Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Ruslpóstur

Á hverjum degi detta inn í innboxið á tölvupóstinum hjá mér ótrúlega margir ruslpóstar. Sem betur fer er einhver sía á þessu þannig að flestir þeirra (því miður ekki allir) fara beint inn í sérstaka möppu fyrir "junk-mail". Og fjöldinn skiptir tugum á degi hverjum. 

Þetta er ákaflega hvimleiðar sendingar og það versta er að einhverra hluta vegna þá virkar ruslsían þannig að einn og einn "heiðarlegur" póstur fer í "junk-mail" möppuna. Þess vegna verð ég að hlaupa yfir "junk-mail" möppuna af og til, áður en ég eyði úr henni, til að eyða ekki óvart pósti sem ég þarf að sinna. 

Sendendur þessara ruslpósta telja karlmenn greinilega góðan markhóp því nánast flestir póstarnir geyma misjafnlega opinská skilaboð til þeirra um það hvað þeir þurfi og eigi að gera til að standa sig betur í því að gera konurnar í lífi þeirra glaðari og ánægðari. Sumt er svo hallærislegt að það hálfa væri nóg.

Ef einhver kann ráð við því hvernig maður losnar við að fá svona pósta þá eru þau ráð vel þegin.Woundering


Sumarfrí

Ég á að heita í sumarfríi - a.m.k. er það meldingin sem þeir fá sem skrifa mér tölvupóst. Staðreyndin er þó sú að þegar maður rekur sjálfstæða starfsemi þá er erfitt að vera lengi í burtu. Ég hef þetta því þannig þessa vikuna að mæta seint í vinnuna og fara snemma heim. Tek extra langar æfingar í Laugum og er svo drjúga stund á eftir í Baðstofunni. Þetta er ágætis tilbreyting frá því að mæta snemma í vinnuna, vinna lengi frameftir og mega helst aldrei vera að því að fara í Laugar og enn sjaldnar að koma við í Baðstofunni eftir æfingu. Sem sé gott frí. Cool

Farsímaskilyrði

Á ferðum mínum um landið hef ég oft furðað mig á farsímaskilyrðunum, sem alltof víða eru engin. Ég undrast að landsbyggðin skuli ekki kvarta meira yfir ástandinu. Farsíminn er mikilvægt öryggistæki en hann dugar skammt ef ekki næst samband.

Fyrir þremur árum fór ég um Vestfirði. Farsímasamband reyndist eingöngu í kringum þéttbýlisstaðina. Vinkona mín sem var að koma úr ferð á þessu svæði sagði mér að ástandið væri óbreytt. Síðustu þrjú sumur hef ég farið um Austfirði. Þar er ástandið hið sama og á Vestfjörðum, farsímasamband nánast eingöngu í kringum þéttbýlisstaðina. Það kom þó í ljós að á Kárahnjúkasvæðið er mikið og gott farsímasamband. Í göngu minni í ágúst á síðasta ári um landið sem nú er að mestu komið undir Hálslón að þar var ég mestan tímann í frábæru farsímasambandi. Sú staðreynd mun Landsvirkjun að þakka. 

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu samgönguráðuneytisins var í byrjun þessa árs skrifað undir samkomulag um að bæta farsímasambandið á hringveginum (http://samgonguraduneyti.is/frettir/nr/1110). Í fréttatilkynningunni segir m.a.:

Verkefnið nú snýst um að ljúka GSM-væðingu Hringvegarins en á honum eru nokkrir mislangir kaflar án farsímasambands, sá lengsti um 80 km á Möðrudalsöræfum. Einnig verður farsímakerfið bætt á fimm fjallvegum: Fróðárheiði, Steingrímsfjarðarheiði, Þverárfjalli, Fagradal og Fjarðarheiði. Alls verður farsímasamband bætt á um 500 km vegalengd á þessum vegum öllum. Með í útboðinu nú er einnig uppsetning á sendi í Flatey á Breiðafirði. Mun hann ná til nærri helmings vegarins um Barðaströnd þar sem farsímaþjónustu nýtur ekki við í dag. Samkvæmt tilboðinu á verkinu að ljúka á 12 mánuðum frá dagsetningu undirritunar samningsins.

Rökin fyrir því að leggja áherslu á Hringveginn í þessu fyrra útboði eru meðal annars þau að hann er ein megin samgönguæð landsins og liggur um flesta landshluta. Um hann er mikil umferð einka- og atvinnubíla árið um kring og öruggt farsímasamband á öllum Hringveginum er liður í auknu umferðaröryggi á þessari mikilvægu samgönguleið.

Rökin fyrir vali á fjallvegunum fimm eru meðal annars þau að þeir eru allir mikilvægir, eru á svæðum utan Hringvegarins og liggja allir hátt og vetrarfærð því oft erfið.

Í síðara farsímaútboðinu er ráðgert að auka farsímaþjónustu á nærri 1.300 km vegalengd á stofnvegum og á nokkrum ferðamannasvæðum. Sem dæmi um verkefni má nefna svæði á leiðinni milli suður- og norðurhluta Vestfjarða, vegarkafla í Barðastrandasýslum, leiðina milli Siglufjarðar og Sauðárkróks, svæði á Norðausturlandi og vegarkaflar á Austfjörðum.

Af þessu má ráða að í byrjun næsta árs á að vera komið farsímasamband á öllum hringveginum og á nokkrum helstu fjallvegum. Það er auðvitað frábært og löngu tímabært. Vestfirðirnir virðast þó eiga að bíða einhvers síðara farsímaútboðs, sem ég sá ekki hvenær verður. Vonandi verður sú bið ekki mjög löng.

Ég hef í fyrra bloggi furðað mig á ótrúlegri mínútuverðlagningu í farsímakerfinu. Ég myndi gjarnan vilja fá að sjá sundurliðun á þeim kostnaði. Hvað eru fjarskiptafyrirtækin að hagnast beint af hverri mínútu sem við tölum í farsímann? Á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar er m.a. að finna samanburð á verðlagningunni milli fjarskiptafyrirtækjanna (http://www.pta.is/upload/files/Fars%C3%ADmi%20j%C3%BAn%C3%AD.pdf). Hann sýnir að fyrirtækin eru ekki mörg. Er fákeppnin að valda því að verðið er svona hátt? Forstjóri þessarar stofnunar sagði við hækkunina um daginn að hann væri margbúinn að benda á að hér hækkaði þessi kostnaður á meðan hann lækkaði í nágrannalöndunum.

Við neytendur hljótum að eiga rétt á einhverjum skýringum á þessu. 


Spa-dvöl í Staffordshire

Um síðustu helgi var ég á spa-i í Staffordshire í Englandi (http://www.hoarcross.co.uk/). Góð vinkona varð fimmtug sl. mánudag og við slógumst tvær með henni í afmælisferð. Þetta var hreint frábær dvöl þar sem við létum dekra við okkur og slöppuðum vel af. Enda kemur maður endurnærður og ennþá hressari tilbaka.

Öll aðstaða Í Hoar Cross Hall er til hreinnar fyrirmyndar. Það tekur liðlega þrjá tíma í bíl frá Heathrow að komast á staðinn. Umhverfið er yndislegt, fallegir garðar og svo sveitin. Veður leyfði ekki mikla útiveru, því það rigndi nánast allan tímann. Veðrið skipti hins vegar ekki máli því dagarnir liðu undurskjótt í alls kyns dekri, heilnuddi, partanuddi, 7-unda himins nuddi, fótsnyrtingu, handsnyrtingu, andlitsbaði og svo var auðvitað hægt að eyða heilu klukkutímunum á brettinu í líkamsræktarsalnum. Einnig eru þarna sundlaugar og gufuböð til að láta sér líða vel í.

Allur matur er innifalinn, morgunmatur, hádegismatur og þríréttaður kvöldmatur af matseðli. Algert dekur í mat líka, þannig að þetta er ekki heppilegur staður til megrunarkúra.

Það er athyglisvert að flestir gestanna voru konur á öllum aldri, flestar í vinkvennahópum. Eitt og eitt par sást þó á stangli. Það er greinilegt að dvöl á spa-i er ekki mjög "macho". En ég mæli eindregið með því að skjótast í helgarferð á þennan stað. Við vinkonurnar áformum a.m.k. að fara aftur og mér heyrist af þeim sem ég hef sagt af ferðinni að fleiri muni slást í hópinn.Wink


Veðrið

Það er ekkert nema frábært hvað veðrið hefur leikið við okkur síðustu vikurnar. Maður man varla eftir annarri eins veðurblíðu. Og helgarnar eru líka frábærar. Oft er það svo að góða veðrið er í miðri viku og svo rignir um helgar þegar þeir sem ekki eru svo heppnir að vera í sumarfríi hafa loksins tækifæri til að njóta útiveru og góðs veður.

Ég hef síðustu fjórar vikur farið í tvígang til Englands. Í bæði skiptin var veðrið þar fremur dapurt, rigning og leiðindi á meðan bongóblíðan var hér. Enda virðist það svo að ef gott veður er hér þá er veðrið í Evrópu svona yfirleitt frekar leiðinlegt.

Sumarið 1974 er mér ógleymanlegt. Þá var ég au-pair í Genf í Sviss allt sumarið. Hafði auðvitað reiknað með glampandi sól og góðu veðri meðan á dvölinni stæði. Raunin varð önnur. Það sá varla til sólar það sumarið í Genf, rigndi eldi og brennisteini í orðsins fyllstu merkingu allan tímann sem ég var þar. Bréf komu reglulega að heiman (þetta var á þeim tíma sem fólk skrifaði ennþá sendibréf) og í þeim var ekki talað um annað en blíðuna hér á landi - enda skilst mér að veðrið það sumarið hafi slegið öll met. Af því missti ég og öllum hátíðarhöldunum í tilefni 1100 ára afmælisins. Síðan hef ég haft það sem nokkuð fast prinsip að fara sem minnst til útlanda frá byrjun júní til loka ágúst.


Hjartanlega sammála

Það er ánægjuleg niðurstaða Mannréttindadómstólsins sem er tilefni þessarar fréttar. Og ég gæti ekki verið því meira sammála að læknaráð er algerlega úrelt fyrirbæri. Þrátt fyrir það tókst ekki fyrir 13 árum síðan að gera löngu tímabærar breytingar á lögum um læknaráð. Þá var lagt fyrir Alþingi frumvarp til nýrra laga um læknaráð (sjá http://www.althingi.is/altext/118/s/0446.html). Þá sögu þekki ég því ég var ritari nefndarinnar sem samdi frumvarpið. Af óskýrðum ástæðum dagaði frumvarpið uppi og ekki hefur verið reynt síðan að breyta þessum löngu úreltu lögum.

Vonandi verður drifið í því sem fyrst að fella gildandi lög um læknaráð úr gildi. Kannski þarf ekkert læknaráð - hugsanlega má láta dómkvadda matsmenn duga.


mbl.is „Læknaráð algerlega úrelt fyrirbæri"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Símakostnaður

Í Mogganum í dag er sagt frá því að Síminn hafi hækkað gjaldskrá sína 1. júlí sl. Símtal milli heimasíma kostar núna 1,85 kr. mínútan og hækkaði um tæp 6%. Enn meir hækkaði mínútan úr heimasíma í gemsa eða upp í 17,70 kr., um liðlega 6%.

Fáir útgjaldaliðir heimila og fyrirtækja hafa hækkað jafnmikið á síðustu árum og símakostnaðurinn. Í umfjöllun Morgunblaðsins bendir forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar á að á sama tíma og þessi kostnaður standi í stað erlendis hækki hann sífellt hér á landi. Þetta hafi hann margbent á við lítinn fögnuð símafyrirtækjanna.

Og við bara borgum og segjum ekki orð. Væri nú ekki ráð að kalla eftir skýringum símafyrirtækjanna á þessum tífalda mun á mínútuverði? Af hverju er þessi munur svona mikill, á sama tíma og sum símafyrirtæki bjóða ókeypis símtöl úr gemsa í heimasíma ef báðir símar eru skráðir á sömu kennitölu?


Líffæragjafir

Það er athyglisverð frétt á bls. 2 í Fréttablaðinu í dag. Þar er fjallað um vaxandi þörf fyrir líffæri og áhugaleysi landans á því að gefa líffæri. 

Fyrir liðlega 15 árum voru sett lög um brottnám líffæra (nr. 16/1991). Samhliða voru sett lög um ákvörðun dauða (nr. 15/1991). Þau síðarnefndu rýmkuðu dauðaskilgreininguna til að liðka fyrir líffæragjöf. Þar var í fyrsta sinn lögfest hér á landi að telja megi á einstakling látinn þegar öll heilastarfsemi hans er hætt. Áður miðaðist dauðaskilgreiningin við stöðvun hjartsláttar og öndunar.

Ég kom að undirbúningi þessara tveggja laga. Ég man það vel að við höfðum áhyggjur af því að efnisreglur þessara tveggja lagafrumvarpa myndu valda miklum deilum, líkt og gerst hafði í flestum nágrannalöndum okkar, sem á sama tíma voru að gera sambærilegar breytingar. 

Skemmst er frá því að segja að um þessi viðkvæmu mál, dauðaskilgreininguna og brottnám líffæra, varð nánast engin umræða, hvorki á Alþingi né úti í samfélaginu. 

Ég hef haldið því fram að skýring þessa væri sú að skömmu áður hafði ungur Íslendingur gengist undir hjarta- og lungnaígræðslu. Í fjölmiðlum var mjög mikið fjallað um þennan líffæraþega, sem ella hefði átt stutt eftir, hefði hann ekki gengist undir líffæraígræðsluna. Almenningur skildi þannig algerlega samhengið á milli rýmkunar á dauðaskilgreiningunni og líffæraígræðslu og var greinilega fylgjandi því að gefa með þessum hætti þeim einstaklingum sem þurfa á líffæragjöf að halda tækifæri til að geta átt kost á líffærum og þar með lengra lífi.

Það kemur mér því á óvart, það sem fram kemur í áðurnefndri frétt í Fréttablaðinu, að fáir Íslendingar skrái sig sem mögulega líffæragjafa.

Ég fullyrði að meginástæða þess sé sú að hér vanti meiri almenna umræðu og kynningu á líffæragjöf. Það væri verðugt verkefni fyrir fjölmiðla að beita sér fyrir henni. 

Síðan er athyglisverð ábendingin um að breyta þurfi lögunum um brottnám líffæra þannig að ganga megi út frá ætluðu samþykki þegar líffæragjöf er annars vegar, þ.e. að einstaklingur vilji gefa líffæri, séu þau á annað borð tæk til líffæraígræðslu. Hafi einstaklingur sterka skoðun gegn líffæraígræðslu verði hann að láta þann vilja skýrt í ljós. Eins og löggjöfin er úr garði gerð núna er gengið út frá ætlaðri neitun, þ.e. að einstaklingur sé á móti því að líffæri úr honum sé notuð til líffæragjafar. Þessu þarf greinilega að breyta.


Ráðherravalið

Það er greinilega að ýmsu spurt í þjóðarpúlsi Gallup þessa dagana. Ég átti nú ekki sérstaklega von á því að kjósendur annarra flokka en stjórnarflokkanna væru mjög ánægðir með ráðherravalið. Þeir hefðu auðvitað viljað allt aðra ríkisstjórn og þar með allt annað fólk sem ráðherra.

Það sem skiptir máli í þessum tölum er að 80% kjósenda Samfylkingar og 71% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru ánægðir með ráðherravalið.

Það hefði hins vegar verið áhugavert að sjá hvernig kjósendur stjórnarflokkanna skiptast eftir kyni í afstöðu sinni til ráðherravalsins.


mbl.is Innan við helmingur landsmanna sáttur við ráðherraval
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mr. Skallagrímsson

Ég fékk miða á Mr. Skallagrímsson í dag og brá mér upp í Borgarnes. Hreint frábær sýning og svo sannarlega ferðarinnar virði. Ég hvet alla, sem ekki hafa þegar séð Mr. Skallagrímsson að drífa sig. Það er hins vegar ekki verra að rifja aðeins upp Eglu áður. Wink 

Það er greinilega engin tilviljun að þessi sýning og aðstandendur hennar fengu tvær Grímur um daginn.

Ég var svo á leið í bæinn milli kl. 19 og 20. Sannarlega þung umferðin frá Kjalarnesi og niður í Mosfellsbæ þar sem vegurinn verður tvíbreiður í báðar áttir. Allt gekk þó vel og ökumenn voru sem betur fer rólegir í töfinni. Samkvæmt fréttum var svipað ástandið á Suðurlandsvegi í átt til Reykjavíkur.  

Það hlýtur að vera forgangsmál í samgönguframkvæmdum að gera bæði Suðurlandsveg að Selfossi og Vesturlandsveg a.m.k. að Akranesi, tvíbreiðan í báðar áttir. 


« Fyrri síða

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband