Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Það er nefnilega það ...

Þá liggur fyrir hvert framlag bankastjórnar Seðlabanka Íslands er til endurreisnar atvinnulífsins. Okurvextirnir eru að kyrkja allt hér og enginn skilur af hverju stýrivextirnir þurfa að vera svona háir. Og með ákvörðuninni er þeim viðhaldið í hæstu hæðum. Á sama tíma sýnast stýrivextir fara hratt lækkandi í öðrum vestrænum löndum og eru að nálgast núllið. Bankastjórn Seðlabankans er söm við sig. Sjálfsagt var ekki við öðru að búast frá henni þessa dagana.
mbl.is Óbreyttir stýrivextir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringur

Þessi frétt staðfestir að lífið gengur í hring, svona að mestu. Og Jóhanna Sigurðardóttir hafði rétt fyrir sér 1994 þegar hún sagði í mikilli geðshræringu að hennar tími myndi koma. Hvort hana sjálfa óraði fyrir því með hvaða hætti hennar tími myndi koma verður hún sjálf að svara.
mbl.is Nýtt verk, sömu leikarar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvætt

Verðandi ríkisstjórn má hrósa fyrir það sem hróss er vert. Standi þeir við að fækka ráðherrum eiga Samfylkingin og VG hrós skilið fyrir það. 
mbl.is Ráðherrum fækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velferðarstjórn?

Hvernig ætlar tveggja til þriggja mánaða ríkisstjórn, minnihlutastjórn og ekkert nema bráðabirgðastjórn, að vera velferðarstjórn? Og samt standa vörð um samninginn við AGS, sem gengur út á umfangsmikinn niðurskurð á ríkisútgjöldum, þ.m.t. velferðarmálum.

Það kemur á óvart hvað þetta tekur langan tíma. Á mánudag var ekki annað að heyra á Samfylkingunni en að nýja stjórn þyrfti að mynda helst í gær. Kannski að tvær grímur séu farnar að renna á VG, nú þegar þeir standa andspænis því að taka við stjórnartaumunum. Það er ekki hægt að gera mjög margt sem til vinsælda er fallið á tveimur til þremur mánuðum. Og lausafylgið, sem veðjað hefur á VG síðustu vikurnar í skoðanakönnunum, er eins og vindurinn. Ekki hönd á hann festandi. 

Vonandi standa VG við stóru orðin og sýna okkur að það sem þurfti okkur til bjargar var að fá þá að ríkisstjórnarborðinu. Ég hef hins vegar litla trú á því að þeir búi yfir nokkrum töfralausnum og óttast að það breyti engu fyrir neinn nema þá sjálfa að þingmenn VG verði ráðherrar.


mbl.is Býst við stjórn á laugardag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamót ...

Það eru auðvitað söguleg tímamót í jafnréttisbaráttunni að kona verði forsætisráðherra og leiði eigin ráðuneyti. Allir jafnréttissinnar hljóta að fagna því. En það er rétt að halda því til haga að þetta er ekki í fyrsta sinn sem kona sinnir starfi forsætisráðherra. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur margsinnis verið starfandi forsætisráðherra á liðnum misserum í fjarveru skipaðs forsætisráðherra.

Það er áhugavert að lesa lýsingar samstarfsmanna á verðandi forsætisráðherra. Gildir hér: "Vinur er sá, er til vamms segir" eða eru menn bara spældir og geta ekki unnt verðandi forsætisráðherra vegtyllunni?


mbl.is „Jóhanna vinnusöm en þröngsýn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hætt að koma á óvart

Fréttir um lánveitingar Kaupþings síðustu dagana og vikurnar fyrir hrun eru hættar að koma á óvart. Það var gott að sjá í viðtali við formann rannsóknarnefndarinnar sem birtist á mbl.is í morgun að rannsóknarnefndin ætlar að skoða þessi mál. Það var líka gott að sjá að rannsóknarnefndin ætlar að skoða ferlið í aðdraganda einkavæðingar bankanna 2002. Svo hlýtur þetta og fleiri mál af sama tagi að verða meðal þess fyrsta sem sérstakur saksóknari lætur til sín taka.
mbl.is Milljarðalán skömmu fyrir hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóru málin ...

Það eru greinilega stóru málin sem vefjast mest fyrir Samfylkingunni og VG í þessum stjórnarmyndunarviðræðum. Tímasetning kosninga er það sem þau helst greinir á um. Skiptir máli hvort kosið er vikunni fyrr eða seinna? Búið er að ákveða að kjósa í vor. Að vísu gæti fylgið byrjað að tætast af VG því lengur sem þeir sitja í starfsstjórninni. Þess vegna vilja þeir sjálfsagt að kosið verði sem fyrst. Hver var að tala um þjóðarhagsmuni og flokkshagsmuni?
mbl.is Greinir á um kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðferð Samfylkingarinnar á varaformanni sínum ...

hefur um langt skeið vakið mikla athygli. Fram hjá honum hefur verið gengið með niðurlægjandi hætti aftur og aftur. Varaformaðurinn hefur sjálfsagt skynjað að við myndun nýrrar stjórnar yrði hann enn einu sinni hundsaður. Ég skil það vel að hann skuli gefast upp á þeim tætlum sem Samfylkingin er. Honum fylgja góðar óskir í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur. Það er örugglega ágætt líf og jafnvel betra líf eftir líf í pólitík. 
mbl.is Ágúst Ólafur hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðdáunarvert framtak

Þetta framtak Bylgjunnar og þeirra sem hugmyndina áttu var tær snilld. Það er sérlega ánægjulegt að framtakið sé að vekja jafn mikla athygli og raun ber vitni í Bretlandi. Okkur veitir ekki af, eftir alla neikvæðu umræðuna um Ísland, að fjallað sé um Íslendinga með jákvæðum og góðum hætti. Svo er auðvitað sérlega skemmtilegt að leggja öldruðum Bretum lið með þessum hætti eftir framgöngu forsætisráðherra þeirra gagnvart okkur sl. haust. Hinn almenni Breti getur hins vegar ekki að því gert hvernig forsætisráðherra þeirra kaus að haga sér. Með framtakinu sýnum við hug okkar til Breta í verki. Það er hrikalegt að sjá að frá desember 2007 til mars 2008, á fjögurra mánaða tímabili, hafi um 25.000 eldri borgarar dáið úr kulda í Bretlandi. Ótrúlegt. Íslenskar ullarflíkur eiga eftir að hlýja öldruðum Bretum. Það er sérstakt fagnaðarefni.
mbl.is Gefa breskum eldri borgurum íslenska ull
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú reynir á ...

Minnihlutastjórn VG og Samfylkingar virðist um það bil að fæðast. Þetta verður bráðabirgðastjórn miðað við þróun mála í gær og skýra kröfu VG um kosningar sem fyrst. Það kemur því á óvart að heyrst hefur að í ríkisstjórninni verði 12 ráðherrar, sex frá hvorum flokki. Vonandi kemur annað í ljós því sjálfsagt er að ríkisstjórnin, sem svo mjög hefur gagnrýnt aðra, sýni aðhald og sparnað með því að byrja á því að fækka ráðherrum. Varla þurfum við 12 ráðherra, þar af a.m.k. sex nýja þá 100 daga eða þar um bil sem eru fram að kosningum.
mbl.is Boðuð á fund forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband