Leita í fréttum mbl.is

Stjórnarskrárbrot?

Í 8. gr. læknalaga nr. 53/1988 er svohljóðandi ákvæði:

Lækni er heimilt að skorast undan störfum sem stangast á við trúarleg eða siðferðisleg viðhorf hans séu störfin ekki framkvæmd í lækningaskyni.

Í skýringum með ákvæðinu segir (frumvarpið í heild er hér):

Mikilvægt er að velta fyrir sér spurningunni um það, hvort og í hvaða tilvikum lækni sé heimilt að skorast undan að framkvæma aðgerð. Fara ber hér mjög varlega í skýringar. Almennt er viðurkennt, þótt ekki styðjist það við ótvíræðan lagabókstaf, að læknar geti aldrei skorast undan að framkvæma aðgerð sé um að ræða aðgerð í lækningaskyni. Það er hins vegar viðurkennt að læknar geti skorast undan að framkvæma aðgerð af trúarlegum eða siðferðislegum ástæðum, sé markmið aðgerðarinnar ekki lækning í þröngri skýringu þess orðs, t.d. ófrjósemisaðgerð eða fóstureyðing af félagslegum ástæðum.

Ég minnist þess ekki að hafa séð því haldið fram að þetta ákvæði læknalaga væri brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þvert á móti staðfestir það að skoðanir lækna á ófrjósemisaðgerðum og fóstureyðingum séu mismunandi. Það staðfestir að ekki sé með lögum hægt að neyða lækni til að framkvæma aðgerð sem er andstæð truarlegum eða siðferðislegum skoðunum þeirra.

Með samþykkt kirkjuþings í gær náðist ótrúlega stór áfangi í réttindabaráttu samkynhneigðra. Með samþykkt kirkjuþings er íslenska þjóðkirkjan fyrsta lútherska þjóðkirkjan sem samþykkir formlega að prestar hennar geti sem vígslumenn formlega staðfest samvist og blessað, geri Alþingi nauðsynlegar lagabreytingar til þess. Um samþykktina má sjá nánar hér. Ég hef enga trú á öðru en að Alþingi vindi sér í það núna hið bráðasta að breyta lögum um staðfesta samvist þannig að borgaraleg vígsla og kirkjuleg verði jafngild, með sama hætti og borgaraleg vígsla og kirkjuleg er jafngild gagnvart hjónabandinu.

Ég lýsi furðu minni yfir fréttinni í 24 stundir og spyr jafnframt: Vilja samkynhneigð pör láta prest, sem þau vita að líta samkynhneigð hornauga, vígja sig? Verður þetta eitthvað vandamál? Af hverju eru þessu læti?


mbl.is Stóri sannleikur eða stjórnarskrárbrot?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Síðan hvenær gilda læknalög um presta?

Matthías Ásgeirsson, 27.10.2007 kl. 12:04

2 Smámynd: Dögg Pálsdóttir

Þetta er útúrsnúningur Matthías. Ég er að benda á að það sé ekki einsdæmi að menn fái að ráða hvaða störf þeir vinna. Prestar jafnt og læknar.

Dögg Pálsdóttir, 27.10.2007 kl. 12:17

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Er þetta sambærilegt? Læknar mega ekki neita lækningum aðeins því sem ekki eru "eiginleg" læknisverk. Eftir sama skilningi ættu prestar ekki að geta neitað því sem sem eru eiginleg prestverk en það eru giftingar held ég. Hvað yrði sagt ef prestar neituðu að jarðsetja einhvern á grundvelli trúarinnar, hinn framleiðni hefði verið svo syndugur? Mér finnst þetta ekki sambærilegt. En ég tek undir það hvaða læti þetta séu. Þetta er smámál.

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.10.2007 kl. 12:21

4 identicon

Tja Sigurður minn, hvaða skoðun sem þjóðkirkjan hefur á því að gefa saman, gifta eða staðfesta sambúð samkynhneigða, þá getur það seint talist "eiginlegt" prestverk að stunda slíkt þar sem trúarrit kristinna manna, Biblían tjáir okkur að guð hafi megna andúð á kynvillu.

Brainstorm (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 13:22

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Dökk tek heilshugar undir orð þin til þessa/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 27.10.2007 kl. 13:44

6 Smámynd: Promotor Fidei

Þetta er mjög áhugaverð ábending hjá þér Dögg. Það er þó kannski rétt að athuga sérstakt eðli læknisstarfsins, sem oft á tíðum varðar líf og dauða á meðan prestar eru frekar að veita félagslega þjónustu.

Þá kynnu sumir að segja að í augum trúaðra er hin andlega velferð ekki síður mikilvægari en líf og dauði þeirra í veraldlegum skilningi -og er slíkt sjónarmið skiljanlegt. Ef hins vegar löggjafinn tæki sig til og setti framhaldslífið á jafnháan stall og hið raunverulega líf værum við komin út á hálan ís, enda væri löggjöfin þar með orðin trúarleg, alltént búin að viðurkenna boðun tiltekinna trúarbragða sem óskeikulan veruleika.-en það þykir yfirleitt ekki framfaraskref að trúarbrögðum sé fléttað inn í veraldleg lög.

Þá komum við auðvitað að punktinum um aðskilnað ríkis og kirkju. Nú mætti mín vegna hver og einn trúa því sem hann vill, og bera þá sjálfur kostnaðinn af því sem trúariðkanir hans kosta, og í nafni trúar sinnar haga trúarlífi sínu eins og honum best sýnist -þar með talið meina minnihlutahópum um þjónustu innan trúarkerfisins eða inngöngu í sitt trúarsamfélag. (Þegar, hins vegar, væri komið út á hinn veraldlega vettvang, væri honum ekki stætt á að mismuna fólki á trúarlegum grundvelli -enda gilda veraldleg lög á þeim vettvangi, ekki trúarleg)

En þegar trúfélag fær greiðslur frá ríkinu, og þær himinháar, -greiðslur sem allir skattborgarar, jafnt samkynhneigðir og gagnkynhneigðir taka þátt í- og hvað þá ef þetta trúfélag er aukinheldur með sérstakan status sem ríkistrú, þá er þeim að mínu mati ekki með neinu móti stætt á að brjóta ákvæði laga um jafnrétti og mannréttindi.

Promotor Fidei, 27.10.2007 kl. 15:39

7 Smámynd: Promotor Fidei

Svo má ég til með að bæta því við að það er í raun móðgandi og særandi fyrir samkynhneigða að þeirra sambönd skuli vera aðgreind frá samböndum gagnkynhneigðra, þó ekki sé nema með því að kalla eitt hjónaband og annað staðfesta samvist og með því að hafa ólík eyðublöð fyrir sína hvora vígsluna á skrifstofu sýslumanns.

(Ímyndum okkur til dæmis ef að svartir myndu þurfa að fylla út annað eyðublað en hvítir, til að láta gefa sig saman hjá sýslumanni, og væru vígðir saman í "svarta-samvist" en ekki hjónaband)

Mér þykir það undarlegt að ekkert homma- eða lesbíuparið skyldi fara fyrir dómstóla á sínum tíma, áður en lagaleg réttindi hjónabands og staðfestar samvistar voru jöfnuð. -Enda var þá þegar hægt að nota jafnréttis- og mannréttindaákvæði í lögum, þmt. stjórnarskrá, til að knýja á um algjöra jöfnun, gegnum dómstóla.

Mikið væri gaman að sjá eitthvert samkynhneigt parið fara til sýslumanns og fylla út "hjónabandsblaðið", og krefjast þess að vera gefin saman í hjónaband. Sýslumaður myndi auðvitað þurfa að fylgja bókstaf laganna, og neita vígslunni, en dómstólar hlytu að þurfa að úrskurða að það sé í raun mannréttindabrot að leyfa samkynhneigðum ekki að ganga í "hjónaband".

Promotor Fidei, 27.10.2007 kl. 15:53

8 identicon

Þetta er ekki á nokkurn hátt sambærilegt.  Varðandi fóstureyðingar er spurningin ansi stór, þ.e. hvenær verður fóstur að einstaklingi, einstaklingi með sjálfseignarrétt.  Það er mjög erfitt að skilgreina og því er það eftirlátið læknum að gera upp við sig hvort þeir séu tilbúnir að framkvæma slíkar aðgerðir eða ekki.  Það væri heldur óhugnalegt að þvinga lækni til að framkvæma fóstureyðingu ef sá hinn sami liti á athæfið sem eins konar "morð". 

Ottó Michelsen (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 17:24

9 Smámynd: Promotor Fidei

Ég bara verð að bæta einu við til viðbótar: Biblían fordæmir ekki síður harkalaega skilnaði, og að fólk gifti sig á ný ef makinn fellur frá.

Það yrði aldeilis uppi fótur og fit ef prestur við þjóðkirkjuna tæki sig til og neitaði, vegna róttækra trúar- og siðaskoðanna sinna, að vígja í hjónaband einstakling sem væri áður fráskilinn. Það þætti einnig allsvakalegt ef ríkisvaldið ákvæði að breyta veraldlegum lögum um hjónavígslur, til að samræmast ströngustu biblíutúlkunum um skilnaði og endurgiftingar.

Samkynhneigðar-deilan er alveg sambærileg.

Kirkjan hefur í gegnum söguna verið fjarri því ósveigjanleg í afstöðu sinni til siðferðismála, og breytir kirkjan um túlkun á boðskap bilbíunnar eftir hentingu hverju sinni. Fordómar sumra kirkjunnar manna í garð samkynhneigðra eru frá þeim sjálfum sprottnir, en ekki úr biblíunni -biblíuna nota þeir hins vegar eftir hentisemi til að reyna að réttlæta eigin svart-hvítu sýn á heiminn.

Kristin trú hefur enst svo lengi á vesturlöndum ekki síst fyrir vissan sveigjanleika, til að samræmast siðabreytingum milli alda og tileinka sér framfarir í skilningi okkar á mannréttindum. Það ætti því kannski að vera meira en lítið áhyggjuefni fyrir þjóðkirkjuna, þegar prestar þessa lands eru orðnir svo svakalega úr sambandi við raunveruleikann, að þriðji hver prestur (skv. nýlegri könnunn) vill ekki gefa saman samkynhneigð pör.

Promotor Fidei, 27.10.2007 kl. 17:51

10 identicon

Klárlega rétt hjá þér Promotor Fidei, þetta er sjálfsagt bara spurningin um það hversu langt kirkjunnar menn ætla að ganga í því að sniðganga sinn eigin boðskap, þ.e.a.s. boðskap Biblíunar.

Þetta er erfitt mál, því öðrumegin borðsins ertu að mismuna fólki, en hinumegin ertu hræsnari... Hvað er til ráða?

Brainstorm (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 19:17

11 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl

Ég er læknir og veit að ég þarf ekki að framkvæma fóstureyðingu telji ég það siðferðislega rangt eða gefa meðferð sem ég tel ekki læknisfræðilega rétta.  Þetta er mikilvægt en á hinn bóginn yrði ég vart ráðinn til starfa ef skoðanir mínar á því hvað ég vildi ekki gera væru illa grundaðar eða byggðar á óskynsamlegri trúarkreddu. 

Það má segja vígsla til hjónabands sé ekki nauðsynleg heilli fólks eða heilsu og því hafi það ekki alvarlegar afleiðingar þó einhver prestur vilji ekki framkvæma vígsluna.  Hafi viðkomandi ekki aðrar ástæður en löngu úreltan bókstaf eða fordóma gagnvart gagnkynhneigðum mun viðkomandi þurfa að taka afleiðingunum.  Þetta mál allt undirstrikar það að Þjóðkirkja er alger tímaskekkja og hún gengur ekki upp siðferðislega gagnvart þeim markmiðum sem ætti að setja með sameiginlegum sjóðum allra landsmanna.  Trúarsöfnuðir eiga að vera í einkaeigu og þar geta þeir ráðið sínum málum sjálfir.   Veraldlegt siðferði samþykkir þessa svíviriðingu sem samkynhneigðir hafa þurft að þola af hálfu Þjóðkirkjunnar.  Þjóðin á ekki að þurfa að dragnast með kirkju sem er á eftir í siðferði og veldur vandamálum og misklíð.

Svanur Sigurbjörnsson, 27.10.2007 kl. 19:40

12 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl aftur

Setning hér að ofan sem byrjar á "Veraldlegt ..." á að vera "Veraldlegt siðferði samþykkir EKKI þessa svívirðingu..."

Afsakið - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 27.10.2007 kl. 22:33

13 identicon

Ég er sammála þér Svanur. Þjóðkirkjan er tímaskekkja. Trúarsöfnuðir eiga auðvitað að vera á eigin vegum þannig að ef þeir standa ekki undir sér vegna þess að þeir geta ekki fylgt viðmiðum okkar lengur þurfum við ekki að burðast með þau.

Væri ekki betra að eyða peningunum í eitthvað sem hjálpar okkur sem þjóðfélagi en ekki heldur okkur í myrkri fordóma og fáfræði og endalausar útskúfunar á fólki sem vill bara vera það sjálft.

Hvað fóstureyðingar varðar þá er það í mínum huga val þeirrar manneskju sem við kemur. Ég styð rétt konunar til að ráða sínum líkama sjálf og guð þarf ekkert að koma þar neitt nálægt.

Enda hugsa ég að hún hafa margt betra við tíman sinn að gera heldur en að vera dómari í einhverju sem er nokkuð afdráttarlaust.

Takk fyrir mig

Gissur Örn (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 23:24

14 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Nýlegur dómur Hæstaréttar Íslands í máli Ásatrúarfélagsins er röstuddur með lögbundnum skyldum þjóðkirkjupresta. Með öðrum orðum eru þjóðkirkjuprestar ekki bara óbreyttir opinberir upsýslunarmenn heldur opinberir starfsmenn með öllum þeim skyldum sem því fylgir.  Ég er sammála þér Dögg um að það á ekki að þvínga presta til að vinna þessi verk. Hitt er annað mál að þjóðkirkjan sem stofnun getur ekki vikist undan að veita lögbundna þjónustu. Opinberar stofnanir hafa ekki trúarlegar eða móralskar ástæður til að gegna  skyldustörfum enda eru þau lögbundin. Þetta verður aldrei vandamál í þéttbýlinu en hvað ef slík staða kæmi upp í strjálbýli. Yrði  ríkiskirkjan þá ekki að senda afleysingaprest eða endurgreiða ferðakostnað ef þess yrði krafist?

Sigurður Þórðarson, 28.10.2007 kl. 01:33

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Pistill Daggar er jafn-gagnlegur og hann er lögfræðilega séð skarpur í greiningunni. En þegar sólarhringur er liðinn frá samþykkt Kirkjuþings að heimila þeim prestum, sem það kjósa, að staðfesta þessa umtöluðu samvist, ásamt með skýru ákvæði um, að frelsi presta í þessu efni skuli virt, þá birti sérann Baldur Kristjánsson grein sem í raun réðst á samvizkufrelsi allmargra kollega hans og þá ýmist á starfsöryggi þeirra eða miðar að því að beygja þá í duftið fyrir utanaðkomandi kröfum veraldarhyggjuafla. (Ég hef svarað honum HÉR: 26.10. kl. 20:46.) Sjá það ekki allir, að ríkisvaldið getur með lagasetningu boðið þessum smáhópi upp á jafnvel borgaralegt hjónaband hjá sýslumanni? Þarf að þvinga kristna kirkju til þess, sem hún má í raun aldrei gera? (í framhjáhlaupi: Fréttablaðsbankþanki Davíðs Þórs í dag, sunnudag, er út úr kú fræðilega séð, en alveg í rétta fjósinu félagspólitískt séð). Þjóðkirkjan átti auðvitað aldrei að samþykkja eitt né neitt í þessa átt, og það er rétt hjá Dögg, að furðu má það sæta, hvernig 24 stundir tóku á málinu með þrælhlutdrægum hætti og með annarlegri yfirskrift "fréttar" sinnar, en ritstjórinn Ólafur Stephensen er nú reyndar æðilangt frá því að vera hlutlaus í málinu. En Dögg metur það líka rétt, að þetta hafi verið "ótrúlega stór áfangi" og: "Með samþykkt kirkjuþings er íslenska þjóðkirkjan fyrsta lútherska þjóðkirkjan sem samþykkir formlega að prestar hennar geti sem vígslumenn formlega staðfest samvist og blessað, geri Alþingi nauðsynlegar lagabreytingar til þess." En trúlausum og dauftrúuðum þykir það tilefni til að ráðast á Þjóðkirkjuna fyrir "afturhaldssemi" og vilja afnema samvizkufrelsi prestanna!

Jón Valur Jensson, 28.10.2007 kl. 04:48

16 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Vanandi er þorri manna svo réttsýnn að hafna því að einstakir prestar þjóðkirkjunnar hvað þá víxlumenn frjálsra trúfélaga þvingaðir til að geta eitthvað sem brýtur gegn trú þeirra. Önnur afstaða væri óbilgjörn og vonandi ólögmæt, þetta vil ég árétta, sem ókristinn, vegna orða Jóns Vals hér að ofan.

Hitt er svo allt annað mál að maður veltir því fyrir sér illgirnislaust hvaða skyldur lögin sem ekki er búið að samþykkja kunna að leggja á ríkisstofnun.  Annars vil ég þakka fyrir góðan pistil Daggar, sem mig langar að spyrja álits á hugleiðingum mínum.

Sigurður Þórðarson, 28.10.2007 kl. 11:00

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þjóðkirkjan er ekki ríkisstofnun, heldur sjálfstætt trúfélag. Ríkið hefur sjálft undirgengizt þá skyldu sína að virða frelsi Þjóðkirkjunnar í sínum innri málum með lögum frá 1997 (nr. 78, 26. maí), en þar segir svo í 1.–2. grein (feitletr. mínar, JVJ):

"Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni. Ríkisvaldinu ber að styðja og vernda þjóðkirkjuna. Skírn í nafni heilagrar þrenningar og skráning í þjóðskrá veitir aðild að þjóðkirkjunni. [2. gr.:] Þjóðkirkjan nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka.

Og í 20. gr. segir svo:

Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka. Málefni, er varða kenningu kirkjunnar og agavald, heyra þó undir biskup Íslands, sbr. 10., 11., 19. og 28. gr. Samþykktir um kenningarleg málefni, guðsþjónustuhald, helgisiði, skírn, fermingu og altarissakramenti verða að sæta umfjöllun prestastefnu áður en þær hljóta endanlega afgreiðslu á kirkjuþingi."

Af þessu er ljóst, að jafnvel í landslögum er Þjóðkirkjunni áskilið sjálfræði um sín innri mál, sérstaklega kenningar- og agamál og helgisiði. Ætti það að sýna valdhöfum hvers tíma, að þeir hafa ekki íhlutunarrétt um þau innri mál – ekki fremur en þeir hafa það gagnvart öðrum kirkjum eða trúfélögum.

Svo tek ég undir með Sigurði, að gott væri að sjá álit Daggar á ýmsu sem hér hefur komið fram í umræðunni. - Með kveðju,

Jón Valur Jensson, 28.10.2007 kl. 14:02

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svo að ég tali nú réttari íslenzku, átti hér að standa: í hennar innri málum ... (eða innri málum hennar).

Jón Valur Jensson, 28.10.2007 kl. 14:04

19 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll Jón, við erum algörlega sammála um að það eigi alls ekki að beita neina þrýstingi til að vinna verk sem gengur gegn trúarsannfæringu.  Okkur greinir aftur á móti á um lagatúlkun, sem ekki er skrýtið, þar sem við erum báðir ólögfróðir en eigum þó það sameiginlegt að treysta á leiðsögn Daggar. Þangað til hef ég efasemdir um túlkun þína sbr. nýlegan dóm Hæstaréttar Íslands Nr. 109/2007

en þar segir í dómsorði meirihlutans:

"Starfsmenn þjóðkirkjunnar eru opinberir starfsmenn með réttindi og skyldur sem slíkir gagnvart öllum almenningi, en ekki aðeins þeim sem eru í söfnuðum hennar. Ekkert er í lögum um slíkar skyldur starfsmanna annarra trúfélaga"

Sigurður Þórðarson, 28.10.2007 kl. 15:15

20 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Eins og þegar hefur komið fram (held ég) er eðlismunur á því að veita ekki tiltekna þjónustu yfir höfuð (fóstureyðingar) og því að fara í manngreinaálit úfrá trúarskoðunum viðskiptarvinar (ekki geranda).

Prestur sem giftir gagnkynhneigð par en ekki samkynhneigt væri þá eins og læknir sem meðhöndlar hvítt fólk en ekki svart.

Matthías Ásgeirsson, 29.10.2007 kl. 11:55

21 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þarna skýtur þú yfir strikið Matthías.

Sigurður Þórðarson, 29.10.2007 kl. 14:33

22 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Fóstureyðingar og gifting samkynhneigðra er umdeild í kristni en það er gifting mismunandi kynþátta ekki.

Sigurður Þórðarson, 29.10.2007 kl. 14:37

23 Smámynd: Birnuson

Sigurður, þarna hittir þú að vissu leyti naglann á höfuðið. Viðhorfið, sem nú er að vinna sér fylgi, er þetta: Gifting samkynhneigðra á ekki að vera umdeild í kristni, því að það er mannréttindabrot. Kirkjan á að beygja sig undir vilja þjóðfélagsins (það gerir hún alltaf á endanum).

Birnuson, 29.10.2007 kl. 16:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 389902

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband