Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Nú þarf að standa í lappirnar

Ætlast ríkisstjórnin til að ríkisábyrgðin á Icesave verði samþykkt án þess að Alþingi sjá gögnin? Það er eins gott að alþingismenn standi í lappirnar gagnvart þessu og gott að heyra að formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins tekur svo afdráttarlaust á málinu.
mbl.is Ekki ríkisábyrgð á leynisamning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skondið

Það er skondið að á sama tíma og norrænu forsætisráðherrarnir tala um samnorræna umhverfisstefnu og mikilvægi umhverfismála koma fjórir af fimm á einkaþotum til Egilsstaða. Gátu ráðherrarnir ekki slegið sér saman í eina vél? Það hefði verið talsvert umhverfisvænna.
mbl.is Norræn stefna í umhverfismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave

Ég vil benda öllum á að lesa þennan pistil Jóns Helga Egilssonar á pressan.is. Þessi pistill Jóns Helga er það besta sem ég hef lesið um Icesave og ætti að vera skyldulesning fyrir alla. Það má ekki gerast að Alþingi samþykki þennan samning.


mbl.is Icesave: Hægt að byggja allan Ísafjörð tíu sinnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfgefið

Saga Capital hlýtur að vera tilbúið til að veita þessum stofnfjáreigendum, lendi þeir í vandræðum, sömu ívilnandi lánskjörin og það naut sjálft hjá ríkissjóði.
mbl.is Eiga bara skuldir eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsagt þörf á því

Það er sjálfsagt þörf á því að endurskoða reglur um skipun embættismanna, ekki síst ráðuneytisstjóra. En það er hjákátlegt að heyra stjórnmálamenn kvarta yfir því hvernig málum er háttað í þessu tilliti. Hverjir skipa ráðuneytisstjóra? Það eru ráðherrarnir sem gera það. Það eru því ráðherrar sem ákveða hverju sinni hvort þeir skipi í embætti ráðuneytisstjóra útfrá faglegum forsendum eða forsendum sem hafa á sér meiri pólitískan blæ.  Flóknara er það ekki. Ráðherrar geta engum öðrum en sjálfum sér um kennt mislíki þeim núverandi staðs mála.
mbl.is Vill endurskoða reglur um embættismenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grafalvarlegt mál

Þessar upplýsingar, ef réttar eru, eru grafalvarlegar og enn eitt púslið í þá mynd sem er að birtast af því sem raunverulega gerðist á síðasta ári. Hver verður ábyrgð þeirra sem vissu af stöðunni og aðhöfðust ekkert? Ofurlaun margra þeirra sem komu að máli voru réttlætt með því að ábyrgð þeirra væri svo mikil. Enn hefur ekki sýnt sig að nokkur beri minnstu ábyrgð á gríðarlegu tapi, m.a. tapi lífeyrissjóðanna. Svo er auðvitað umhugsunarefni af hverju t.d. lífeyrissjóðir voru að kaupa skuldabréf og víxla sem hlutafélag sem ekki einu sinni var almenningshlutafélag gaf út. Var slík fjárfesting fjármuna lífeyrissjóða í samræmi við þær reglur sem gilda?
mbl.is Baugur kominn í þrot í mars 2008 og Kaupþing vissi af því
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhugsunarefni

Ég er ein þeirra sem fannst sérstakur fengur að því að fá fagmann eins og Evu Joly til að liðsinna við rannsókn á bankahruninu. Ég tel að okkur veiti ekki af allri þeirri utanaðkomandi ráðgjöf sem mögulegt er að fá, m.a. vegna umfangs rannsóknarinnar og einnig vegna þeirrar staðreyndar að við erum fámenn þjóð þar sem krosstengsl eru út um allt.

Ég er hins vegar talsvert hugsi yfir fjölmiðlaframgöngu Evu Joly í dag og velti fyrir mér hvernig stendur á henni. Sagt er að hún hafi átt góðan fund með sérstökum ríkissaksóknara í dag og að á morgun séu frekari fundarhöld ákveðin. Ekkert hefur fram komið um það að neitað hafi verið að fylgja ráðum hennar. Ekkert kemur fram um að neitað hafi verið að skoða ábendingar hennar um enn frekari fjárframlög. Þvert á móti fjármálaráðherra bendir á í viðtali með þessari frétt að þó hann haldi fast um útgjöld þá séu útgjöld til þessarar rannsóknar af þeim toga að þau yrðu skoðuð með sérstakri velvild. Í þessu sambandi hlýtur líka að vakna spurning hvort Eva Joly hafi komið óánægju sinni á framfæri við ráðherra ríkisstjórnarinnar áður en hún viðraði hana í fjölmiðlum.

Mér finnst þannig vanta skýringu á því af hverju Eva Joly velur þessa tímasetningu til að koma opinberlega fram með yfirlýsingar sem jafnvel má skilja svo að hún vilji hætta sem sérstakur ráðgjafi hjá sérstökum saksóknara. Kannski skýrist það á morgun.

Og vonandi næst sú lending að við höldum áfram að njóta mikilvægrar leiðsagnar Evu Joly. Það skiptir miklu varðandi áframhald þeirra rannsókna sem hafnar eru og þeirra sem hljóta að vera í farvatninu. Það þarf að velta við hverjum steini.
mbl.is Skoða þörf á auknum útgjöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur ekki á óvart

Ef marka má fréttaflutning af hæfismati nefndar forsætisráðuneytisins vegna seðlabankastjórastaðna kemur ekki á óvart að umsækjendur hafi gert alvarlegar athugasemdir við matið. Það er óskiljanlegt að umsækjendur sem sækja um báðar stöðurnar skuli fá mismunandi mat í þær þó fyrir liggi að lagaleg skilyrði eru hin sömu til að gegna báðum. Þá hefur heyrst að nefndin hafi ekki kallað umsækjendur í viðtal. Vandséð er hvernig hægt er að meta hæfni til samskipta með öðrum hætti en a.m.k. viðtali við umsækjendur.

Einhvern veginn hafa þessi vinnubrögð á sér blæ þess að verið sé að reyna að gæðastimpla með "hlutlausum" hætti einstaklinga sem eru skipunaraðilanum þóknanlegir og freista þess að gefa skipuninni í embættin þar með faglegan blæ. Allt bendir þó til að þegar upp verði staðið verði það pólitísk tengsl umsækjenda sem muni ráða úrslitum um það hvort þeir verði skipaðir eða ekki.

Svo er umhugsunarefni að þeir einstaklingar sem faglega bera mikla ábyrgð á peningamálastefnu Seðlabankans, sem hrundi í hruninu, skuli taldir hæfastir til að gegna starfi seðlabankastjóra. Það virðist einhver þversögn í því mati.


mbl.is Gera athugasemdir við hæfismat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðabann?

Fjármálaráðherra segir takmörk fyrir því hvað hægt sé að breyta í rekstri á miðju fjárlagaári. Þetta er þó það sem fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu hafa þurft að gera. Fjölskyldur og fyrirtæki fengu ekki mikinn aðlögunartíma að gerbreyttu umhverfi, gerbreyttri tekjustöðu. Fjölskyldur og fyrirtæki gátu ekki veitt sér þann lúxus að segja að allar aðhaldsaðgerðir yrðu að bíða nýs fjárlagaárs.

Ég hef velt fyrir mér hvort ekki megi setja mikil takmörk á allar vinnuferðir til útlanda. Þó fjármálaráðherra hafi lækkað dagpeninga vegna ferðalaga erlendis þá mætti jafnvel ganga skrefinu lengra og fækka þessum ferðum umtalsvert. Með því yrðu tvær flugur slegnar í einu höggi: Umtalsverður ferðakostnaður sparast. Ég er viss um að ferðakostnaður ríkissjóðs vegna utanlandsferða hleypur á hundruðum milljóna ef ekki enn hærri fjárhæðum á hverju ári. Síðan myndi það þýða að opinberir starfsmenn eru meira á skrifstofum sínum til að sinna enn brýnni verkefnum en þeim sem í vinnuferðunum felast. 


mbl.is Ná helmingi með tekjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæð þróun

Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að sem flest börn njóti sameiginlegrar forsjár foreldra sinna þó foreldrarnir hætti að búa saman. Þess vegna er það umhugsunarefni hvað allar lagabreytingar á þessu sviði taka langan tíma hjá okkur og hversu lengi við erum að aðlaga okkur þróun í nágrannalöndunum. Sameiginleg forsjá var ekki lögfest fyrr en 1992 en hafði þá verið möguleiki fyrir foreldra í nágrannalöndunum um margra ára skeið. Sama má segja um svokallaða dómaraheimild. Hún er lögfest í flestum þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við en hér gengur hvorki né rekur að fá hana lögfesta.

Það er tvennt sem er brýnast að mínu mati varðandi sameiginlega forsjá. Annars vegar að barnalögum verði breytt þannig að dómarar geti dæmt að sameiginlegri forsjá skuli ekki slitið eða að sameiginlegri forsjá skuli aftur komið á. Það er bjargföst skoðun mín að til lengri tíma litið muni dómaraheimildin fækka forsjármálum. Hins vegar að skilgreint verði með miklu skýrari hætti en nú er hvað felst í því að hafa sameiginlega forsjá yfir barni. Forsjárágreiningur sem upp kemur á alltof oft rætur að rekja til þess að ekki er nægilega skýrt hvað felst í því að hafa sameiginlega forsjá.


mbl.is Flestir með sameiginlega forsjá barna eftir skilnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband