi Sparisjóðabankans. Það hljóta að koma fram skýringar á því.
mbl.is SPRON til Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erum við skárri en Tyrkland?

Háskólinn í Reykjavík var með kynningardag í dag. Af því tilefni var fyrirlestramaraþon. Ég var þar með stuttan fyrirlestur um umgengni og umgengnistálmanir. Í fyrirlestrinum fór ég yfir lagaákvæði um umgengni og viðbrögðum við umgengnistálmunum. Það er merkilegt til þess að hugsa að þau mikilvægu mannréttindi sem umgengni er nú talin vera voru fyrst lögfest hér árið 1972 og þá eingöngu fyrir börn sem áttu foreldra í hjúskap. Það var ekki fyrr en 1981 sem umgengnisréttur náði til allra barna.

Niðurstaða mín er sú að ef á það yrði látið reyna fyrir mannréttindadómstól Evrópu þá myndu íslensk stjórnvöld líklega fá sömu einkunn og Tyrkland vegna óskilvirka úrræða vegna umgengnistálmana.


Allt er þetta í lagi

Ég hvet alla áhugamenn um bankahrunið og rannsókn á því að kynna sér dóm í máli Insolidum ehf. og okkar mæðgina gegn alþjóðlegum fjárfestingarbanka, með aðsetur á Akureyri.

Af niðurstöðu dómsins má ráða að þeir viðskiptahættir sem hinn alþjóðlegi fjárfestingabanki viðhafði teljast allt í lagi. Dóminum verður áfrýjað til Hæstaréttar. Í málum af þessu tagi verður Hæstiréttur að hafa síðasta orðið.


Gamalt trix

Það er gamalt trix í samningaviðræðum að hóta því að slíta þeim, fari ekki að ganga. Það sem vekur athygli er að hótun af þessu tagi hafi virkað á einkavæðingarnefnd. Svona hótanir virka venjulega ekki nema gagnaðilinn vilji ólmur semja við þann sem hótar slitum og sá sem hótar gruni eða jafnvel viti af þeim áhuga. Var einkavæðingarnefnd búin að fá fyrirmæli um að semja við Samson? Vissi Samson það?

Um kaup Samson á stórum hluta í Landsbankanum er fjallað í skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðinguna. Þar kemur m.a. fram að nefndarmaður í einkavæðinganefnd hafi sagt af sér vegna þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru sem hann taldi hafa leitt til þess að aðrir áhugasamir kaupendur hafi verið sniðgengnir (bls. 59-60).

Um útboðið sjálft gerði Ríkisendurskoðun aðra skýrslu. Í niðurstöðum þeirrar skýrslu (bls. 30 og 31) gerir Ríkisendurskoðun ekki athugasemd við ákvörðun um að hefja viðræður við Samson. Á hinn bóginn tekur Ríkisendurskoðun undir gagnrýni á framkvæmdina sem fram komu af hálfu nefndarmannsins í einkavæðingarnefnd og annarra sem buðu. Í niðurstöðu í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir ennfremur að sala Landsbankans á VÍS í ágúst 2002, í miðju söluferli, hafi haft óheppileg áhrif á söluferlið og verið til þess fallin að vekja tortryggni. Sú sala hafi á hinn bóginn hvorki verið á valdi einkavæðingarnefndar né ráðherranefndar um einkavæðingu.

Til upprifjunar þá var VÍS síðan í S-hópnum sem gengið var til viðræðna við um sölu á kjölfestuhlut í Búnaðarbankanum, eins og fram kemur á bls. 69 í fyrri skýrslunni sem vísað er til hér að framan.

Það er ágætt að Morgunblaðið er að kafa ofan í þessi mál. Það eru vonandi fleiri að gera, s.s. rannsóknarnefnd Alþingis.


mbl.is Samson hótaði viðræðuslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverður listi fyrirtækja

Það er fróðlegt að skoða ársreikninga stjórnmálaflokkanna fyrir árið 2007, sem var kosningaár. Ekki verður séð en að meira og minna allir stjórnmálaflokkarnir hafi leitað eftir og fengið fjárstuðning frá fyrirtækjum útrásarvíkinganna. Meira að segja VG líka. Fyriræki sem nú eru ýmist komin í þrot eða að fótum fram í rekstri sýnast hafa stutt flesta ef ekki alla stjórnmálaflokkanna með hámarksframlagi, 300 þús. kr., þetta kosningaár. Meðal nafna sem sjást á þessum listum eru Baugur, FL Group, Fons, Glitnir, Kaupþing, Landsbankinn, Nýsir, Samson. Er ég ein um að vera hugsi yfir þessum listum?

En mér finnst gott að komin séu lög sem skylda stjórnmálaflokkana til að birta með þessum hætti hvaða fyrirtæki styrkja þau.


mbl.is Samanlagt tap stjórnmálaflokkanna 281 milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Augljóst

Þessi ákvörðun lá augljós fyrir, sbr. bloggfærslu mína fyrr í dag. Önnur ákvörðun hefði verið óábyrg í ljósi stöðu mála.
mbl.is Jóhanna svarar kalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhugsunarefni

Mér er það talsvert umhugsunarefni að ÖSE skuli telja þörf á eftirliti hér með alþingiskosningunum 25. apríl nk. Er það ábending um að sendinefndin hafi í heimsókn sinni séð eitthvað sem hún telur skoðunarvert og þess vegna leggur hún til eftirlit. Eða er hér einvörðungu um að ræða almennt og hefðbundið eftirlit?
mbl.is Eftirlitsmenn fari til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sammála

Það er ekki hægt annað en að vera sammála hverju orði sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir um þessa vaxtalækkun. Ábyrgð peningastefnunefndar er mikil. Í henni sitja: Svein Harald Öygard seðlabankastjóri, Arnór Sighvatsson aðst.seðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson yfirhagfræðingur Seðlabankans, Dr. Anne Sibert og dr. Gylfi Zoega. Þau tvö síðastnefndu eru tilnefnd af forsætisráðherra.

Á heimasíðu Seðlabanka Íslands er birt yfirlýsing peningastefnunefndar. Þar segir m.a.:

Við upphaf vaxtalækkunarferlisins telur peningastefnunefndin rétt að fara varlega og haga vaxtabreytingum með hliðsjón af tíðu endurmati á stöðunni eftir því sem efnahagslegur stöðugleiki eykst. Í því ljósi hefur nefndin ákveðið að bæta við vaxtaákvörðunarfundi 8. apríl næstkomandi.

Nefndin telur það varlega farið að lækka stýrivextina úr 18% í 17%. Flestir aðrir kalla þetta lækkun sem engu skiptir. Fyrir liggur að fráfarandi stjórn Seðlabankans hafði lagt til meiri lækkun stýrivaxta áður en hún fór frá. Það er umhugsunarefni.


mbl.is „Ótrúlega lítil lækkun"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svoleiðis gera menn bara ekki

Ef Jóhönnu er annt um Samfylkinguna liggur í augum uppi hver niðurstaða hennar verður: Hún mun gefa kost á sér sem formaður. Ella hefði hún átt að vera löngu búin að taka af skarið og segja nei svo svigrúm gæfist til að finna annað eða önnur formannsefni. Það er ekki boðlegt af henni að segja nei, viku fyrir landsfund og setja í uppnám öll forystumál flokksins. Svoleiðis gera ekki stjórnmálaleiðtogar sem ætlast til að  teknir alvarlega og stjórnmálaleiðtogar sem bera hag flokks síns eitthvað fyrir brjósti.
mbl.is Biðin eftir Jóhönnu á enda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband