Leita í fréttum mbl.is

Grafið undan trúnaði?

Ég er undrandi yfir ýmsum ummælum sem falla í umfjöllun Blaðsins sl. laugardag (bls. 14) vegna dóms Hæstaréttar frá 9. mars sl. (http://www.haestirettur.is/domar?nr=4419) Með dómnum var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um það að mannerfðafræðileg rannsókn mætti fara fram á lífssýnum úr foreldrum málsaðila til að fá úr því skorið hvort faðir stefndu hefði jafnframt verið faðir stefnanda. 

Í umræddri blaðagrein er látið að því liggja að þessi dómur Hæstaréttar vegi að því trúnaðarsambandi sem nauðsynlegt er að ríki milli sjúklings og læknis og geti jafnvel skert traust almennings til vísindasamfélagsins almennt þar sem lífsýnið eigi að nota í öðrum tilgangi en þeim sem gjafinn hafði í huga og jafnvel gegn hagsmunum hans og að athæfið brjóti gegn almennri siðareglu um að sjúkragögn séu ekki notuð nema með upplýstu samþykki þess sem gögnin eru um. Þá brjóti þetta gegn þeirri reglu að sýni séu eingöngu notuð í lækningaskyni fyrir gjafann eða í ópersónulegum vísindarannsóknum.

Um þetta er hægt að segja margt en í bili ætla ég að leyfa mér að benda á þrennt:

  1. Þeir frábæru fræðimenn sem tjá sig um málið láta hjá líða að geta þess að allt sem þau segja byggir á lagaumhverfinu eins og það er í dag. Þetta lagaumhverfi var ekki til staðar á þeim tíma sem umrætt lífsýni var tekið og varðveitt.  
  2. Fróðlegt hefði því verið að fá álitsgjafana til að tjá sig um þá staðreynd að áratugagömul sýni skuli vera til. Það er nefnilega algerlega á hreinu að þessi sýni voru varðveitt án þess að gjafar leyfðu það sérstaklega. Þau eru frá þeim tíma þegar samþykki sjúklings átti ekki hátt upp á pallborðið. Það er því fráleitt að halda því fram að sýni frá þessum tíma sé verið að nota í öðrum tilgangi en þeim sem gjafinn ætlaðist til. Gjafinn var einfaldlega aldrei spurður og því ljóst að hann "gaf" aldrei sýnin. Lífsýnasafnið sem þessu gömlu sýni hafa verið varðveitt í varð til fyrir framtak "framsýns" einstaklings sem virðist hafa tekið það upp hjá sjálfum sér að varðveita lífsýni sem tekin voru úr sjúklingum vegna þjónusturannsókna í þeirra þágu. Ég hygg að í fæstum tilvikum hafi "gjafarnir" vitað að sýnin þeirra yrðu geymd um aldur og eilífð. Þeir hafa sjálfsagt ekkert leitt hugann að því.
  3. Stefnandi í máli þessu er föðurlaus. Um það hefur fallið dómur. Stefnandi á mannréttindavarinn rétt á því að þekkja uppruna sinn. Sá réttur er varinn af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og staðfestur í 1. gr. barnalaga. 

Það hefði verið fróðlegt að heyra álit álitsgjafana á því hvenær minni hagsmunir eiga að víkja fyrir meiri í tilvikum sem þessum. Um það atriði sérstaklega fjallaði einn hæstaréttardómari í sératkvæði í einum af þeim dómum sem fallið hafa í ferli þessa máls. Þar sagði:

Þegar litið er til þeirra ríku hagsmuna sem barn og afkomendur þess hafa af því að fá úr faðerni skorið er ljóst að sýna verður fram á að aðrir ríkari hagsmunir ráði því að slíkri sönnunarfærslu verði hafnað. Í máli þessu hefur ekki verið sýnt fram á slíka hagsmuni. http://www.haestirettur.is/domar?nr=3942

Hér segir hæstaréttadómarinn skýrum orðum að friðhelgi hinna látnu í tilvikum sem þessum víki fyrir mannréttindavörðum rétti barns og afkomenda af því að fá úr faðerni skorið.

Ég vísa því á bug að þessi dómur Hæstaréttar grafi undan trúnaði almennings til vísindasamfélagsins. Þvert á móti held ég að með þessum dómi verði almenningi betur ljóst mikilvægi þess að varðveita lífsýni og geri sér grein fyrir að lífsýni er hægt að nota í margvíslegum tilgangi. Síðan leyfi ég mér að minna á að 9. gr. lífsýnasafnslaga nr. 110/2000 gerir sérstaklega ráð fyrir að heimilt sé að nota lífsýni í tilgangi sem þessum, sbr. 4. mgr. 9. gr. þar sem segir:

Safnstjórn getur, að fengnu leyfi Persónuverndar og vísindasiðanefndar, heimilað notkun lífsýna í öðrum tilgangi en ætlað var þegar þau voru tekin, enda mæli brýnir hagsmunir með því og ávinningurinn vegi þyngra en hugsanlegt óhagræði fyrir lífsýnisgjafann eða aðra aðila.

 Í skýringum með 9. gr. frumvarpsins segir að slík tilvik geti komið upp m.a. vegna erfðamála eða annarrar laganauðsynjar (http://www.althingi.is/altext/125/s/0835.html) Barnsfaðernimál eru augljóslega slík laganauðsyn. Í þessu máli liggur fyrir að ekki var beint óskað eftir aðgangi að sýnunum gegnum safnstjórnina heldur var krafist dómsúrskurðar um þann aðgang og dómur samþykkti aðganginn. Af þeim dómi er safnstjórnin bundin og hann gengur lengra en það ákvæði 4. mgr. 9. gr. að notkunin sé háð leyfi Persónuverndar og vísindasiðanefndar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 389904

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband