Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Það er greinilegt

að Bretar hafa náð að setja mark sitt á þessa yfirlýsingu því engir nema þeir hafa haldið því fram að við ætlum ekki að uppfylla okkar alþjóðlegu skuldbindingar. En gott hefði nú verið ef leiðtogafundurinn hefði verið skýrari og sagt nákvæmlega til hvaða alþjóðlegu skuldbindinga hér er vísað til. Hugsanlega er verið að vísa til Icesave reikninganna í Bretlandi og víðar. Í því sambandi er athyglisverð grein Stefáns Más Stefánsson prófessors og Lárusar Blöndal hrl. um ábyrgð íslenska ríkisins á innistæðum, sem birtist í Morgunblaðinu á miðvikudaginn síðasta. Af henni má ráða að ábyrgð Íslands sé ekki jafn rík og ýmsir halda fram.
mbl.is Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel að verki

staðið hjá lögreglunni. Mjög gott að hún skuli hafa náð að stoppa þetta á byrjunarstigi.
mbl.is Á sér ekki hliðstæðu hérlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hlýtur að vera sjálfsagt

að upplýst verði um laun bankastjóra og æðstu stjórnenda í nýju bönkunum.
mbl.is Boðin launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott

að forsætisráðherra skuli nú með skýrum og afgerandi hafa lofað því að ráðist verði í uppgjör við fortíðina og ítarleg rannsókn gerð. Nú bíðum við nánari upplýsinga um það með hvaða hætti staðið verður að þessari rannsókn. Í því felst að efla þarf verulega starfsemi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og væntanlega Fjármálaeftirlitsins líka. 


mbl.is Mjög róttæk viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins

En óskýrt er af hverju það er búið að taka allan þennan ógnartíma að lækka stýrivextina.
mbl.is Skynsamleg ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki vil ég

vera leiðinleg og augljóst er að þessi aðgerð er nauðsynlegt fyrir þá sem nú eru að sligast undan afborgunum af gengislánum. En þeir sem tóku gengislán hafa notið þess hversu sterk krónan hefur verið þangað til upp á síðkastið og þeir hafa borgað hratt niður höfuðstólinn. Með frystingu gengislána er þeim gefinn kostur á að bíða þangað til höfuðstóll lánanna lækkar aftur þegar krónan styrkist.

Hvað með þá sem ákváðu að taka ekki áhættuna af gengistryggðum fasteignalánum af því að þeir töldu öruggt að krónan gæti ekki haldist svona sterk lengi, þó engan hafi órað fyrir svo mikilli veikingu sem raun ber vitni? Þeir tóku verðtryggt lán í trausti þess að verðlag hér yrði sæmilega stöðugt.  Höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað hrikalega síðustu mánuði vegna þeirrar miklu verðbólgu sem hér hefur verið, m.a. vegna gengisþróunarinnar. Er nú svo komið að margir eiga ekki lengur neitt af þeim beinhörðu peningum sem þeir lögðu fram við kaup á fasteign sinni. Vísitölubinding húsnæðislánsins er búin að brenna þá peninga upp. Hvað á að gera fyrir þennan hóp lántakenda?


mbl.is Afborganir verði frystar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða og sökudólgar

Um flest er ég sammála biskup Íslands. Ég held þó að samstaða og leit að sökudólgum, eða kannski frekar leit að skýringum, útiloki ekki hvort annað. Ég óttast að þjóðin sé vegna þeirra atburða sem yfir okkur hafa dunið frá 6. október í ákveðnu sorgarferli. Talað er um að sorgarferlið skiptist í fimm stig: lostið eða áfallið, afneitunina, reiðina, samningsstigið og svo viðurkenninginu.

Ég held að stærstur hluti þjóðarinnar sé enn á stigum lostsins og afneitunarinnar. Það eru mjög margir og sennilega flestir búnir að tapa mjög miklu. Það eru ekki einvörðungu fjármunir sem hafa glatast. Margvíslegar væntingar eru brostnar. Fólk sem taldi sig vera búið að safna til efri ára og ætlaði að minnka við sig vinnu eða hætta að vinna, byrja að njóta ávaxta erfiðis síns stendur frammi fyrir algerlega nýjum veruleika. Til viðbótar kemur óvissa um hvað lífeyrissjóðstekjur munu rýrna vegna umtalsverðs taps lífeyrissjóðanna á gjaldþroti viðskiptabankanna þriggja og hugsanlega frekari tapa vegna fjármálakreppunnar í heiminum.

Raunveruleikinn mun smátt og smátt renna upp fyrir þjóðinni og þá hef ég áhyggjur af að reiðin muni grípa um sig. Það munu verða háværar kröfur um að finna sökudólga og að þeir verði látnir bera ábyrgð. Byrjun þeirrar reiði birtist skýrlega í viðtali Egils Helgasonar í Silfrinu, þegar hann hellti sér yfir Jón Ásgeir.

Þess vegna tel ég mjög brýnt að stjórnvöld tilkynni, fyrr en seinna, að byrjuð sé vinna sem miðar að því að rannsaka hvað gerðist. Tilgangur þeirrar vinnu þarf að vera tvíþættur. Annars vegar að finna skýringar til að unnt verði að bæta regluverkið svo hlutir af þessu tagi endurtaki sig aldrei. Hins vegar þarf að skoða gaumgæfilega hvort einhverjir hafi í starfsemi sinni gengið á svig við lög og reglur með refsiverðum hætti. Komi slíkt í ljós verður að vera skýrt að þeir sem það kunna að hafa gert, verði dregnir til ábyrgðar.

Því fyrr sem tilkynnt verður að vinna af þessu tagi sé hafin því meiri líkur eru á því að unnt verði að hemja þá reiði sem örugglega á eftir að brjótast út með þjóðinni.


mbl.is „Brotsjórinn bylur á okkur öllum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég met það svo

að Jón Ásgeir hafi skorað fleiri stig í þessu viðtali í Silfrinu en Egill. Jón Ásgeir sýndi kjark að mæta og miðað við upphafsorð Egils var hann sá eini sem hafði slíkt þor. Það hefði þurft í viðtalið vandlega undirbúinn spyril með rökstuddar fullyrðingar tengdar staðreyndum, sem Jón Ásgeir hefði þurft að svara málefnalega í staðinn fyrir spyril með lítið og jafnvel ekkert rökstuddar ásakanir sem auðvelt var fyrir Jón Ásgeir að víkja sér undan.
mbl.is Jón Ásgeir: Fær ekkert út úr sölunni á Baugsfyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósammála einu

Ég get um margt verið sammála ýmsu því sem fram kom í máli félags- og tryggingamálaráðherra  í Silfrinu. Og ánægð var ég að heyra að hún telur að fara þurfi yfir öll þessi mál til að leita skýringa og hugsanlega að láta einhverja sæta ábyrgð ef eitthvað misjafnt kemur í ljós. Vonandi verður sem fyrst farið í þá vinnu svo ábyrgðir, ef einhverjar eru, fyrnist ekki.

En ég er mjög ósátt við orð hennar og raunar viðskiptaráðherra líka um það að eitthvað eigi að gera til að bjarga þeim sem eiga peninga í peningamarkaðssjóðum. Ég tel miklu máli skipta nú að lögum verði fylgt - og eingöngu þær eignir sem lög verja - séu varðar. Því ef byrjað verður á undantekningum hvar ætla menn þá að enda? Af hverju þá að takmarka sig við peningamarkaðssjóðina? Þeir sem lögðu fjármuni á þá sjóði voru líka að leita að meiri ávöxtun en bankareikningarnir buðu, líkt og þeir sem settu fé sitt í alls kyns aðra sjóði og hlutabréf.

Í fréttum á annarri hvorri sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi kom fram að um 70 þús. hluthafar í Glitni, Landsbankanum og Kaupþingi eru líklega búnir að tapa 170 milljörðum. Þessir einstaklegar þáðu líka ráð frá einhverjum verðbréfamiðlurum sem ráðlögðu að bestí sparnaðurinn fælist í kaupum á hlutabréfum í banka. Alveg eins og þeir sem kusu peningamarkaðssjóðina umfram bankabókina trúðu því að hann veitti betri ávöxtun en bankabók með hæstu mögulegum vöxtum. Og það sem meira er. Stjórnvöld hvöttu almenning til að fjárfesta í hlutabréfum af því að hér þurfti að búa til virkan verðbréfamarkað. Í fjölda ára var veittur sérstakur skattafsláttur til að hvetja til sparnaðar í hlutabréfum. 

Það eru mjög margir búnir að tapa mjög miklu og meira að segja lífeyrissjóðsréttur fólks er í uppnámi vegna taps lífeyrissjóðanna. Ég held að hér verði algerlega að fylgja lagabókstafnum um það hvað varið er, þ.e. að draga mörkin við innistæður á bankareikningum. Allt hitt verður að vera í uppnámi, og hugsanlega tapað, hversu sárt sem það er. Annars verður fetuð hættuleg leið sem aldrei mun enda með neinu öðru en mismunun milli einstaklinga. Slíka mismunun er ekki og verður ekki hægt að réttlæta. 


mbl.is Jóhanna: Skipbrot nýfrjálshyggjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þétti raðirnar

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var í dag, verður örugglega minnistæður okkur sem hann sóttum fyrir margra hluta sakir. Auðvitað var búið að ákveða þennan fund fyrir löngu og engan gat þá órað fyrir að hann yrði haldinn í lok einhverrar afdrifaríkustu viku í þjóðmálum og raunar heimsmálum um margra áratuga skeið. Enda hefðu sjálfsagt fáir fyrir viku síðan trúað því að eftir viku væru þrír af fjórum viðskiptabönkum okkar horfnir af sjónarsviðinu og staða mála sú sem raun ber vitni.

Geir H. Haarde flutti afburðagóða ræðu - og svaraði fyrirspurnum fundarmanna með skýrum og skilmerkilegum hætti. Mér þótti gott að heyra hversu afdráttarlaust hann tók á því að leiða þyrfti menn til ábyrgðar ef í ljós kæmi að lög hefðu verið sniðgenginn. Stuðningur við formann flokksins í þeim erfiðu, og mér liggur við að segja ofurmannlegu, verkefnum, sem hann og ríkisstjórnin tekst nú á við er mikill og traustur og kom berlega fram á þessum fundi.

Aðrir ráðherrar flokksins gerðu sínum málaflokkum og sinni sýn á stöðu mála góð skil. Sérstaklega var ég ánægð að heyra orð varaformanns flokksins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, um það að það þyrfti og það yrði farið yfir allt sem gerst hefur með það fyrir augum að skoða hvort einhverjir hlekkir hafi brugðist í undanfara þeirra atburða sem nú eru orðnir að veruleika. Hún sagði að í þeirri skoðun mætti engan undanskilja og nefndi eftirlitsstofnanir þar sérstaklega. Ég trúi því og treysti að það verði gert.

Ræða, sem Kjartan Gunnarsson, fv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hélt, var í senn það óvæntasta og um leið það eftirminnilegasta sem gerðist á þessum flokksráðsfundi.


mbl.is Bretar knésettu stærsta fyrirtæki Íslendinga með valdníðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 391650

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband