Leita í fréttum mbl.is

Hvar er skjaldborgin?

Formaður Samfylkingarinnar og VG töluðu hátt um það við myndun minnihlutastjórnarinnar í lok janúar sl. að  meginverkefni hennar yrði að slá skjaldborg um heimilin í landinu. Á þeim liðlega 80 dögum sem minnihlutastjórnin starfaði var gripið til fárra raunhæfra aðgerða í þágu heimila og atvinnulífs, sem einnig er komið að fótum fram þannig að stór hluti fyrirtækja er tæknilega gjaldþrota.

Þessa dagana ræða formenn Samfylkingar og VG í miklum rólegheitum og án nokkurs asa að mynda nýja ríkisstjórn. Helsta vandamálið virðist tæknilegt, hvort sækja eigi um EB aðild að undangegnu þjóðaratkvæði eða hvort vaða eigi beint í slíka umsókn. Hvort forsvarsmenn flokkanna sem nú starfa saman í ríkisstjórn gera sér grein fyrir stöðu þess fólk sem vísað er til í fréttinni er ómögulegt að vita. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar bendir a.m.k. ekki til þess. Orð félagsmálaráðherra eru athyglisverð. Hann segir ,,ríkisstjórnina meðvitaða um vanda heimilanna og hversu brýnt sé að bregðast við honum sem fyrst". Aðgerðarleysið fram að þessu gæti ekki verið staðfest með skýrari hætti en með þessum orðum félagsmálaráðherra sjálfs.

Vandi heimilanna í landinu verður ekki leystur nema með einhvers konar eftirgjöf á hluta skulda heimilanna. Bent hefur verið á ýmsar leiðir en svo virðist sem ríkisstjórnin slái þær allar út af borðinu, einkum með þeim rökum að lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður hafi ekki efni á þeim.

En hafa lánastofnanir sem eiga veð í öllum skuldsettum heimilum í landinu efni á því að leysa stóran hluta heimilanna til sín? Því það er það sem lánveitendur munu þurfa að gera ef skuldarar hætta að greiða af lánunum, hvort sem það verður af vangetu eða vegna sameiginlegrar ákvörðunar um "greiðsluverkfall".Hvorutveggja hlýtur á endanum til slíkra vanskila að lánastofnanir telja sig nauðuga að bregðast við.

Hvað gerist þá? Lánastofnanir eignast stóran hluta heimila í landinu. Þær eignir vilja þær væntanlega selja á ný. Og á hvaða verði verður það? Hrakvirði miðað við það alkulsástand sem hér ríkir á fasteignamarkaði.

Það er sama hvernig litið er á vanda greiðsluvanda heimilanna. Fyrirsjáanlega munu þeir aðilar, bankar, lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður, tapa stórum fjárhæðum vegna skuldsetningar heimilanna. Er þá ekki betra að finna einhvers konar niðurfærsluleið sem gerir fjölskyldum mögulegt að búa áfram á heimilum sínum og greiða af þeim skuldum sem eftir yrðu?

Í framhjáhlaupi. Af hverju eru íbúðalánin til sjóðsfélaga einu fjárfestingarnar sem lífeyrissjóðirnir mega ekki tapa á? Lífeyrissjóðirnir hafa tapað gríðarlegum fjárhæðum á alls kyns áhættufjárfestingum sem þeir stóðu í, sjóðsfélögum til ómælds skaða. Af hverju gat ríkisstjórnin gefið hluthöfum tveggja fjárfestingabanka marga milljarða á sama tíma og hún telur útilokað að gefa heimilunum í landinu svo mikið sem krónu í eftirgjöf vegna húsnæðisskulda? Af hverju eru fjölmiðlar ekki að tala um þessa hluti og setja þá í þetta samhengi?


mbl.is Margir íhuga greiðsluverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er bara því miður þannig að það á ekki að hjálpa heimilunum, nema þeim sem verða gjaldþrota, þá að að meðhöndla þær fjölskyldur sem félgasmálafyrirbæri (aumingjameðhöndlun m.ö.o.). Það er einfaldega þannig að það eru of fáir í vanda, það er mikill meirihluti fólks sem ekki vill koma heimilum til bjargar, vill fórna þessari kynslóð og láta bera allar byrgðarnar. T.d. allir sem keyptu íb.húsn fyrir tja.. 2002 eða svo, allir sem ekki hafa byrjað að kaupa sína fyrst eign. Það eru bara þeir sem eru þarna á milli sem hafa tapað öllu sínu og verða hér á landi í skuldafangelsi þar til yfir lýkur. Þannig er þetta, kalt mat.

Guðjón Atlason (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 09:12

2 Smámynd: Einar Guðjónsson

Þetta er auðvitað allt saman rétt hjá þér og rökfastur pistill.Því meir sem

ég velti vöngum yfir aðgerðarleysi ríkisvaldsins þá kemur bara eitt orð í hug:fasismi. 

Einar Guðjónsson, 2.5.2009 kl. 09:37

3 identicon

Það er ekkert að gerast í okkar málum, ekkert. Meðan þessir háu herrar (og frúr) rífast um Evrópusambandið og Evruna og taka sér einhverjar vikur í stjórnarmyndun stefna heimilin og fyrirtækin hraðbyri í gjaldþrot og atvinnulausum fjölgar um hver mánaðarmót.

Hvernig væri að þetta lið hysjaði sig upp af rassgatinu og gerði eitthvað raunhæft ¨NÚNA STRAX¨

Niðurfelling skulda eins og Framsókn gerði tillögu að er, held ég bara, nokkuð góð og sanngjörn leið, ekki bara að hjálpa þeim sem komnir eru í þrot heldur okkur líka sem berjumst í bökkum við að borga og rétt höngum á þessu ¨ennþá¨

Kv. G.Örn

Guðmundur Örn Ólafsson (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 09:39

4 Smámynd: Stefán Jóhann Arngrímsson

Það á að láta skuldara taka alla áhættu af lántökunni. Ég held að það sé nokkuð til í þessari frétt, fólk sættir sig ekki við þetta ástand til lengdar.

Það væri gaman að sjá einhverjar tölur í þessu sambandi, er ekki búið að reikna það út hversu marga þarf til þess að nýju bankarnir og íbúðalánasjóður finni verulega fyrir greiðslustoppi?

Stefán Jóhann Arngrímsson, 2.5.2009 kl. 09:46

5 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Ég sé fyrir mér að reist verði "tjaldborg" og það bara í einn dag, þann 17. júní og svo ekki sögunnar meir....

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 2.5.2009 kl. 10:20

6 identicon

Er ekki búið að gefa línuna sem ríkið verður að fara ? 

 Mogginn fékk  60 % niðurfellingu af sínum skuldum og svo setti ríkisapparatið 200 milljarða í uppgjör á sjóðum bankanna.  Það er ekki hægt að gefa einum upp og grafa annann í skuldum.  Sjallarnir fóru fallega með þjóðina.  

Rúnar (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 10:51

7 identicon

Fínn pistill Dögg, tek undir hvert orð þitt í þessu efni!

Það er með hreinum ólíkindum að lífeyrissjóðirnir sem eru að horfast í augu við gríðarlegt tap á öllum sínum fjárfestingum, skuli snúast gegn eigendum sínum (lántakendum) og ætlast til þess að fá lánin til þeirra öll greidd upp í topp í miðju efnahagshruni (þar sem allir eru að tapa gríðarlega á öllu, félagar lífeyrissjóða t.a.m. að tapa sparnaði sínum í formi hlutabréfa, fasteigna og nánast öllum öðrum fjárfestingum), samfara því að öll lán hækka gríðarlega og greiðslubyrði eykst. 

Á sama tíma er þetta fólk í mörgum tilfellum að horfa upp á tekjutap og jafnvel algert atvinnuleysi.  Grundvelli tilverunnar er kippt undan fólki úr mörgum áttum og stjórnvöld grípa alls ekki til neinna almennra raunhæfra aðgerða....  Þetta lýsir firringu stjórnmálamanna og mér er næst að halda að þeir séu ekki í tengslum við venjulegt fólk í landinu.

Annað mál sem mér finnst lítið í umræðunni og greinilegt að stjórnvöld eru alls ekki að átta sig á.  Það eru þær samfélagslegu afleiðingar sem óhjákvæmilega munu fylgja því ef skuldarar í landinu verða einir látnir axla ábyrgð á forsendubresti í kjölfar efnahagshrnsins, með fjárhagslegu sjálfstæði sínu (gjaldþroti).  Þá mun hér myndast gríðarlega stór hópur fólks, flestir á aldrinum 30-50 ára, sem mun í réttlátri reiði sinni verða and-samfélagslega sinnað.  Það mun upplifa að "kerfið" hafi með öllu brugðist sér og því eigi það "rétt á öllu" frá því sama kerfi.  Hættan er sú að fólk fari þá að gera grímulaust út á að "fá út úr kerfinu" sem allra mest, atvinnuleysisbætur, örorkubætur og allt annað sem hugsanlega er hægt að ná í.  Jafnframt vinnur þetta fólk svo svart og það myndast nýtt svart hagkerfi tugþúsunda íslendinga sem eru staðráðnir í að láta óréttlátt og vanhæft "kerfi" sem brást þeim algerlega, ekki fá neitt frá sé.  Hvað ætla vinstri flokkarnir þá að skattleggja?

Bráðaverkefni stjórnvalda er að finna sem besta leið til að útfæra og koma í framkvæmd með almennum aðgerðum hinum óhjákvæmilegu afskriftum á útlánasöfnum í landinu.  Sú heimskulega leið sem ákveðið var að fara með setningu neyðarlaganna, þ.e. að fá allar afskriftirnar inní hina nýju ríkisbanka og mynda þannig "eigið fé" og búa til nýjan flottan efnahagsreikning þeirra á kostnað lántakenda í landinu, gengur alls ekki upp.  Menn verða að horfast í augu við þá staðreynd og grípa nú þegar til aðgerða sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir klofning þjóðarinnar með þeim hætti sem ég nefndi að framan.  Menn halda hér á fjöreggi þjóðarinnar.  Ef ekkert verður að gert er veruleg hætta á að það molni einnig undan grundvallarstoðum samfélagsins, sjálfum fjölskyldunum, sem í mörgum tilfellum munu sundrast þegar óréttlætið verður látið dynja á þeim af fullum þunga.  Málið snýst um miklu meira en peninga!

Björn Þorri Viktorsson (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 11:05

8 identicon

Já Sjallarnir fóru ekki vel með þjóðina, en lengi getur vont versnað og gerist það nú. Þessi blanda af kommum og krötum er kokteill sem þjóðfélagið þurfti ekki á að halda sem afréttara.

KKK stjórnin hefur því miður ekki sýnt neinar sannfærandi aðgerðir né hugmyndir til að koma okkur á réttan kjöl. But then again, þá hefur ENGINN flokkur komið með sannfærandi tillögur. Mal og meira mal um afar fátt sem máli skiptir.

Stærstu mistök Sjálfstæðisflokksins þegar allt hrundi var að leggja ekki strax til að mynduð yrði þjóðstjórn og að allir flokkar leggðust á eitt um að koma landinu út úr þessu ástandi.

En það er líklega barnalegt af mér að halda að þessar 63 þvaghænur sem á Alþingi sitja gætu starfað saman í þjóðstjórn, því miður er Alþingi okkar Íslendinga eins og ein stór deild á Grænuborg.

bjkemur (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 11:11

9 identicon

Það verður engin skjaldborg slegin um heimilin, við þurfum að fara að átta okkur á því. Því miður er þetta ekki allur almenningur sem er í vanda vegna lána og því alls ekki samstaða sem er nægjanlega breið, þeir sem keypt íb.húsn fyrir 2002 eru ekki í neinum vanda, né þeir sem eiga eftir að kaupa (meira segja stefnt á að fella niður verðtryggingu fyrir þetta fólk framtíðarinnar en ath að það á ekki að leiðrétta neitt aftur á bak í því). Svo eru heimilin á hraðleið á brunaútsölu sem gagnast ágætlega þeim sem ekki eru með íb.skuldir frá árunum 2002-2008. Þegar búið er að bera fjölskyldurnar út á götu er meira að segja örugglega hægt að fá innbúið með í kaupauka.

Það er því alls ekki vilji til að koma til móts við íb.lánaskuldara sem eru í vanda og þess vegna er enginn (nema smáframboðin xb og xo) með þetta á stefnuskrá. Háværar raddir rísa strax upp ef minnst er á skuldaleiðréttingu og á bak við liggur: ,,Ekki ætla ég að fara að borga fyrir þetta skuldapakk sem leyfði sér að reyna að koma þaki yfir höfuðið á þenslutímum."

 Verst er að það er engin leið að losna úr þessu skuldafeni, þetta er ævilangur dómur og ekki vilji til að hjálpa fólki út úr því. Ekki einu sinni hægt að flytja úr landi því skuldafenið fylgir alltaf - Fyrir marga er þetta búið. Svo einfalt er það. En eins dauði er annars brauð, gleymum því ekki.

Svona er þetta bara og ekki annað að gera en að sætta sig við þetta. Skuldafangelsi til æviloka, sennilega húsnæðisleysi eftir einhvern tíma og svo færast skuldirnar til næstu kynslóðar. Þetta á þó bara við um þá kynslóð sem er svo óheppin að vera akkúrat núna í húsnæðislánasúpunni. En hvað er það svo sem, að fórna einni kynslóð á sláturborði mammons?

Guðjón Atlason (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 11:17

10 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Samkvæmt efnahagsyfirliti Lífeyrissjóða sem Seðlabankinn birtir var hrein eign lífeyrissjóðanna í lok febrúar s.l. 1.591 milljarðar.  Þar af voru 168 milljarðar sjóðfélagalán.

20% af 168 eru 33,6.

33,6 / 1.591 = 0,02

Ef lífeyrissjóðirnir myndu slá 20% af höfuðstól sjóðfélagalána myndu eignir sjóðanna rýrna um 34 milljarða eða 2%.

Þórður Björn Sigurðsson, 2.5.2009 kl. 12:07

11 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Tek 20% sem dæmi af því sú tala hefur verið í umræðunni. 

Ég hallast aftur á móti að tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna:

http://www.heimilin.is/varnarthing/about/tilloegur-samtakanna

Þórður Björn Sigurðsson, 2.5.2009 kl. 12:09

12 identicon

Það er löngu tímabært að auglýst sé eftir skjaldborginni. Jóhanna lét birta grein eftir sig 23. apríl þar sem hún telur upp þau atriði sem felast í svokallaðri skjaldborg ríkisstjórnarinnar. Hagsmunasamtök heimilanna (http://www.heimilin.is) og fleiri hafa bent á hversu mikið vantar upp á að aðgerðirnar verndi heimilin í raun. Úrlausnirnar eru ýmist mjög skammvinnar eða gera ráð fyrir að gera fólk eignalaust í raun ýmist fljótlega eða í fyllingu tímans (sjá jafngreiðslulán). Engar af tillögunum gera ráð fyrir að fyrirbyggja þá niðurlægingu sem fylgir því að fjárhagslegt sjálfstæði er tekið af heimilunum. Sem stendur er eina ráðið sem fólk hefur til að eiga einhvern möguleika á fjárhagslegum bata er að hætta að greiða af lánunum sem fyrst og safna fjárhagslegum kröftum í lagalegar skylmingar við fjármálastofnanir.

Ólafur Garðarsson (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 13:18

13 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Var ekki bara sleginn spilaborg um heimilinn?

Benedikt Halldórsson, 2.5.2009 kl. 19:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband