Leita í fréttum mbl.is

Sameiginleg forsjá og lögheimili barna

Sameiginleg forsjá er meginregla eftir breytingu á barnalögum í fyrra. Í sameiginlegri forsjá felst að báðir foreldrar eiga að koma að öllum meiri háttar ákvörðunum er varða barn. Einhverra hluta vegna hafa barnalögin þó verið túlkuð þannig að þrátt fyrir sameiginlega forsjá geti það foreldri sem barnið á lögheimili hjá, breytt lögheimilinu, án samþykkis hins, meðan lögheimilið er flutt innanlands. Skýrt er á hinn bóginn tekið fram í barnalögum að samþykki beggja foreldra þurfi fyrir flutningi lögheimilis barns frá Íslandi til útlanda. 

Ég hef áður bloggað um það að mér finnst óeðlilegt að túlka 4. mgr. 29. gr. barnalaga með þeim hætti sem gert er, þ.e. að lögheimilisforeldrið, geti einhliða breytt lögheimilinu, án samráðs við hitt foreldrið (http://doggpals.blog.is/blog/doggpals/entry/199190/). Enda segir í áðurnefndu ákvæði:

Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. ...

Vegna þessarar túlkunar tel ég að ákvæðinu þurfi að breyta til að tryggja að lögheimili barns, sem lýtur sameiginlegri forsjá, verði ekki breytt nema með samþykki beggja. Flutningur lögheimilis innanlands getur oft haft mun erfiðari og afdrifaríkari afleiðingar t.d. gagnvart umgengni foreldris og barns en flutningur til útlanda, sem lögin skýrt taka fram að báðir foreldrar verða að samþykkja þegar forsjáin er sameiginleg.

En það þarf að skoða meira í þessu sambandi. Í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins var fjallað um málefni föður sem er með sameiginlega forsjá yfir barni, sem slasaðist alvarlega. Þar sem lögheimili barnsins er ekki hjá föðurnum þá nýtur faðirinn engra réttinda varðandi umönnunarbætur eða hjálpartæki, sem væntanlega þurfa að vera til staðar hjá báðum foreldrum. Sama staða væri uppi hjá móðurinni ef lögheimili barnsins væri hjá föðurnum.

Ég tel að hægt eigi að vera að skrá lögheimili barns, sem lýtur sameiginlegri forsjá, hjá báðum foreldrum og að foreldrar eigi að geta samið um það að skipta milli sín opinberum stuðningi, s.s. barnabótum og umönnunarbótum, þegar þeim er til að dreifa. 

Ég tel líka að burtséð frá forsjánni þá eigi báðir foreldrar barna að njóta viðurkenningar sem einstæðir foreldrar, enda hafa báðir foreldrar lögum samkvæmt skýrar framfærsluskyldur. Eins og staðan er núna þá telst meðlag ekki tekjur hjá því foreldri sem fær meðlagið en foreldrið sem greiðir meðlagið nýtur engra skattaívilnana. Báðir foreldrarnir eru þó framfærendur barnsins, sbr. 1. málslið 1. mgr. 53. gr. barnalaga, þar sem segir:

 Skylt er foreldrum, báðum saman og hvoru um sig, að framfæra barn sitt. ...

Það hefur á liðnum misserum mikið breyst í málefnum barna og foreldra, sem ekki búa lengur saman. Við þurfum að láta regluverkið, sem gildir um þessi mál, endurspegla betur allar þær breytingar. Það er þörf á gagngerri endurskoðun í þessum efnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Gíslason

Þetta eru góðir punktar Dögg og mikilvægt að þessi umræða sé lifandi.

Foreldri sem ekki hefur  lögheimili barns er vart til sem foreldri í kerfinu.   Það nýtur ekki barnabóta, vaxtabóta, húsaleigubóta, mæðra/feðralauna sem foreldri, heldur sem barnlaus einstaklingur, sé viðkomandi ekki kominn í sambúð aftur. Þetta er ekki sanngjarnt því báðir hafa sömu framfærsluskyldu og ættu að njóta sömu réttinda hjá hinu opinbera, m.t.t. ofangreindra þátta.

Gísli Gíslason, 19.8.2007 kl. 23:38

2 identicon

Margir góðir punktar. Sjálf hef ég haft sameiginlegt forræði með mínum barnsföður í 8 ár og trúi að í framtíðinni muni allir foreldrar koma sér saman um sameiginlegt uppeldi þrátt fyrir skilnað.

Ég held að hér mætti samt draga fram mikilvægasta þáttinn í þessari umræðu yfirhöfuð þegar foreldrar koma sér saman um sameiginlegt forræði og það er það að barnið njóti samvista við báða foreldra jafnt. Foreldrar þurfa að hafa bæði vit og þroska til skilja hvað "sameiginlegt" þýðir. Hér snýst málið ekki um meðlög og barnabætur heldur um barnssálina sem við foreldrar eigum að standa vörð um.

Kv. Sigga

Sigríður Aðalsteinsdóttir (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 00:37

3 Smámynd: Gísli Gíslason

Ég er alveg sammála að þetta snýst  fyrst og fremst um barnssálina.  Rannsóknir sýna að börn sem alast upp hjá báðum foreldrum eftir skilnað spjara sig betur.  Það er mikilvæg  staðreynd að báðir foreldrar, foreldrajafnrétti,  eru bestu hagsmunir barns.  Þegar foreldrar bera jafnar skyldur gagnvart barni þá er óaðskiljanlegur hluti af umræðunni að báðir foreldrar njóti einnig sama réttar gagnvart hinu opinbera. Þar með er umræða um vaxtabætur, húsaleigurbætur, barnabætur, mæðra/feðralaun, og meðlög mikilvægur hluti af þessari umræðu.

Gísli Gíslason, 20.8.2007 kl. 08:43

4 Smámynd: Gísli Gíslason

Umræða erlendis um þessi mál kristallist vel í þessu viðtali hér, en hér er fjallað um á bresku sjónvarpsstöðinni GMTV  það vandamál að barn á bara eitt lögheimili, einnig þegar börn búa nokkuð jafnt hjá báðum foreldrum.  Þetta viðtal má yfirfæra á ísl aðstæður.

Gísli Gíslason, 20.8.2007 kl. 08:53

5 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Áhugaverð og þörf umræða, get tekið undir margt af því sem komið hefur fram. Hinsvegar held ég  að umræðan  þurfi að eiga sér stað út frá fleiri sjónarhornum t.a.m.  stöðu stjúpfjölskyldunnar.  Hluti stjúpforeldra er t.a.m. skikkaðir til að hafa forsjá og sviptir henni án þess að hafa nokkuð um það að segja. Mætti ef til vill ræða breytingar á þessum þætti einnig og skoða málið í heildarsamhengi.

Ég er reyndar ekki viss um hvort að það sé rétt ákvörðun að það eigi að þurfi að leita samþykkis fyrrverandi maka til að mega breyta lögheimili sínu - hætta er á að sumum verði haldið í "gíslingu" sérstaklega í þeim tilvikum sem tilfinningalegum skilnaði er ólokið. En auðvitað má ræða þennan möguleika.

Langar mig jafnframt að benda á að það er mín skoðun að hugtök eins og "einstætt" foreldri takmarkar hugsun okkar og gerir "lítið" úr hlutverki "hins" foreldrisins. Held ég að við ættum nota frekar orð eins og "einhleypir" foreldrar og leggja áherslu á foreldrasamvinnu en ekki einstæðingsskap í foreldrahlutverkinu.  Það er jú það sem börnin hagnast mest þ.e. á góðum samskiptum foreldra sem hafa hagsmuni barna sinna að leiðarljósi.

Öflug fræðsla um foreldrasamvinnu ætti ekki að vera síður mikilvægur liður í skilnaðarsamningi eins og að ljúka  skiptingu eigna og skulda. Nú og mögulega í framtíðinni með hvaða hætti ætti að skipta barnabótum o.s.fv.

Valgerður Halldórsdóttir, 21.8.2007 kl. 22:01

6 Smámynd: Ingimar Eydal

Frábær grein hjá þér og orð í tíma töluð.

Ég þekki þetta af eigin reynslu, hef gengið í gegnum skilnað og taldi að ég byggi í nútímasamfélagi þar sem litið væri á sameiginlega forsjá, sameiginlega umgengni og sameiginlegar skyldur sem sjálfsagðan hlut.  Ó nei...

Hið opinbera, fulltrúar sýslumanns, sálfræðingar og aðrir sem tengdust málinu gengu allir út frá því að börnin "tilheyrðu" móðurinni, og eina skylda föðurs væri að borga meðlag.  Þrátt fyrir samning um sameiginlega forsjá og jafna umgengni.  Lögheimili hjá móður "það væri alltaf þannig", meðlag fer því sjálfkrafa þangað og krafa móður um viðbótarmeðlag samþykkt sjálfkrafa af fulltrúa sýslumanns, "þá losnar þú við að borga allt annað og þið komið ykkur saman um þetta". Ég trúði varla orðum löglærðra fulltrúa sýslumanns, þeir skera úr um málin og benda kurteisilega á að það borgi sig ekki að gera mál úr hlutunum....

Stór hluti af sameiginlegum skyldum er að að báðir foreldrar taki þátt í að fæða og klæða börn sín, enda búa þau yfirleitt á tveim stöðum, en það er ekki hægt samkv. lögum, eitt lögheimili og aðeins þar fer fram framfærsla barns!

Áfram Dögg og kærar þakkir fyrir þessa grein.

Ingimar Eydal, 22.8.2007 kl. 16:55

7 Smámynd: Baldvin Z

Blessuð Dögg

Ég hefði viljað sjá þig sem þingmann eftir að hafa lesið þessa færslu hjá þér.  Þetta eru skoðanir að mínu skapi. Við sem þjóðfélag þurfum að sjá að það að er ekki lengur undantekning að börn séu alin upp í tveim fjölskyldum.  Málið er að flestir foreldar, af báðum kynjum, vilja taka þátt í að ala sín börn upp og ríkið þarf að viðurkenna þá staðreynd.

Baldvin Z, 24.8.2007 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 391617

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband