Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Jákvætt innlegg

Loksins virðist koma jákvætt innlegg í útlöndum í þetta mál, frá fleirum en Evu Joly. Sýnir þetta ekki mikilvægi þess að forsætisráðherra og e.t.v. fleiri ráðherrar í ríkisstjórninni taki sig til og drífi sig í ferð til helstu nágrannalanda, ræði þar við æðstu ráðamenn, til að vinna málstað okkar í Icesave málinu frekara fylgi?
mbl.is FT segir að jafna eigi Icesave-byrðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skjóta sendiboðann ...

Hefði umrædd kona leitað til mín, þegar hún stóð frammi fyrir því að grípa til varna í brottnámsmáli, hefði ég útskýrt vandlega fyrir henni að líkur hennar á að vinna málið væru mjög litlar. Ég hygg að flestir, ef ekki allir lögmenn, sem taka að sér brottnámsmál hefðu gert það sama. Dómaframkvæmd í brottnámsmálum, þar sem málavextir eru sambærilegir þessu máli er orðin mjög skýr. Foreldri sem farið hefur með barn úr landi þar sem fjölskyldan bjó, án þess að ljúka forsjárágreiningi milli foreldranna, er nokkurn veginn undantekningarlaust dæmt til að fara með börnin úr landi til að forsjárágreiningi sé hægt að ljúka með þeim hætti sem lög viðkomandi lands gera ráð fyrir.

Konan segir að gögn, málstað hennar til framdráttar, hafi ekki verið lögð fram. Um það veit ég auðvitað ekki. En hitt veit ég að fyrir Hæstarétt voru t.d. lögð fram ný gögn, m.a. sálfræðiskýrsla frá skólasálfræðingi. Sú skýrsla gerði lítið til að styðja fullyrðingu konunnar um að börnin hefðu aðlagast hér með þeim hætti að ekki mætti ákveða að hún skyldi fara með þá aftur til Bandaríkjanna til að þar yrði leyst úr forsjárdeilu foreldranna.

Ég hef áður í bloggi um þetta mál bent á að um mál af þessu tagi gilda tveir alþjóðasamningar, svokallaður Haagsamningur, sem átti við í þessu mál, og svokallaður Evrópusamningur. Báða samningana höfum við lögfest með lögum nr. 160/1995.

Það eru 11. og 12. gr. laganna sem fjalla um afhendingu barns skv. Haagsamningnum. Í 11. gr. er fjallað um það hvenær afhenda skal barn. Í 12. gr. er fjallað um hvenær heimilt er að synja um afhendingu barns. Ákvæðið er svohljóðandi:

Heimilt er að synja um afhendingu barns ef:
1. meira en eitt ár er liðið frá því að barnið var flutt á brott eða hald hófst þar til beiðni um afhendingu er móttekin hjá héraðsdómi, enda hafi barnið aðlagast nýjum aðstæðum,
2. alvarleg hætta er á að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega eða koma því á annan hátt í óbærilega stöðu,
3. barnið er andvígt afhendingu og hefur náð þeim aldri og þroska að rétt sé að taka tillit til skoðana þess, eða
4. afhending er ekki í samræmi við grundvallarreglur hér á landi um verndun mannréttinda. 

Af greininni má sjá að það eru fjögur tilvik sem heimila dómara að synja um afhendingu barns. Nauðsynlegt er að undirstrika að þessi ákvæði eru heimildarákvæði. Það þýðir að dómara er aldrei skylt að synja um afhendingu. Meginreglan er sú að ef barn hefur verið numið á brott með þeim hætti sem 11. gr. laganna tilgreinir þá skal dæma um að afhending fari fram.

Ef heimildarákvæðin eru skoðuð nánar þá er þar í fyrsta lagi þessi eins árs regla. Hún er víðtækari en að einungis skuli líta á lengd tímans sem barnið hefur verið brottnumið. Til að henni megi beita verður að sýna fram á, og sú sönnunarbyrði hvílir á foreldrinu sem nam barn á brott, að barnið hafi aðlagast nýjum aðstæðum. Í þessu máli voru engin þau gögn lögð fram, hvorki í héraðsdómi né Hæstarétti, sem sýndu að börnin hefðu aðlagast nýjum aðstæðum. Sú staðreynd að ákvæðið var ekki notað í kröfugerð konunnar skiptir því að mínu mati ekki máli.

Í öðru lagi er heimilt að synja um afhendingu ef  alvarleg hætta er á því að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega eða koma því á annan hátt í óbærilega aðstöðu. Ekkert slíkt var fyrir hendi í þessu máli. Í greinargerð með ákvæðinu segir að meta skuli hlutlægt hvort hætta sé á að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega. Þar kemur einnig fram að mikið þurfi til að koma svo unnt sé að beita þessu ákvæði, sbr. orðalagið "alvarleg hætta". Konan byggði kröfu sína m.a. á þessu ákvæði.

Í þriðja lagi er heimilt að synja um afhendingu ef barnið er andvígt afhendingu og hefur náð þeim aldri og þroska að rétt sé að taka tillit til aldurs þess. Þessu undantekningarákvæði var beitt í dómi Hæstaréttar sem lesa má hér. Til að unnt sé að byggja á viljaafstöðu barna verða þau að hafa náð ákveðnum aldri og þroska sem börnin í þessu máli hafa ekki náð. Konan byggði kröfu sína m.a. á þessu ákvæði.

Í fjórða lagi er heimilt að synja um afhendingu ef afhending er ekki í samræmi við grundvallarreglur hér á landi um verndun mannréttinda.  Þetta ákvæði á augljóslega ekki við og var ekki vísað til þess í málinu.

Af framangreindu má væntanlega sjá að líkurnar á því að konan ynni þetta brottnámsmál voru litlar ef nokkrar. Það er staðreynd málsins.

Ég lauk mínu síðasta bloggi um þetta mál með orðunum: Flóknara er þetta mál ekki. Var ég þá að vísa til þess að lögfræðilega væri þetta mál ekki flóknara en þetta. Einn bloggari taldi þetta orðalag óviðeigandi því mál af þessum toga væru alltaf flókin, fyrir foreldrana og börnin sem hlut eiga að máli. Það er svo sannarlega rétt og með þessu orðalagi var ég hreint ekki að vísa til þess. Málsaðilar í þessu máli eru í flókinni stöðu. Faðirinn var vegna brottfarar móðurinnar með börnin, sviptur börnum sínum í 18 mánuði. Móðirin, vegna brottfarar sinnar sem var ólögmæt, stendur nú frammi fyrir því að þurfa að fara aftur til Bandaríkjanna með börnin. Bæði standa þau frammi fyrir því að eiga fyrir höndum erfitt forsjármál þar sem þau munu takast á um forsjá tveggja barna.

Það er flókin og erfið staða.


mbl.is Fékk sms: Hæstiréttur staðfesti dóminn, sorry
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

63:0?

Ég er að horfa á kvöldfréttir RÚV. Skrítið hvað forsætisráðherra var afdráttarlaus í að segja að stjórnin þyrfti ekki á stjórnarandstöðunni að halda vegna Icesave. Þau ummæli komu þvert á ummæli  heilbrigðisráðherra sem sagðist helst vilja sjá Icesave samþykkt með 63:0. Að vísu bætti forsætisráðherra við að auðvitað væri betra að sem breiðust samstaða næðist á þinginu.

Ég held að það sé rétt hjá heilbrigðisráðherra. Gagnvart umheiminum er allra best ef Alþingi ber gæfu til að ná slíkri samstöðu um fyrirvara við Icesave ríkisábyrgðina að allir þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, greiði atkvæði með málinu, breyttu með þeim hætti sem samstaða næst um.


mbl.is Icesave líklega úr nefnd fyrir vikulok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðfesting

Ummæli fv. viðskiptaráðherra staðfesta það, sem lengi virðist hafa blasað við, að fyrri ríkisstjórn gerði sér grein fyrir hvert stefndi. Fátt hefur komið fram um hvað gert var til að tryggja að skellurinn yrði sem minnstur. Að heimila Icesave í Hollandi í maí 2008 bendir a.m.k. ekki til að menn hafi neitt verið á bremsunni gagnvart útrás bankanna. Það þarf vart að taka fram hversu allt önnur staða okkar væri ef Icesave í Hollandi hefði aldrei fengið að fara af stað.
mbl.is Fjórir ráðherrar breyttu bréfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að snúa hlutunum á haus

Það er fyrir neðan virðingu trúverðugs miðils, eins og mbl.is segist vera, að fjalla með jafn einhliða hætti um þetta mál og hér er gert.  Það er ekki nóg að setja tengil á dóminn en leyfa síðan öðrum aðilanum að segja frá málinu á haus og fara með jafn miklar rangfærslur og raun ber vitni.

Um málið og málavexti má lesa í dómi Hæstaréttar. Við lestur málavaxtalýsingar dómsins blasir væntanlega við öllum að málið er langt frá því að vera með þeim hætti sem konan heldur fram. Rétt er að taka fram, áður en lengra er haldið, að ég er lögmaður föðurins í þessu máli, eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar.

Snúum dæminu nú við. Gefum okkur að sama kona hefði búið á Íslandi með bandarískum eiginmanni sínum. Vegna yfirvofandi hjónaskilnaðar þeirra fór hann án samþykkis hennar með börnin til Bandaríkjanna áður en ráðið var til lykta hér á landi forsjárágreiningi þeirra vegna barnanna. Hefði þessi sama kona þá ekki ætlast til að bandarískur dómstóll hefði dæmt hann til að koma tilbaka með börnin eða að hún gæti sótt börnin til Bandaríkjanna svo hægt væri hér á landi að ljúka forsjárdeilunni? Hafa verður í huga að forsjárdeilu yfir börnum ber að reka í því landi sem fjölskyldan bjó síðast saman í. Þessi fjölskylda bjó síðast saman í Bandaríkjunum. Það þýðir að forsjárdeilu foreldranna vegna þessara barna ber að reka þar, ekki á Íslandi. 

Eins og fram kemur í dóminum fór konan frá Bandaríkjunum, með börn sín tvö, án samþykkis föður barnanna, og áður en deilu þeirra um forsjá barnanna, vegna hjónaskilnaðar þeirra lauk. Þess vegna hafa íslenskir dómstólar, bæði héraðsdómur og Hæstiréttur, dæmt hana til að fara tilbaka til Bandaríkjanna, sem var síðasta sameiginlega heimili foreldra barnanna og barnanna sjálfra var, svo þar megi leysa úr forsjárágreiningi foreldranna. Hafi hún ekki farið innan sex vikna frá því að héraðsdómur var kveðinn upp þá getur faðir barnanna komið hingað til lands og sótt börnin.

Til eru alþjóðlegir samningar, Haagsamningurinn annars vegar og Evrópusamningurinn hins vegar sem fjalla um brottnám barna. Samningarnir hafa verið lögfestir hér á landi með lögum nr. 160/1995. Þessum samningum er ætlað að tryggja að foreldrar hagi sér ekki með þeim hætti sem umrædd kona gerði. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 160/1995 segir m.a. í greinargerð:

Velferð barna er ávallt stefnt í hættu þegar foreldrar bera ekki gæfu til að taka í sátt og samlyndi ákvarðanir um börn sín, enda þótt þau sjálf séu skilin að skiptum. Í þessum tilvikum er staða barna sem eiga foreldra af mismunandi þjóðernum sérstaklega erfið. Um leið og millilandasamskipti aukast, fjölgar hjónaböndum og samböndum fólks af ólíkum þjóðernum og í kjölfar þeirra hjónaskilnuðum og sundruðum fjölskyldum. Sífellt fleiri börn lenda í þeirri stöðu að verða bitbein foreldra sem búa ekki í sama landi og tilheyra oft ólíkum menningarheimum. Þetta hefur vakið viðbrögð á alþjóðlegum vettvangi og samstaða hefur náðst um að nauðsynlegt sé að grípa til ráðstafana til verndar þessum börnum. Afrakstur þessarar alþjóðlegu samvinnu eru tveir samningar, Evrópusamningur, frá 20. maí 1980, um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna sem gerður var á vettvangi Evrópuráðsins og samningur, frá 25. október 1980, sem gerður var á vegum Haagráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa. ... Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði ákvæði sem eru nauðsynleg til að Ísland geti fullgilt þessa tvo samninga.

 

Íslenskum dómstólum ber að dæma skv. þessum samningnum. Það hafa íslenskir dómstólar gert í þessu máli og fjölmörgum öðrum sambærilegum málum. Vissulega eru heimildir í þessum samningum og þar með í lögum nr. 160/1995 um að synja megi afhendingu í tilvikum sem þessum. Þessar heimildir eru hins vegar túlkaðar mjög þröngt og voru ekki taldar eiga við í þessu máli. Með dómnum í þessu máli hafa íslenskir dómstólar dæmt í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undirgengist í málum af þessu tagi.

Flóknara er þetta mál ekki.


mbl.is Íslenskri fjölskyldu vísað úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk fyrir okkur

Við nutum óviðjafnanlegrar gestrisni Dalvíkinga í gærkvöldi í fiskisúpunni og í dag á fiskideginum mikla. Frábær stemning, allir glaðir og veðrið lék við gesti. Skemmtileg hugmynd, sem hrundið var í framkvæmd og hefur heldur betur slegið í gegn.
mbl.is Fjölmenni á Dalvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tylliástæður

Þingmenn Borgarahreyfingarinnar virðast hafa fjarlægst hratt þá grasrót sem kom þeim á þing. Það er sjálfsagt þess vegna sem þeir vilja ekki hitta hana á almennum félagsfundi þó tylliástæðan sé að til fundar hafi verið boðað með of skömmum fyrirvara.
mbl.is Enginn þingmaður mætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískt hugrekki

Fjármálaráðherra sagði í Kastljósi í kvöld að hann trúi því að með verkum sínum sé hann að vinna framtíð þjóðarinnar gagn. Hans eigin vinsældir og flokks hans verði að víkja. Það er óvenjulegt, en um leið virðingarvert að heyra stjórnmálamann tala með þessum hætti.
mbl.is Svigrúm til að setja skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varla

kemur það á óvart í ljósi síðustu talna um að þúsundir fjölskyldna eru í þeirri stöðu að skuldir þeirra eru verulega meiri en eignir, hátt í 20 þúsund manns eru atvinnulausir og greiðslumáttur launa fer sífellt lækkandi ...
mbl.is Þúsundir vilja greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 391723

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband