Leita í fréttum mbl.is

Dóp er dauði

Ég hygg að minningargrein föður Susie Rutar í miðopnu Morgunblaðsins í gær hafi hreyft við mörgum. Fjölmargt sem þar kemur fram er alvarlegt umhugsunarefni og sumt kallar jafnvel á skýringar. Hvernig má það t.d. vera að eiturlyfjasalar geti í friði og ró stundað starfsemi sína á Landspítalanum? Við hljótum að eiga rétt á skýringum yfirstjórnar sjúkrahússins á því.    

Fyrir nokkrum árum var hert á refsingum vegna smygls á fíkniefnum. Í kjölfarið gerðist það að burðardýr með 67 þús. fíkniefnatöflur var dæmt í 12 ára fangelsi, eða hámarksrefsingu. Þá risu margir upp og mótmæltu. Töluðu um ,,saklaus" burðardýr. Á þeim tíma var ég í forsvari fyrir forvarnarverkefninu Ísland án eiturlyfja. Mér ofbauð umræðan og skrifaði stutta grein í Morgunblaðið  þar sem ég sagði m.a. (sjá http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=649538):

Fíkniefnabrot beinast að 13-16 ára unglingum. Rannsóknir sýna að því yngri sem unglingar eru þegar þeir byrja að fikta við vímuefni þeim mun meiri líkur eru á að þeir ánetjist þeim. Þá staðreynd notfæra fíkniefnasalar sér. Þeir sitja fyrir unglingum þar sem þeir koma saman, beita þá fortölum og fullvissa þá um að fíkniefni séu skaðlaus. Þeir notfæra sér óharðnaðan vilja unglinga og áhuga þeirra á að prófa eitthvað nýtt. Stundum notfæra þeir sér að unglingar eru undir áhrifum áfengis og móttækilegri en ella fyrir fortölum af þessu tagi.

Fíkniefnasalar eru sölumenn dauðans í orðsins fyllstu merkingu. Öllum eru ljós þau örlög sem beðið geta unglinga sem ekki hafa kjark, kraft og þor til að segja nei við fíkniefnum. Alltof margar fjölskyldur hafa horft á eftir ungmennum þessa leið. Sumum tekst að snúa af braut, aðrir hafa gengið veginn til enda og goldið líf sitt fyrir.

Starf að vímuvörnum er í eðli sínu endalaust. Þótt mikið hafi verið gert á þessu sviði á liðnum árum þá tel ég að enn þurfi að herða róðurinn. Faðir Susie Rutar bendir á að við höfum hér miklu öflugri varnir gegn hryðjuverkum en gegn eiturlyfjastóriðnaðinum. Hann hvatti til stofnunar sjóðs með framlögum landsmanna, til að standa fyrir átaki gegn eiturlyfjasölunni.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að búið sé að stofna slíkan sjóð í minningu Susie Rutar. Ég skora á landsmenn alla að gefa myndarlegt framlag í sjóðinn.

Foreldrum Susie Rutar og fjölskyldu sendi ég hugheilar samúðarkveðjur um leið og ég þakka þeim fyrir hugrekki þeirra að stíga fram með þeim hætti sem þau hafa gert til að vekja athygli á þeirri skelfilegu vá sem eiturlyfjaneyslan er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Þú ert lögmaður, ég er læknir. Við skerum, lyfjum eða geislum burt meinsemdir. Ekki koma allir lifandi úr því stríði.

Hvernig getum við bundið enda á þetta böl? Hvernig getum við komið í veg fyrir að fíkniefnasala verði arðvænleg?   

Gunnar Skúli Ármannsson, 27.6.2007 kl. 22:24

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæl Dögg.

Um leið og ég óska þér til hamingju með þingmannsstarfið þá hvet ég þig til þess að beita þér sem þingmaður í þessum málaflokki svo mest sem verða má, með þinni þekkingu á þessum málum.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 28.6.2007 kl. 00:22

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Fíkniefnasalar eru sölumenn dauðans. Sum fíkniefni eru hins vegar ekki ólögleg þó þau séu hættuleg og dragi marga til dauða. Þannig er um brennda drykki eins og brennivín og vodka. Þetta eru efni sem eru miklu hættulegri en sum ólögleg efni t.d. hass og mikið af afbrotum og heilsutjóni og ógæfu fjölskyldna má rekja beint til þess að einhverjir í fjölskyldunni ánetjast slíkum löglegum fíkniefnum og vímuefnum.

 Það er afar, afar siðlaust og furðulegt að íslensk ferðamálayfirvöld séu að styðja við og auglýsa eitthvað vodka vörumerki þar sem erlendir eigendur hafa sett upp átöppunarverksmiðju hérna.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.6.2007 kl. 12:36

4 identicon

Gott ef rétt er að það eigi að færa smókinn við LSH á Hringbraut. Í mörg hafa aðstandendur þeirra sem hafa náðasamlegast fengið inni á geðdeildum verið að berjast fyrir því að glerbúrið sem geðsjúklingarnir eru hafðir til sýnis og  reykja í verði fjarlægt og komið upp annarri aðstöðu. Í sýningarbúrinu er bæði selt mikið magn af dópi og handrukkað. Ég hef orðið vitni að því.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 28.6.2007 kl. 17:21

5 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Því miður er þetta það ástand sem þið hafið sjálf valið ykkur. Þið hafið gert eiturlyfin spennandi og arðvænlegt með því að banna þau. Þið eruð búin að tryggja tilverugrundvöll siðlausra eiturlyfjasala og í einfeldni ykkar haldið þið virkilega að hægt sé með fjármunum og fasisma að útrýma framboðinu, en skiljið ekki að það er bannið sem viðheldur eftirspurninni. Hægt hefði verið að koma í veg fyrir dauða Susiear auðveldlega ef þessi mál væru upp á yfirborðinu en ekki handsöluð siðlausum og glæpahneigðum undirheimunum.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 28.6.2007 kl. 17:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 389902

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband