Leita í fréttum mbl.is

Jöfn foreldraábyrgð

Það er bjargföst skoðun mín að eitt mikilvægasta jafnréttismálið sé að jafna foreldraábyrgð, án tillits til þess hvort foreldrar búa saman eða ekki. Ég tel að umgengni barns og þess foreldris sem barnið býr ekki hjá eigi að vera sem jöfnust enda leyfi búseta foreldranna það. Vart ætti að þurfa að taka fram að hér er ég að tala um þann þorra tilvika þar sem báðir foreldrar eru ósköp venjulegt fólk sem allt er í lagi hjá. Ég er ekki að tala um tilvikin þar sem einhver vandamál eru í gangi hjá foreldrunum, öðru eða báðum.

Í þeim tilvikum þar sem foreldrar hafa ákveðið að barn búi jafnt hjá báðum, t.d. viku í senn á hvorum stað, tel ég mikilvægt að foreldrar geti einnig ákveðið að barnið eigi lögheimili hjá báðum foreldrum þannig að báðir foreldrar fái stöðu einstæðs foreldris og skipti milli sín þeirri opinberu aðstoð sem einstæðum foreldrum er veitt. Jafnframt tel ég að í slíkum tilvikum eigi að endurskoða það fyrirkomulag meðlagsgreiðslna sem nú gildir enda verði tryggt að foreldrar í raun leggi jafnt af  mörkum til framfærslukostnaðar barnsins (fatakaupa, skólagjalda, kostnaðar vegna tómstunda o.s.frv.).

Félag ábyrgra feðra birti í blöðunum í gær og í dag auglýsingar þar sem spurningum er varpað til frambjóðenda. Ég vil svara þessum spurningunum með eftirfarandi hætti:   

Ég styð það eindregið að dómarar geti dæmt sameiginlega forsjá.  Forsjárnefndin sem ég veitti forystu, lagði þetta til í lokaskýrslu sinni í mars 2005 og rökstuddi þá afstöðu sína með eftirfarandi hætti (sjá skýrslu í heild: http://www.domsmalaraduneyti.is/media/Skyrslur/Forsjarnefnd-lokaskyrsla.pdf):

"Með því væru foreldrum send skýr skilaboð af hálfu löggjafans um það að forsjá barna sé sameiginlegt verkefni beggja foreldra sem þeir eigi að axla sameiginlega þótt sambúð eða hjúskap þeirra sé lokið. Telja má að slík löggjöf væri í samræmi við breytt viðhorf til jafnréttis, sem m.a. hefur endurspeglast í löggjöf um jafnan rétt foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs."  

Ég tel að það þurfi að endurskoða margt varðandi umgengni foreldra og barna sem ekki búa saman. Það þarf m.a. að setja skýrari viðmiðunarreglur um lágmarksumgengni sem úrskurðuð er. Varðandi viðbrögð við því þegar umgengni fellur niður þá geri ég skýran greinarmun á tilefnislausum umgengnistálmunum annars vegar og stöðvun á umgengni þegar umgengnin virðist vera barni beinlínis skaðleg. Vegna tilefnislausra tálmana á umgengni þá þarf að finna betri og árangursríkari úrræði til að knýja fram umgengni. Dagsektaúrræðið virðist ekki vera að virka sem skyldi. Forsjárnefndin lagði m.a. til frystingu á meðlagi í slíkum tilvikum. Ég tel enn að það úrræði eigi að taka til nánari skoðunar. Tilefnislaus tálmun á umgengn er alltaf óafsakanleg. Séu skýrar vísbendingar að mati hlutlauss fagaðila um að umgengni sé barni skaðleg tel ég að barnið eigi í slíkum tilvikum ætíð að njóta vafans og að ekki eigi að knýja fram umgengni í slíkum tilvikum, hvorki með dagsektum né öðrum leiðum. 

Ég tel að sú meginregla eigi að gilda að við fráfall annars foreldris eigi forsjá barns að fara til hins foreldrisins án tillits til hvort forsjá hefur verið sameiginleg eða ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Takk fyrir þennan pistil Dögg En eins og staðan er í dag, fara þá ekki báðir foreldrar með forsjá barna ef þeir eru í lagi ? var bara að spá í þar sem kemur neðst fram í textanum að ef forsjáraðili fellur frá þá fær hitt foreldri forsjána, hvort sem hann hafi haft hana að hluta eða ekki. Þá þyrftu að vera einhverjar reglur um það er það ekki ?

En takk fyrir góðan pistil eins og oft áður

Kveðja Inga Lára 

Inga Lára Helgadóttir, 5.5.2007 kl. 00:33

2 Smámynd: Þröstur Unnar

Hvernig er það að virka á barnið að eiga tvö föst heimili, kanski viku á hvorum stað.Er þetta gott fyrir barnið,þaf það ekki að vera með eitt fast heimili?

Er að taka dóttur mína svolítið óreglulega og oft. Stundum bara sækji ég hana á leikskólann og skila henni "heim" um kvöldmatinn.

Það þarf að vera öruggt að það að búa á tveim heimilum muni ekki valda barninu meiri röskun en hitt.

Tek fram að stúlkan er 2ja og hálfs árs, góð samskipti foreldra og sameiginleg forsjá.

Þröstur Unnar, 5.5.2007 kl. 08:36

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ég er ekki viss um að tvö heimili séu sniðug lausn fyrir barn. Veit um nokkur tilfelli þar sem það hefur valdið börnum óöryggi að muna kannski ekki hvort þau eigi að fara heim til mömmu eða heim til pabba eftir skóla ... Heyrði um snjalla foreldra sem skiptast bara á að búa með barninu á heimili þess!  

Guðríður Haraldsdóttir, 5.5.2007 kl. 22:10

4 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Eina sem ég er að hugsa um að ýmist fer það vel eða illa í börn að vera á miklu flakki, það getur haft ekki nógu góð áhrif, en svo hefur það heppnast vel hjá mörgum ..... eins og fólki sem ég þekki vel til 

Inga Lára Helgadóttir, 5.5.2007 kl. 23:56

5 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

...en vil bæta því við að þetta er mjög góður möguleiki til að hafa opinn fyrir fólki sem er tilbúið að meta börn sín sem þau geti gert þetta. Mér finnst þetta auka á frelsi einstaklingsins til að taka ábyrgð er það ekki bara Dögg ? Held að það sé til góðs

Inga Lára Helgadóttir, 5.5.2007 kl. 23:58

6 identicon

Þetta er gott innlegg. Allar rannsóknir  styðja að börn sem alast upp án annars foreldris  er mun hættara við að lenda afvega í lífinu.  Mikilvægt er því að tryggja að báðir  foreldrar séu ávallt uppalendur barns.  Það mikilvægt að upplýsa samfélagið að báðir foreldrar  eru bestu hagsmunir barna, líka þegar foreldrar búa ekki saman.  Vika og vika er gott fyrirkomulag bæði fyrir foreldra  og börn að gefinni þeirri forsendu að foreldrar búa í sama skólahverfi og foreldrar geti haft samskipti.   Það má skoða allar faglegar röksemdir fyrir sameiginlegri forsjá og jafnri umönnun á vefnum www.spig.clara.net,   Af þeim sem skilja  í Svíþjóð í dag  þá velja yfir 20% að hafa jafna búsetu.  Þetta er meir ein 10 földun á  10 árum.  Þessum börnum vegnar mun betur en öðrum skilnaðarbörnum.  Öll rök og tíminn vinnur með því  að öll börn eiga rétt á tveimur  foreldrum, óháð hjúskaparstöðu foreldranna, að gefinni þeirri forsendu að foreldrarnir eru heilir  heilsu.kveðjaGísli Gíslason. gisligislason@simnet.is

Gísli Gíslason (IP-tala skráð) 6.5.2007 kl. 19:10

7 identicon

Frábært innlegg hjá þér Dögg!

Ég er faðir barns sem ekki býr hjá mér og þekki af eigin raun þau vandamál sem því fylgja og að upplifa mig sem barnapíu frekar en föður.

Að vera ekki boðið í skírnarveislu barnsins míns.

Að þurfa að biðja um leyfi til að bjóða systkinum mínum til skírnarathafnar í kirkju.

Að gera aldrei neitt rétt og sitja undir niðursetningarræðum barnsmóður þegar ég "skila" barni mínu ekki í "réttu" sokkabuxunum.

Að heyra það að öllum í fjölskyldu móðurinnar finnist ég lélegur pappír af því að ég neita að borga rúmlega tvöfallt meðlag. (Þrátt fyrir að það væri vel rúmlega framfærlslukostnaður að frádregnum styrkjum og bótum sem barnsmóðir fær)

Að búa við það að eftir því sem ég tengist barni mínu meira, þess meira tangarhald hefur móðurin á mér ef henni dettur í hug að "beita" barninu í sókn eftir meiri peningum.

Að vita það að þó við séum með sameiginlegt forræði (ekki sama og sameiginleg umgengni - fyrir þau sem ekki vita) getur hún hvenær sem er farið í forræðismál og unnið fullt forræði þar sem dómarar mega ekki dæma í sameiginlegt forræði heldur verður annað foreldri að "tapa" og annað að "vinna" sem á endanum er tap allra, ekki síst barnsins.

Að vita það að ef ég "haga mér ekki vel" þá getur móðirin farið fram á þrefallt meðlag með þessu eina barni (sem svarar til nálega 60 þ. kr.) með úrskurði frá Sýslumanninum. Þrátt fyrir að hægt sé að sýna fram á að einfalt meðlag stendur straum af öllum framfærslukostnaði þessa barns eftir að styrkjum og bótum ríkisins til barnsmóður sleppir. (Fáir virðast vita af tekjutengingu meðlaga).

Að þurfa að vera kurteis og viðmótsþýður í samskiptum við barnsmóður, venslafólk hennar og fjölskyldu þrátt fyrir að sitja einatt undir eintómu skítkasti af hennar hálfu og skynja vanþóknun hinna í allri famkomu. Mega aldrei hlaupa á sig í samskiptum þar sem móðirin hefur lagalegan rétt til misbeitingar.

Ég velti fyrir mér hvað fólk hefur á móti jafnskiptri umgengni. Þær rannsóknir sem liggja að baki niðurstöðum sem kynntar eru téðri auglýsingu Félags Ábyrgra Feðra sýna einmitt fram á jákvæð áhrif jafnskiptrar umgengni. Hversvegna leyfir fólk sér svo gjarnan í þessu máli að vísa til eins, tveggja eða þriggja dæma sem það þekkir úr eigin reynsluheimi? Eigum við að nota flökkusöguna um manninn sem bjargaðist úr bílslysi vegna þess að hann var ekki með bílbelti sem röksemdafærslu fyrir því að nota ekki belti sjálf?

Eru tilfinningar mínar minna virði en móðurinnar? Er rangt að ég sakni samveru við barnið mitt? Er rangt að mér finnist önnur hver helgi með barni mínu vera húmbúkk? Er rangt að ég skynji að með samveru aðra hverja helgi mun ég ekki geta komið neinu til leiðar, lagt nokkuð til inn í uppeldi barnsins míns?

Er ég bara Pappi peningur?

Ps. ég skrifa undir nafnleynd til að rugga ekki bátnum.

Nafnlaus (IP-tala skráð) 6.5.2007 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband