Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Sanngjarnir skattar?

Það er makalaust með VG. Aukning skatta virðist vera eitt af því fáa sem þeim dettur í hug þegar kemur að efnahagsráðstöfunum. Eignaskattar eru sennilega ósanngjörnustu skattar sem til eru þannig að það er þversögn að tala um sanngjarna eignaskatta. Með eignasköttum er skattlagður skattstofn sem sjaldnast ber nokkrar tekjur. Það er skattlagður skattstofn sem aflað var með fjármunum sem að fullu er búið að borga af tekjuskatt eða fjármagnstekjuskatt. 

Það eina jákvæða við þessa tillögu er það að VG sýnir á spilin fyrir kosningar og upplýsir kjósendur um það hvers megi vænta úr þeim herbúðum verði VG áfram í ríkisstjórn.


mbl.is Vinstri græn vilja eignaskatta á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama skal yfir alla ganga

Frambjóðandinn heldur því fram að ASÍ hafi fram til þessa leyft starfsmönnum að fara í framboð, enda taki þeir launalaust leyfi fram yfir kosningar. Þetta hafi a.m.k. gilt ef starfsmaðurinn býður sig fram fyrir Samfylkinguna.

Ef þetta er rétt þá hlýtur forseti ASÍ að þurfa að útskýra af hverju það skipti máli fyrir hvaða flokk frambjóðandinn býður sig fram. ASÍ hlýtur að láta það sama yfir alla starfsmenn ganga, ekki bara suma.


mbl.is Leit á þátttöku sem uppsögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynningarbrella

Einhvern veginn finnst mér þessi tilkynning frá heilbrigðisráðherra um að hann þiggi ekki ráðherrahluta launa sinna, meðan þessi ríkisstjórn situr, eins og segir í fréttinni, bera meira yfirbragð kynningarbrellu en nokkuð annað.

Nú skulum við sjá hvort heilbrigðisráðherra haldi sig við þessa ákvörðun ef hann heldur áfram sem ráðherra í næstu ríkisstjórn. Og hvernig er með ráðherrabílinn? Er heilbrigðisráðherra þá ekki heldur að nota hann? Varla. Það kostar ráðuneytið milljónir á ári hverju að eiga og reka ráðherrabíl. Þann kostnað hlýtur ráðherrann að hafa ákveðið að spara ráðuneytinu. Til viðbótar hlýtur að koma að hann aki sjálfur, eigin bíl, án þóknunar fyrir bílaafnot. Leiðir þá af sjálfu sér að ráðherrabílstjórinn er ekki lengur í starfi hjá ráðuneytinu til að auka enn á sparnað ráðuneytisins vegna ráðherrans. 

Ef ríkisstjórn sú sem nú situr telur að ráðherrahluti launa sé óþarfur og að greiða eigi þingmönnum sömu laun, án tillits til þess hvort þeir eru ráðherrrar eða ekki, þá á ríkisstjórnin að láta breyta samsetningu launa ráðherra og afnema ráðherrahlutann. Útaf fyrir sig er ekkert á móti því. En þá verður ríkisstjórnin að mínu mati að endurskoða allt launakerfi ríkisins. Mér finnst óeðlilegt að ráðherra sé með lægri laun en hæst launuðu embættismennirnir í ráðuneytum þeirra. Og hæstu föstu laun í ráðuneytum eru talsvert hærri en þingmannalaun.

Af bloggathugasemdum sem komnar eru við þessa frétt verður ekki annað ráðið en að kynningarbrella heilbrigðisráðherra sé algerlega að takast. Flestir telja þetta hið flottasta ráð hjá ráðherranum.


mbl.is Ögmundur fær ekki ráðherralaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kallar á skýringar

Hví hefur viðskiptaráðuneytið einhvern sérstakan áhuga á því að bregða fæti fyrir rannsókn bankahrunsins? Hér kemur fram að ráðuneyti viðskiptamála hafi viljað viðhalda algjörri bankaleynd.

Fram hefur komið hjá nýjum viðskiptaráðherra að hann vilji losa um bankaleynd. Að vísu hefur hann sagt að það geti ekki gerst fyrr en seinna því það taki tíma að semja nauðsynlegt lagafrumvarp og það náist ekki fyrir vorið.

Það tekur enga stund að semja lagafrumvarp ef þörf krefur. Það sýndi sig t.d. þegar neyðarlögin voru samin og samþykkt á örfáum klukkutímum í byrjun október.

Fyrir liggur að hagsmunir almennings í landinu lúta að því að allt fari upp á borðið og upplýsist. Viðskiptaráðuneytið sýnist því með þessum þröskuldshætti sínum vera að gæta annarra hagsmuna en almennings í landinu. Það sýnist augljóst. Hvaða hagsmuna er ráðuneytið að gæta? Svara við því hljóta fjölmiðlar að kalla eftir.


mbl.is Hælarnir voru niðri í viðskiptaráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sofnað á verðinum?

Af fréttinni má ráða að undanþáguheimild sem aðrar þjóðir, m.a. Bretar og Hollendingar, var af okkar hálfu og annarra Norðurlanda, ekki nýtt. Ekki var drifið í málum eftir að ábending barst. Þess í stað virðist málið hafa verið hálfpartinn svæft með því að setja það í nefnd. Hver skyldu hafa verið rökin fyrir því að nýta ekki undanþáguheimildina? Sjálfsagt hefur engum dottið í hug að þetta gæti nokkurn tímann skipt máli og því skipti okkur engu hvort heimildin væri nýtt eður ei.

En þær upplýsingar sem hér koma fram, til viðbótar við minnisblað Seðlabankans sem birt var í gær, gera enn óskiljanlegra að Landsbanki Íslands skyldi athugasemdalaust fá að opna fyrir Icesave í Hollandi vorið 2008.


mbl.is Gátu sparað 444 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutafélagavæðing SPRON

Í Fréttablaðinu í dag (bls. 6) er haft eftir viðskiptaráðherra að hlutafélagavæðing SPRON hafi verið mistök. Ég tek undir með ráðherranum. Til hvers var ákveðið að fara með SPRON í kauphöllina? Þegar til kom reyndust stjórnendur félagsins ekki hafa nein áform um aðgerðir til að tryggja vöxt og viðgang þess.

Hins vegar virðist sem stjórnarmenn SPRON hafi hagnýtt sér þessa ákvörðun sjálfum sér til hagsbóta. Margar helstu staðreyndir þessa máls liggja fyrir opinberlega:

  • Stjórn SPRON samþykkti 17. júlí 2007 að leita eftir samþykki stofnfjáreigenda fyrir því að breyta SPRON í hlutafélag og skrá félagið í Kauphöll. Á sama fundi var ákveðið að markaður með stofnfjárbréf SPRON yrði opinn til 7. ágúst 2007.
  • Þrír stjórnarmenn í SPRON seldu stofnfjárbréf á tímabilinu 18. júlí til 7. ágúst 2007. Um þá sölu upplýsti stjórn SPRON hins vegar ekki fyrr en í ársbyrjun 2008.
  • Á tímabilinu 18. júlí til 7. ágúst 2007 hvöttu æðstu stjórnendur SPRON stofnfjáreigendur til að auka við stofnfjáreign sína. Margir stofnfjáreigendur fylgdu þeim ráðum.
  • Á tímabilinu 18. júlí til 7. ágúst 2007 hvöttu æðstu stjórnendur SPRON stofnfjáreigendur til að selja ekki stofnfjárbréf sín. Margir stofnfjáreigendur fylgdu þeim ráðum. Vissu æðstu stjórnendur þó að þrír stjórnarmenn voru búnir að selja mikinn hluta stofnfjárbréfa sinna og fyrirtækja sinna. 
  • Stjórn skýrði stofnfjáreigendum ekki frá sölu stjórnarmanna á stofnfjárbréfum á almennum fundi stofnfjáreigenda 21. ágúst 2007. Á þeim fundi samþykktu stofnfjáreigendur að breyta SPRON í hlutafélag og skrá í Kauphöll. Ég fullyrði að stofnfjáreigendur hefðu orðið tregir til að samþykkja þessar tillögur stjórnar hefðu þeir verið upplýstir um það að meirihluti stjórnarinnar var búinn á þessum tíma að selja stórar hluta stofnfjáreignar sem hann hafði yfir að ráða. 

Hlutafélagavæðing SPRON fór því fram án þess að stjórn SPRON upplýsti stofnfjáreigendur um mikilvæga þætti á borð við fyrrgreinda sölu stjórnarmanna á eigin bréfum. Sala stjórnarmanna var hvergi tilkynnt opinberlega. Virðist sem stjórn SPRON og æðstu stjórnendur hafi bundist samtökum um að halda henni leyndri. Stjórn SPRON hafði aðgang að skýrslu Capacent um verðmæti félagsins og vissu um forsendur og aðferðir við verðmatið en þetta vissi markaðurinn ekki. Stjórnarmenn höfðu undirtökin í viðskiptunum þegar þeir seldu bréfin. Stjórnarmenn höfðu aðstæður, umfram aðra, til að meta það svo að hagsmunum þeirra væri best borgið með því að selja stofnfjárbréf á þessum tíma, og gerðu það.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum sæta stjórnarmenn SPRON á þessum tíma og æðstu stjórnendur nú rannsókn af hálfu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra samkvæmt ákvörðun ríkissaksóknara vegna gruns um fjársvik.

Málið vekur einnig alvarlegar spurningar sem snúa að Fjármálaeftirlitinu. Ég mun fjalla um þátt FME í öðru bloggi.


mbl.is Margt líkt með Íslandi og Enron
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að blekkja heila þjóð?

Mér er brugðið eftir lestur minnisblaðs SÍ um fund fulltrúa bankans með erlendum fjármálastofnunum í febrúar 2008.

Fulltrúar SÍ virðast hafa verið varaðir við stöðu íslensku bankanna á öllum fundum, varaðir við með skýrum og beinskeyttum hætti. Gott væri að fá upplýst nákvæmlega hverjir voru fulltrúar SÍ á þessum fundum.

Þeir voru upplýstir um mikið vantraust á markaði vegna íslensku bankanna, einkum vegna Glitnis og Kaupþings. Talsmönnum Kaupþings væri ekki fyllilega treyst og talsmenn Glitnis væru bersýnilega reynslulausir og virkuðu "desperat", eins og segir á einum stað í minnisblaðinu.

Var FME skýrt frá þessum fundum? Fékk FME minnisblaðið? Hverjir, nákvæmlega, fengu þetta minnisblað? Það þarf líka að upplýsa. Það er merkt trúnaðarmál svo ætla verður að vel hafi verið haldið utanum hverjir fengu það.

Af hverju fengu bankarnir, sem svo afdráttarlaust var varað við í febrúar 2008, heila átta mánuði til að leika lausum hala með fjármuni Íslendinga? Það er á þessum tíma sem t.d. Landsbankinn virðist fara að spila óvarlega með fjármuni ýmissa lífeyrissjóða og nota þá í fjárfestingar sem voru í þágu eigenda bankans og stærstu viðskiptavina. Hvað fengu bankarnir þrír marga sparifjáreigendur á þessu tímabili til að taka fjármuni út af öruggum bankabókum og setja í ávöxtun í peningamarkaðssjóðum sínum, sem síðan fjárfestu í skuldabréfum í eigu eigenda bankanna? Upplýst hefur verið um umfangsmiklar lánveitingar Kaupþings til vildarvina á þessum sama tíma.

Hvaða ábyrgð bera stjórnvöld á öllu þessu í ljósi þeirra upplýsinga sem nú eru að koma fram?


mbl.is Glitnismenn heim auralausir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hafast ekkert að ...

Þetta mun vera minnisblaðið sem lesið var upp fyrir forsætisráðherra og utanríkisráðherra í mars 2008. Aðvörunin er skýr: ,,Hættulegt er að hafast ekkert að ..." en af fréttinni verður ekki ráðið hvort minnisblaðið geymi tillögur um hvernig við skuli bregðast. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra á þessum tíma hafa bæði sagt að engar tillögur hafi komið frá SÍ sem ekki var farið eftir.

Athyglisvert er að fulltrúar SÍ virðast ekki hafa deilt áhyggjum erlendu matsfyrirtækjanna varðandi Icesave reikninga Landsbankans. Og áhyggjur útlendinganna virðast engin aðvörunarljós hafa kveikt hjá SÍ. Þess í stað vörðu þeir Icesae en töldu þó ólíklegt að sú vörn hefði dregið úr áhyggjum útlendinganna.

Af minnisblaðinu verður ekki annað ráðið en að SÍ hafi haft áhyggjur af íslenska bankakerfinu, varaði ríkisstjórnina, eða a.m.k. hluta hennar við, án þess að leggja fram tillögur fram um viðbrögð. Ríkisstjórnin virðist hafa látið aðvörunina sem vind um eyru þjóta. SÍ var varaður við Icesave reikningum Landsbankans, varði þá og lét aðvörunina sem vind um eyru þjóta.

Eftir stendur að svara: Af hverju var ekkert hafst að?


mbl.is SÍ: Stefnt í ógöngur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talning

Það hafa væntanlega fleiri en ég tekið eftir því að eftir fyrstu talningu var 7 atkvæða munur á fyrstu tveimur. Endurtalning leiddi í ljós vel yfir 100 atkvæða mun. Erfitt er að skilja þetta. Kannski þarf kosningaeftirlit víðar en við alþingiskosningar?
mbl.is Ásbjörn vann baráttuna við Einar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýtur að ætla í formanninn

Ef Kristján Þór ætlar eingöngu að tilkynna að hann ætli aftur í varaformannsslag, fjórum árum eftir að hann reyndi við varaformanninn síðast, þá er þetta of hátimbruð aðferð til að tilkynna þá ákvörðun. Kristján Þór hlýtur að ætla í formannsslag við Bjarna Benediktsson. Annað er óhugsandi.
mbl.is Kristján Þór tilkynnir um framboðsáform
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband